Karel
— Rannsóknarvettvangur rímna
Lemmata   |   Textatengsl   |   Ordbog β  

Rit Rímnafélagsins I — Sveins rímur Múkssonar

Formáli

I Rímnalist, handrit og útgáfa

eftir Björn K. Þórólfsson

Fyrr og síðar töldu rímnaskáld braglistina höfuðatriði skáldmenntar sinnar, Svo lengi sem rímnagerð tíðkaðist með þjóð vorri þreyttust þau ekki á því að auka fjölbreytni og dýrleika bragarháttanna, og þeim tókst að skapa nýjungar, sem bragsnillingar 19. og 20. aldar færðu sér í nyt og kunnu að meta.

Sveins rímur Múkssonar munu vera ortar um miðja 17. öld, og var þá liðið hátt á öld síðan þeir Magnús prúði, Þórður á Strjúgi og Hallur Magnússon hófu nýtt tímabil í braglist rímna. Höfundur Sveinsrímna var mikils metið skáld, og þær eru í tölu lengri rímnaflokka, svo að skáldið vantaði ekki svigrúm til að leika listir sínar.

Í Sveinsrímum er jafnan skipt um bragarhátt við rímnaskil, og er hver ríma ein um hátt. Þó eru háttabrigði nokkuru fleiri en rímurnar, því að í sumum þeirra er niðurlagserindið dýrra kveðið en ríman að öðru leyti, undir dýru tilbrigði af hætti hennar. Þetta komst í tízku á 17. öld. Tilbrigði ferskeyttra hátta eru flest, og undir háttum þeirrar bragættar er kveðinn nálega þriðjungur rímnanna. Þetta hvorttveggja er í samræmi við venju rímnaskálda, enda hefur ferskeyttur háttur mesta hæfni til nýmyndana allra íslenzkra bragarhátta að fornu og nýju. Það er og hefðbundin siðverja, sem öldum saman mun ekki út af brugðið, að kveða fyrstu rímu undir ferskeyttum hætti óbreyttum.

Einn af bragarháttum Sveinsrímna, háttur þriðju rímu, er fundinn af höfundi þeirra og nefndur eftir honum. Hátturinn er ekki nefndur með nafni í Sveinsrímum, en nafn hans finnst í Grettisrímum sama höfundar. Niðurlagserindi 18. rímu þar hljóðar svo:

Kolbeinslag má kalla brag,
kvæðið þver og úti er,
Gangi í hag með gæfuplag
gullskorð hér og málma grér.

Sennilegt er, að bragarhættinum sé upphaflega gefið þetta nafn af öðrum en höfundi hans. Það var ekki siður rímnaskálda að nefna bragarhætti eftir sjálfum sér, en hitt var fremur, að almenningur gæfi háttum nöfn eftir skáldum, sem vitað var, að höfðu fundið þá. Ef til vill er Kolbeinslag fyrst kveðið í Sveinsrímum. Þetta dýra tilbrigði gagraljóða hefur vakið eftirtekt og menn hafa kennt það við höfund sinn, en hann tekur nafnið upp í Grettisrímum og festist það síðan við háttinn.

Í fimm rímum nefnir skáldið bragarhættina með nöfnum, og eru þau þessi: afhending iv, 3; skothending vi, 81; gagara(h)ljóð (gagravilla) viii, 12; áttmælingur (áttþættingur) xiii, 72; alhending (ferskeytt framaðalhent) xxii, 2.

Eins og títt er um rímur frá fyrri öldum, eru bragarhættir Sveinsrímna ekki svo föstum reglum bundnir um stýfð og óstýfð vísuorð sem krafizt var á 19. öld. Í ferskeyttu rímunum öllum nema 20. rímu (stefjahruni) koma fyrir erindi með öll vísuorð óstýfð, í skáhendu (11. rímu) er öðru hvoru 1. eða 3. vo. óstýft, og í úrkasti framaðalhendu (15. rímu) koma fyrir erindi með 2. og 4. vo. stýfð. Í stafhendu (annari rímu) eru stundum 1. og 2. eða 3. og 4. vo. óstýlð, og bæði í samhendu rímunum og þriðju rímu (Kolbeinslagi) koma fyrir erindi með öll vísuorð óstýfð. Í 17. rímu (braghendu) koma fyrir alstýfð erindi. Sum þessara afbrigða voru síðar skoðuð sem sérstakir bragarhættir og fengu nöfn eftir því. Stýfð braghenda er nefnd valhenda, úrkast með 2. og 4. vo, stýfð hefur fengið nafnið dverghenda og óstýft ferskeytt nefnist hrynjandi. En höfundur Sveinsrímna hefur ekki þekki svo nákvæma sundurgreiningu háttanna, heldur litið svo á, að ríma væri ort undir sama hætti frá upphafi til enda, þó að sum erindi hennar væru óregluleg um þau atriði, sem nú voru talin. Líku máli gegnir um breytileik bragarháttarins í 20. rímu. Hún er að mestu leyti ort undir skothendu stefjahruni, en 12 erindi (þar á meðal fyrsta og annað) undir skothendri skammhendu. Munur á stefjahruni og skammhendu er ekki annar en sá, að í skammhendu eru 1. og 3. vo. óstýfð, einni léttri samstöfu lengri en í stefjahruni, og um þær mundir, er Sveinsrímur voru ortar, hafa menn ekki fundið neitt rangt í því að fara með þetta sem einn og sama bragarhátt.1)

Nú skal gefa yfirlit um bragarhætti Sveinsrímna eftir bragættum og dýrleika. Bragorð hin sömu sem í formála Olgeirsrínna.

I Ferskeytt ætt eða ferskeyttir hættir og tilbrigði þeirra.  
1 Ferskeytt óbreytt, frumbragurinn 1. ríma
2 Ferskeytt framaðalhent í öllum vísuorðum 22. ríma
3 Ferskeytt framsniðhent í öllum vísuorðum, tásneitt í 1. og 3. vo. 19. ríma
4 Al- og einssneitt, víxlhent xix, 69
5 Skothent 6. ríma
6 Tályklað í 1. og 3. vo. 23. ríma
7 Framaðalhent í öllum vísuorðum, táaðalhent í 1. og 3. vo., aldýra 10. ríma
8 Stefjahrun skothent 20. ríma
9 Refhvörf vi, 6-11

Refhvörf eru að vísu fremur tilbrigði í stíl en bragarhætti.

II Skáhent  
  frumbragurinn óbreyttur 11. ríma
III Úrkast  
1 Úrkast framaðalhent í 1. og 3. vo. 15. ríma
2 Úrkast skothent 7. ríma
3 Úrkast vixlhent, alsneitt vii, 74
IV Stafhent  
1 Stafhenda, frumbragurinn óbreyttur 2. ríma
2 Stafhenda siðþráhend, síðhringhend og síðtálykluð ii, 109
V Samhenduætt.  
1 Samhenda framaðalhend í öllum vísuorðum 12. ríma
2 Samhenda framaðalhend í öllum vísuorðum, mistálykluð xii, 48
3 Áttþættingur 13. ríma
IV Stikluvik,  
1 Stikluvik þríhent 9. ríma
2 Stikluvík þríhent, þráhent ix, 80
VII Gagraljóða ætt.  
1 Gagraljóð vixlhend, hendinga og rímliða aðalhend, Kolbeinslag 3. ríma
2 Kolbeinslag víxlað í öllum vísuorðum iii, 75
3 Gagravilla óbreytt 8. ríma
4 Gagravilla víxlhend, hendingasneidd 21. ríma
5 Gagravilla víxlhend, víxlhendu og rímsneidd xxi, 59
6 Gagravilla al- og einssneidd, aldýr viii, 79
VIII Braghendu ætt.  
1 Braghenda alsamrímuð óbreytt, frumbragurinn 17. ríma
2 Braghenda miðhend og hringhend, skjálfhenda 16. ríma
3 Braghenda rímsneidd eða baksneidd, baksneiða 14. ríma
IX Stuðlafall.  
1 Stuðlafall einstafað, kurlað 18. ríma
2 Stuðlafall baksneitt, framsniðhent í 1. vo., sniðhendu og rímsneitt 5. ríma
3 Stuðlafall baksneitt, al- og einssneitt v, 74
X Afhent óbreytt,  
  frumbragurinn 4, ríma

Næst fjölbreytilegum og dýrum bragarháttum var skáldamál, heiti og kenningar, talið mesta prýði rimna. Það er fyrst og fremst notað í þjónustu braglistarinnar. Orðaforði þess gerði rímnaskáldum kleift að breyta bragarháttum á svo marga vegu sem raun ber vitni. En meðferð skáldamálsins, einkum kenninga, er mjög misjöfn og gölluð hjá þeim flestum. Höfundur Sveinsrímna á þar óskilið mál. Þær eru víða rangt kenndar, eins og Árni Magnússon kemst að orði. Oftast eru villur skáldsins í því fólgnar, að það ruglar saman heitum, notar heiti dverga og jötna sem Óðinsheiti o, s. frv. Það er ekki óskylt þessum ruglingi, þegar skáldið villist á goðum, kennir jörðina mey Þórs o.s.frv. Mörg dæmi um þetta hvorttveggja eru sýnd í skýringunum. Þó kemur enn fráleitara fyrir, svo sem þegar sverð er kennt benja faldur (i, 55), og er þá ekki grunlaust um, að lítt sé hirt, hvermg kenning er saman sett, en ætlazt til, að hún skiljist af sambandinu. Heiti geta líka verið alröng, eins og t. d. rítar (hermenn) ix, 14, Þrátt fyrir þetta er auðsætt, að skáldið þekkir Snorra-Eddu. Kenningar eins og bróðir sá, er átti Auður (ii, 104) eru myndaðar beint eftir henni, og benda má á sævarheitið leið (xxii, 63), sem finnst mjög óvíða í fornum skáldskap utan Eddu og kemur ekki fyrir í miðaldarímum. Óska arfar Ása tiggja (vii, 44) er tekið úr Eddu með orðalagi breyttu vegna hendinga og ríms. Í Eddu er brot úr Bjarkamálum og til þess brots bendir orðalag xvii, 49. Greinilegust er Edduþekking skáldsins í mansöng 19. rímu, þar sem rakin er sagan um það, hvernig Æsir komust að skáldamiðinum, sbr. og xiii, 6.

Orðaforði rímnanna er mikill, og í þeim er fleira fornlegra orða og orðatiltækja en venjulega er búizt við að finna í máli 17. aldar manna. Ósvikinn fornaldarkeimur er að orðunum „Djarfur ert og dulinn að þér“ (iv, 21), og fleira mætti nefna. Útlendar slettur eru í færra lagi,, ef miðað er við 17. öld. Annað mál er, að vandfýsni er ekki alltaf ströng um myndun orða, og hefur skáldið það til að láta fjúka óvandað þar eins og í kenningunum.

Í mansöngum Sveinsrímna eru yrkisefnin aðallega tvenns konar: mas um skáldskap, einkum ljóðagerð skáldsins sjálfs, og hugleiðingar út af efni rímnanna. Skáldið fylgir siönum að niðra sjálfu sér, en bregður út af honum í mansöng þriðju rímu og hælir sér af orðamenmi, er líka að fara með bragarhátt eftir sjálft sig. Bæði í mansöng sjöttu rímu (refhvörfunum) og víðar kennir nokkurrar heimsádeilu, Skáldinu er tamt að gefa heilræði, sérstaklega kvenfólki. Í mansöng sjöundu rímu eru taldir nokkurir kappar, sem börðust fyrir konur. Mansöngvar 20.– 28. rímu bera vott um hrifningu skáldsins af helgisögunni, sem er efni síðasta kafla rímnanna.

Sveinsrímur eru til í fjórum handritum, þar af tveimur, sem hafa sjálfstætt gildi.

Elzt er handritið 615 n, 4to í safni Árna Magnússonar, framvegis táknað AM. Það geymir rímurnar allar, og er titill þeirra og höfundarnafn efst á fyrstu blaðsíðu: Hier Skrifast Rýmur Af Sveine Mwksins Syne kvednar af Kolbeine S(áluga) Grijms Syne . Skrifarinn getur þess við niðurlag rímnanna, að handritið sé skrifað árið 1693. Það er blettótt af raka á kafla framan til, en hvergi ólæsilegt. Rifið er lítið eitt ofan af 23. blaði, sbr. skýringar við fimmtu og sjöttu rímu. Að öðru leyti er handritið óskemmt. Frágangur þess er allur með prýði, höndin föst og skýr. Bönd og skammstafanir er heldur í minna lagi notað. Hér skal gerð grein fyrir örfáum atriðum í réttritun handritsins. Þar er að nokkuru leyti greint milli breiðra og grannra sérhljóða. Mjög oft eru á og ó greind frá a og o , ýmist með því að setja tvo brodda yfir stafina, sem vér skrifum með einum broddi, eða að á , ó er táknað með því að skrifa tvöfalt a , o . Einnig er í oft skrifað ij eða settir yfir það tveir punktar til greiningar frá i . Miklu sjaldnar er ú greint frá u og skrifað w eða tvíbroddað w . Að vísu eru allir þeir stafir, sem tákna grönnu hljóðin, einnig notaðir óbreyttir til að tákna hin breiðu, en stafir þeir eða stafasambönd, sem tákna breiðu hljóðin sérstaklega, munu aldrei tákna hin grönnu. Sjaldan mun af því brugðið, að ö sé skrifað með staf, sem ekki er notaður til að tákna önnur hljóð, og eru gerðir þess þrjár: 1) eins og ó nú, 2) strikað ( ø ), 3) gerð, sem líkist stafnum œ í nútíma snarhönd, en stafar sennilega frá ø . Að því er til samhljóða kemur, skal minnast á stafsetningu erlendra eiginnafna. Í þeim er oft skrifað ch eða c þar sem vér skrifum k : Cholindras iv, 77; Africánar vii, 37; Africam viii, 26. Í upphafi erlendra nafna er oft skrifuð einkennileg gerð af K , sem að uppruna mun vera tilbrigði af Q , en gæti líka minnt á C . Með þessu K eru ávallt skrifuð mannanöfnin Kleópatra, Klímákus og Kórant, einnig staðanöfnin Kletemester og Kordus. Í nafninu Klímákus er ávallt skrifað ch , þar sem vér ritum litla k-ið. Nafnið Makon er ýmist skrifað Machon eða Macon.

Ekki er vitað, hvar eða hvenær Árni Magnússon hefur fengið handritið, og ekki þekkjum vér heldur skrifarann, Framan við það er bundið ágrip af efni Sveinsrimna með hendi Árna, en með yngri hendi er strikað yfir mikið af fyrsta blaðinu og þar skrifað fyllra ágrip af efni 1.–4. rímu. Aftan við ágripið er smágrein um rímurnar, einnig með hendi Árna, og telur hann þær „ekki illa kveðnar“, en „víða rangt kenndar“.

Í rímnabókinni Lbs. 192, fol., eru Sveinsrímur með hendi Árna skálds Böðvarssonar. Þær eru aftastar sex rímnaflokka með hendi hans. Við niðurlag eins þeirra, Droplaugarsonarímna eftir Árna sjálfan, getur hann þess, að þær séu skrifaðar árið 1762, og er sennilegt, að Sveinsrímur séu skrifaðar um sama leyti. Á eftir þeim koma síðustu rímurnar í bókinni, Grettisrímur, einnig eftir Kolbein Grímsson, skrifaðar af Jóni nokkurum Sigurðssyni 1762. Öll er bókin skrifuð fyrir Jón Árnason, sýslumann á Ingjaldshóli. Sá hluti hennar, sem er með hendi Árna Böðvarssonar, mun upphaflega hafa verið bundinn sér. Skemmdir eru mestar fremst í bókinni og svo á síðustu blöðum Sveinsrímna, og bendir þetta til þess, að þær hafi verið aftast í bók. Úr þeim hefur týnzt aftasta blaðið, og vantar því niðurlag þeirra, erindin xxiii, 69–73. Aftasta blað, sem geymzt hefur, er rifið á efri hornum, og af fáeinufn blöðum öðrum er rifið lítið eitt. Víða eru blöð fúin á jöðrum, en þó einkum við kjöl, og er límt yfir skemmdirnar með gagnsæjum pappír, sem nú er fallið á, svo að ekki verður alls staðar lesið í gegn um hann. Eru því öðru hvoru ólæsileg orð, einkum í upphöfum lína á hægri handar blaðsíðum: Hönd Árna er mjög skýr, og verður tæplega villzt um staf, þar sem handritið er óskemmt. Þetta handrit Sveinsrímna verður framvegis táknað ÁB .

Í rímnabókinni Lbs. 699, 4t0 með hendi Þorsteins Þorsteinssonar á Heiði í Sléttuhlíð eru Sveinsrímur, afrit eftir ÁB meðan það var heilt og lítt eða ekki skemmt. Þar er texti ÁB af niðurlagserindum rímnanna. Þetta handrit verður framvegis táknað 699 .

Í Lbs. 2323, 4t0, rimnabók með hendi Sighvats Grímssonar Borgfirðings, eru Sveinsrímur í miðlungi nákvæmu afriti eftir ÁB, gerðu árið 1885, og hefur ÁB þá verið álíka skemmt og nú. Sighvatur spáir stundum í eyðurnar, þar sem orð eru ólæsileg, en lætur þess getið, að niðurlag síðustu rímu vanti. Þetta handrit verður framvegis táknað Sighv .

Samanburður handritanna AM og ÁB sýnir fljótt og glögglega, að texti AM er upphaflegri í heild, þó að öðru hvoru séu upphatlegri leshættir í ÁB. Sagan, sem rímurnar eru kveðnar eftir, er því miður ekki til samanburðar; en það mun engum dyljast, sem athugar AM og ÁB, að AM fer yfirleitt nær því, sem rímnaskáldið mundi ort hafa. Því er ekki alltaf að treysta, þó að texti ÁB sé í sjálfu sér betri, því að athugun sýnir oft, að þar muni vera lagfæringar afritara, og eru sýnd nokkur dæmi þess í skýringunum. Hér skal minnzt á þrjá leshætti í AM, sem ekki er furða, þó að lesendum komi undarlega fyrir sjónir, en munu samt vera upphaflegir í rímunum og leiðréttir í ÁB. Afneitið iii, 56 er rangmyndað og annars óþekkt orð, en afsvarið , sem í ÁB stendur og raunar á ekki alls kostar vel við í þessu erindi, er hverjum manni svo munntamt orð, að afritari mundi ekki gera þá breytingu á texta að setja leshátt AM í þess stað. Hitt þarf engan að undra, þó að afritari reyndi að leiðrétta þann leshátt, sem AM hefur. Í v, 30 er lesháttur ÁB einnig skiljanlegur sem leiðrétting á leshætti AM, en enginn afritari mundi breyta kljúfum í örmum . Í xvi, 15 segir, að Indiá sé allskammi frá Spáni, og er það ekki góð landafræði, en þó upphaflegt í rímunum. Hér ræðir um heimkynni Claudíu, sem skv. xiv, 49 var dóttir Askleifs Indíakóngs, og þar ber handritunum saman um landsnafnið. Á hinum staðnum hefur ÁB lesháttinn Undía , sem gæti verið afbökun úr nafni landshlutans Umbria á Ítalíu, og vafalaust er breyting afritara, sem vissi, að langt er frá Spáni til Indlands. Stundum er lesháttum, sem í AM. eru ekki aðeins upphaflegir, heldur og góðir að öðru leyti, breytt til hins verra í ÁB, af því að afritari hefur ekki skilið þá. Dæmi: hyllir f. syllir xi, 7; lamaði glamur f. lammaði gammur xii, 16; hananum f. hamnum xiii, 6; klóta f. bóta xviii, 41. Í konungskenningunni bóta njótur kemur fram lagamennska eins og viðar Í rímunum, sbr. vi, 11, en afritari, sem ekki athugaði þetta, hefur breytt bóta í klóta , sem er alþekkt kenniorð í mannkenningum.

Hins vegar er það augljóst mál, að ÁB geymir ýmsa leshætti, sem eru upphaflegri en samsvarandi leshættir í AM. Slíkum stöðum fjölgar, þegar aftar dregur í rímurnar, og virðist skrifari AM þá hafa flýtt sér meir en skyldi. Á nokkurum stöðum hefur ÁB erindi, sem ekki eru í AM, og eru tvö þeirra (xii, 22; xxi, 10) bersýnilega upphafleg. Erindin tvö, sem í ÁB samsvara xvii, 3, munu einnig að miklu leyti upphafleg, en kenningin fagurgolu hlýri (stormur) í fyrra erindinu minnir á Árna Böðvarsson.

Þrátt fyrir mismun handritanna AM og ÁB má telja víst, að þau stafi bæði frá einu og sama glötuðu handriti, sem ekki hafi verið eiginhandarrit rímnaskáldsins. Til þess benda sameiginlegar villur og ekki síður hitt, að stundum er á sömu stöðum brenglaður texti í AM og leiðréttur í ÁB. Til dæmis má taka annað erindi fyrstu rímu. Þar er í. vo. vafalaust aflagað í AM, orðið breyttur virðist ekki geta verið upphaflegt, en ekki er líklegt, að afritari hefði sett svo sjaldhaft heiti sem Brúni er í rímum inn í texta sinn, ef ekki hefði staðið í frumriti hans. Texti ÁB, sem fylgt er í útgáfunni, má heita góður, en í. vo. mun ort upp. Sbr. og xvii, 3. Sennilegast er, að ÁB stafi um einn eða fleiri milliliði frá sama handritinu, sem AM er skrifað eftir. Árni Böðvarsson hefur fengið slæman texta í hendurnar, en lagfært hann samkvæmt þekkingu sinni á skáldamáli, svo að kenningar eru oft réttari hjá honum en sennilega hefur verið í upphaflegum texta rímnanna.

Að sjálfsögðu er AM lagt til grundvallar þessari útgáfu, Þó eru teknir allmargir leshættir eftir ÁB. Þegar vikið er frá AM, er jafnan sagt frá lesháttum þess í skýringum, og er þá í texta útgáfunnar farið eftir ÁB, ef ekki er annars getið í skýringum. Á níu stöðum er breytt frá textum beggja handrita, þar sem þeir eru báðir brenglaðir og auðsætt virtist, hvernig leiðrétta skyldi, en þess getið í skýringum, að leiðrétt sé af útgefanda og greindir leshættir beggja handrita, Þessir staðir eru: i,5 og vii, 3 (sami lesháttur leiðréttur á báðum stöðum); iii, 34; xviii, 38; xix, 11. 19; xxi, 13; xxiii, 48. 44, Enn fremur er þrisvar (xv, 26; xvi, 34; xvii, 49) fylgt leiðréttingum Sighvats Borgfirðings. Í skýringum er getið þeirra leshátta ÁB, sem nokkurar líkur benda til að muni vera upphaflegir, þó að ekki þætti næg ástæða til að taka þá upp í textann, og stöku sinnum er getið leshátta þaðan, sem eru eftirtektar verðir á annan hátt. Þau erindi, sem ÁB hefur um fram AM, eru prentuð í skýringum nema xii, 22 og xxi, 10, sem tekin eru upp í textann, Þess er einnig getið, þegar erindi eru felld niður í ÁB. Þar sem ÁB er ólæsilegt, er stuðzt við 699 og Sighv.

Um orðmyndir er AM að mestu leyti fylgt. Að sjálfsögðu er fornum sagnmyndum á a í et. þát. framsöguháttar og tengiháttar ávallt haldið, þegar þær standa í handritinu. Atviksorðið aldrei (að fornu aldri ) hefur í handritinu ýmist hina fornu eða nýju mynd, og er því fylgt, en þó jafnan ritað aldri þar sem samrímun sýnir, að sú mynd muni vera upphafleg. Ritað er dróttins (hending við ótta) xxii, 27. þó að í handritinu standi drottins og líklega sé fremur að ræða um ónákvæma hendingu en hina fornu mynd orðsins, sem horfin var úr mæltu máli mörgum öldum fyrir daga rímnaskáldsins. Lesendur munu taka eftir því, að karlkenndir ia-stofnar (orð sem beygjast eins og vísir ) eru ýmist með eða án r í aukaföllum et., en svo er í AM og því er fylgt, nema samrímun sýni, að fallmynd eigi að vera án r , þá er því sleppt, þó að í handritinu standi. Haldið er eignarfallsmyndum á -íx af heitum eins og Sviðrir. Sbr. myndina Venrix xix, 10. Jafnan er haldið myndum með r í aukaföllum af orðum eins og Freyr , jór , Týr , ýr , enda eru þær oft háttbundnar. Þegar fleirtöluendingin -ir eða greinirinn er rímað við samstöfur með e , er ritað e í fleirtöluendingunni eða greininum, hvort sem svo er skrifað í handritinu eða ekki. Oft er rímað : é og einnig stundum skrifað je f. , þó að ekki sé háttbundið. Um þetta er handritinu ávallt fylgt, en þegar þar stendur , er því haldið, þó að rímað sé við é . Þó að forn heiti séu afbökuð, er hinum afbökuðu myndum haldið, þegar ætla má, að þær séu upphaflegar, enda algengar Í rímum, svo sem Beisla , Formóður, Gínar(fornar myndir Bestla, Fornjótur, Ginnarr). Samræmdar eru beygingarmyndir frændsemisnafna. Boðháttur sagnarinnar firraer ritaður venju samkvæmt, firr, 1, 22, þó að í báðum handritum standi mynd, sem með samræmdri stafsetningu mundi vera firrðog vel má vera upphafleg, sbr. myndina vitfirrðingurí nútíma talmáli. Ritað er fjörutíu 11, 89, þó að í AM standi stafrétt fióru tijger, sem að öllum líkindum er upphaflegt og bendir til gamalla mynda þess töluorðs, svo sem fjóritigir. Stafsetning er samræmd eftir gildandi reglum, en ekki er skrifað éf. je, sem er breytt úr : Fjelnir, fjer, hjer (hjör), mjeg (sú mynd oft), sje (sjö). Í stuðlun við jer ritað je, sbr. xiv, 23. Erlend nöfn eru rituð með á, ó, ef þau hljóð eru háttbundin: Afríkánar, Alexandríá, Babýlón, og eins þan erlend nöfn, sem koma fyrir þannig skrifuð í handritinu, þó að oftar séu skrifuð með a, o (Klímákus, Sólentar). Þó að erlend nöfn séu í handritinu skrifuð með c eða ch, er skrifað kí útgáfunni, nema í nöfnunum Claudia, Mercurius og Michael.

Um setningu greinarmerkja eru handritin að engu hafandi. Í því efni fylgir útgáfan að mestu þeim reglum, sem nú tíðkast, en þó er notuð semíkomma. Þar sem erindi lýkur án þess að málsgrein sé á enda, er ekki settur punktur og næsta erindi ekki látið hefjast á stórum staf.

Í fyrirsögn hverrar rímu er greindur bragarháttur hennar með bragorðum, sem a.m.k. gefa hugmynd um aðaleinkenni hans.

Í annari og fjórðu rímu mætast mansöngur og ríma í miðju erindi, og er aðeins sá hluti erindisins skáletraður, sem telst til mansöngsins. Skýringarnar eru svo sem við varð komið samdar þannig, að hið sama er ekki skýrt oftar en einu sinni. Lesendur geta því ekki vænzt þess að finna hvern stað, sem þeir kunna að fletta upp, skýrðan sérstaklega, heldur mundi skýring oft finnast við annan stað, þar sem t.d. sama eða sams konar kennnig kæmi fyrir. – Í skýringunum er bæði orðmyndir og stafsetning samræmt.

Skopstælingsú, sem hér er prentuð aftan við Sveinsrímur, stendur skráð í einu þeirra handrita, sem teljast undir nr. 403, 4t0 í safni Jóns Sigurðssonar í Landsbókasafni. Á kápu stendur: Fragment af Rímum af Sveini Múkssyni á ný út skrifad eptir Auctoris eginn handar riti, 1802. Fyrirsögn kvæðisins er: Ellefta Ríma af Sveini Múkssyni. Rithöndin er skýr fljótaskriftarhönd af gerð, sem tíðkaðist um aldamótin 1800, og er ekki ástæða til að rengja skrifarann um ártalið, en ekki hefur tekizt að ganga úr skugga um, hver hann sé. Undir sama handriisnúmeri er afrit frá miðri 19. öld gert eftir þessu handriti. Þó að fyrirsögnin sé orðuð eins og nú var sagt, hefur þetta kvæði aldrei verið ríma í rímnaflokki, heldur frá öndverðu eitt sér, stök ríma eins og fleiri skopkvæði, enda rímuformið sjálfsagt hér samkvæmt tilgangi skáldsins. Þetta er skopstæling á Sveinsrímum, ýkjur þeirra og feiknir auknar og margfaldaðar stórkostlega, en um leið eru ýkjusögur yfirleitt hafðar í huga, sbr. Bragða Mágus og Olgeir danska. Ónotaleg sneið til riddarasagna er fólgin í nafni Íragálu. Stíll rímna er einnig hafður að skotspæni, sbr, annað erindi. Skopstælingin er mætavel kveðin, en hún er því miður nafnlaus. Ekki er vafi á því, að hún er ort seint á 18. öld eða um aldamótin 1800, og hefur skáldið verið mótað af skynsemishyggju 18. aldar. Einn af fylgismönnum þeirrar stefnu, Sveinn lögmaður Sölvason, hæðist í mansöngum rímna sinna að ýkjusögum og rímum út af þeim, en ef dæma skal eftir bekktum skáldskap Sveins, virðist hæpið að eigna honum svo vel ort kvæði sem þetta. Það er miklu líkara skáldskap Sigurðar Péturssonar, og má sérstaklega benda á Stellurímur til samanburðar.

Eg þakka öllum, sem hafa veitt mér aðstoð við útgáfuna. Samnefndarmenn mínir í útgáfunefnd Rímnafélagsins, þeir Finnur Sigmundsson, landsbókavörður, og kand. mag. Jakob Benediktsson, hafa lesið aðra próförk af textanum, og á eg þeim ýmsar góðar bendingar að þakka. Þegar próf, Einar Ól. Sveinsson var að semja ritgerð þá, er hann birtir hér í formálanum, ræddi eg við hann mér til gagns bæði um Sveinsrímur og skopstælinguna. Snæbjörn Jónsson, bóksali, hefur fylgzt með útgáfunni af hinum mesta áhuga, og frá honum hef eg fengið góðar tillögur. Forstöðumanni Árnasafns í Kaupmannahöfn, próf. Jóni Helgasyni, þakka eg góðfúslegt lán á aðalhandriti Sveinsrímna.

Þeir dr. Björn Sigfússon og próf. Einar Ól. Sveinsson hafa að sjálfsögðu einir veg og vanda af þeim köflum þessa formála, sem þeir eru höfundar að. Ritgerð próf. Einars kemur einnig í enskri þýðingu eftir Snæbjörn Jónsson, Sá kafli, sem fyrstur er í þýðingunmi, var með samþykki höfundar felldur úr hinum íslenzka texta ritgerðarinnar, þar eð óþarft þótti að endursegja efni rímnanna fyrir íslenzka lesendur, Rímnafélagið vottar Alþingi þakkir fyrir styrk úr ríkissjóði.

Björn K. Þórólfsson.

  1. Í Olgeirsrímum (ortum 1680) greinir Guðmundur Bergþórsson valhendu og dverghendu frá braghendu og úrkasti, einnig skammhendu frá stefjahruni, en ekki greinir hann hrynjandi frá ferskeyttu, Sbr. formála Olgeirsrímna bls. xxxiv. 


Neðanmálsgreinar

1. Í Olgeirsrímum (ortum 1680) greinir Guðmundur Bergþórsson valhendu og dverghendu frá braghendu og úrkasti