Svend Nielsen

Rímnakveðskapur tíu kvæðamanna

Rannsókn á tilbrigðum


Ritstjórn og þýðing

Rósa Þorsteinsdóttir

reykjavík
stofnun árna magnússonar í íslenskum fræðum
2022

Útgáfa bókarinnar er styrkt af

Tónlistarsjóði Íslands

Ritstjóri og þýðing úr dönsku
rósa þorsteinsdóttir
Ljósmyndir
svend nielsen
Yfirlestur, ráðgjöf og hljóðvinnsla
sólrún hedda benedikz
Nótnasetning, yfirlestur, ráðgjöf og umbrot
pétur húni björnsson
Prófarkalestur
svanhildur maría gunnarsdóttir
Copyright © Svend Nielsen; Rósa Þorsteinsdóttir
ISBN 978-9979-654-63-6
Útgáfa 1.1, febrúar 2023.
Útgáfa 1.0, apríl 2022.


rósa þorsteinsdóttir

Inngangur

Með sanni má segja að með þeirri rannsókn sem hér birtist sé brotið blað í rannsóknum á íslenskum kvæðamönnum og kvæðalögum. Þrátt fyrir að breytingar og tilbrigði sé aðaleinkenni þjóðfræðaefnis sem flutt er án stuðnings bóka hafa rannsóknir á þeim og hugsunin um hvað það er sem breytist frá einum flutningi til annars ekki verið áberandi í þjóðfræðirannsóknum (sjá Honko 2000, 3–4). Svend Nielsen lýsir því í rannsókn sinni hvernig hann, Hallfreður Örn Eiríksson og Thorkild Knudsen leituðu víða um land að kvæðamönnum sem hefðu alist upp við kveðskap, kveðið sem ungir menn og gætu enn þá kveðið langa kafla úr rímum. Sem betur fer bar leitin árangur og nú, meira en 50 árum seinna, birtist greining á kveðskap tíu þeirra sem hljóðritaðir voru á árunum 1964–1971. Hér í innganginum verður sagt frá þessari rannsókn og hún sett í samhengi við aðrar rannsóknir á munnlegum flutningi kvæða. Einnig verður bent á frekari heimildir en fyrst verða þó gefnar nákvæmari skilgreiningar á rímum og rímnakveðskap en fram koma í rannsókninni sjálfri.

Rímur

Rímur eru löng kvæði í reglubundnu formi (rímnaháttum) þar sem sagðar eru sögur. Elsta varðveitta ríman er ríma af Ólafi helga Haraldssyni í Flateyjarbók þannig að rætur þeirra má rekja aftur til 14. aldar. Þetta er stök ríma en fljótt varð venjan sú að söguefnið skiptist niður í einstakar rímur sem saman mynda síðan rímnaflokk. Í rímum frá miðöldum var algengast að sami bragarháttur væri á flestum eða öllum rímunum í sama rímnaflokki en seinna varð að venju að skipta um bragarhátt við hverja nýja rímu. Höfundar miðaldarímna eru flestir alls óþekktir en gerðar hafa verið tilraunir til að ákvarða aldur rímnanna innbyrðis og finna sameiginleg einkenni þeirra (sjá Haukur Þorgeirsson 2021). Rímur virðast oftast hafa verið ortar eftir sögum sem voru til fyrir, oft riddarasögum, fornaldarsögum eða ævintýrum og fylgja þá sömu lögmálumn og slíkar bókmenntir (Rósa Þorsteinsdóttir 2016, 19). Nokkrar rímur eru ortar eftir Íslendingasögum, nokkrar eftir þýddum sögum og einstaka eru til um kristileg efni. Grundvallarlesefni um rímur og rímnahefðina eru grein Hallfreðar Arnar Eiríkssonar (1975) í Arv, umfjöllun Davíðs Erlingssonar (1989) í sjötta bindi Íslenskrar þjóðmenningar og grein Sverris Tómassonar (2005) í Ritinu og er hér stuðst við þær heimildir auk meistaraprófsritgerðar Péturs Húna Björnssonar frá árinu 2020.

Segja má að rímnakveðskapur hafi verið aðalafþreyingarefni Íslendinga í 500 ár og ekki er mikill vandi að bera hann saman við nútímaafþreyingarefni. Rímurnar voru kveðnar á kvöldvökum (sjá Magnús Gíslason 1977) og flestir rímnaflokkar voru það langir að þeir entust mörg kvöld, urðu þannig framhaldssaga alveg eins og sápuóperurnar og aðrar sjónvarpsþáttaraðir eru í dag. Skipting rímnaflokks niður í einstakar rímur fylgir oft kafla- eða þáttaskilum í sögunni, en oft er líka skilið við atburðarásina á spennandi stað til að auka eftirvæntingu eftir framhaldinu eins og gert er í nútímaglæpaþáttum. Í kvikmyndum er einnig notast við aðferðir sem minna á eldra afþreyingarefni, engin Bondmynd er til dæmis gerð án þess að Bond lendi í miklum skotbardaga og eltingarleik á allskyns farartækjum. Þetta vita allir áhorfendur en þó kemur það ekki í veg fyrir að þeir vilji sjá nýjustu Bondmyndina. Enginn rímnaflokkur sem ortur er eftir fornum sögum er heldur án lýsinga á veisluhöldum, siglingum og bardögum og það virðist ekki hafa komið í veg fyrir að fólk vildi hlusta á sama rímnaflokkinn vetur eftir vetur (sjá Rósa Þorsteinsdóttir 2016, 22).

Á undan hverri rímu í rímnaflokki yrkir skáldið venjulega stuttan formála sem kallaður er mansöngur. Hann er ávallt styttri en ríman sem á eftir fylgir og fjalla rímnaskáldin þar um efni sem oftast er ótengt sögunni sem sögð er í rímunni: „Skáldin barma sér gjarnan yfir áhugaleysi kvenna, hækkandi aldri sínum, hrakandi heilsu, og vangetu til skáldskapar“ (Pétur Húni Björnsson 2020, 5).

Rímur eru ortar undir ákveðnum bragarháttum, með föstum reglum um rím og stuðlasetningu. Í þeim er notað skáldlegt mál, svo sem heiti og kenningar, eins og sagt verður frá nánar hér á eftir. Þetta gerir það að verkum að málfar rímnanna er langt frá hversdagslegu máli og það þarf nokkra þjálfun til að fylgja söguþræðinum. Því hefur síðan verið haldið fram að rímnaskáld sýni sjaldan sjálfstæðan skilning á efni sögunnar sem þeir yrkja eftir og skorti „vilja til þess að breyta söguþræðinum og gera úr honum sína eigin sögu“ (Davíð Erlingsson 1989, 335). En ef til vill er þetta ekki það sem skiptir mestu máli því almennt má segja að það skipti áheyrendurna miklu meira máli „hvernig skáldum tekst að láta söguna ganga sinn gang, að skila henni áfram“ (s. st.).

Rímnahættir

Eins og áður sagði einkennast rímnahættir af föstum reglum um rím, stuðlasetningu og atkvæðafjölda. Vísurnar eru stuðlaðar þannig að þar myndast svokölluð braglínupör, tvær línur stuðla saman. Fyrri lína braglínuparsins, sem kallast frumlína, hefur tvo stuðla og svokölluð síðlína, seinni línan í parinu, hefst á höfuðstaf sem samsvarar stuðlunum í frumlínunni. Stuðlar og höfuðstafir kallast einu nafni ljóðstafir. Braglínur eða vísuorð skiptast í svokallaðar kveður eða bragliði sem að sumu leyti samsvara taktbilum í tónlist. Allir rímnahættir eru byggðir á tvíliðum, þ.e. í hverri kveðu eru tvö atkvæði, þeir eru með endarími og alltaf stuðlaðir eftir fyrrnefndum reglum. Rímnahættirnir skiptast í ferkvæða hætti (með fjórum vísuorðum), þríkvæða hætti (með þremur vísuorðum) og tvíkvæða hætti (með tveimur vísuorðum). Lengd vísuorða er mismunandi eftir háttum en þar er þó einnig fylgt ströngum reglum. Til dæmis eru sjö atkvæði í forlínum – fyrsta og þriðja vísuorði – hefðbundinnar ferskeytlu en sex atkvæði í síðlínum – öðru og fjórða vísuorði. Endarím er nánast algilt og þá oftast (abab) í ferskeytlu, (aaa) í braghendu og (aa) í afhendingu. Fjöldi tilbrigða er til af hverjum þessara þriggja grunnhátta og felst tilbreyting þeirra í mismunandi atkvæðafjölda vísuorða og mismunandi rímmynstrum í endarími og innan vísuorða eða á milli þeirra í svokölluðu innrími (Pétur Húni Björnsson 2020, 5–6).

Íslendingar hafa lengi ort önnur kvæði, og ekki síst lausavísur, undir sömu bragarháttum og rímur, þ.e. rímnaháttum. Segja má að vísnagerð hafi verið þjóðariðkun frá fornu fari og hlutverk vísnanna og efni þeirra er nánast samofið lífi þjóðarinnar í landinu. Í þeim er fjallað um náttúruna, ástina, heimþrá og söknuð eftir látnum vinum; en einnig er ort um hesta, ferðalög, drykkjuskap og veðrið. Þá eru ótal barnagælur til undir rímnaháttum sem einnig eru fjölbreyttar að efni. Þar birtast oft litlar myndir úr daglegu umhverfi barnsins: kveðið er um dýrin og blómin, börnin sjálf og leiki þeirra og störf (Rósa Þorsteinsdóttir 2009, 4). Allar vísur og kvæði sem ort eru undir rímnaháttum er hægt að kveða með rímnalögum.

Helgi Sigurðsson (1892) gerði bragfræði rímna mjög ítarleg skil í riti sínu Safn til bragfræði íslenzkra rímna og Finnur Jónsson (1892) fjallaði um bragfræði rímna í yfirlitsriti sínu Stutt íslenzk bragfræði. Seinni tíma rit um bragfræði eru Bragfræði og Háttatal Sveinbjörns Beinteinssonar frá 1953 og Íslensk bragfræði eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson frá 2013, en Ragnar Ingi fjallaði einnig sérstaklega um bragfræði rímna í bókinni Segulbönd Iðunnar sem út kom 2018. Aðgengilegan inngang að bragfræði rímna eftir Rósu Þorsteinsdóttur og Pétur Húna Björnsson er að finna í Silfurplötum Iðunnar frá 2004.

Hið sérstaka skáldamál rímna verður að teljast hluti forms þeirra ásamt bragarháttunum. Skáldamálið einkennist af notkun kenninga og heita, sem gátu verið hentugur forði bæði til að setja saman vísuorð af réttri lengd með réttri stuðlun og sem rímorð.

  • Heiti eru orð sem nær eingöngu eru notuð í skáldskap. Með því að nota fjölbreytt heiti geta rímnaskáldin komist hjá því að nota stöðugt sömu orðin yfir fyrirbæri sem koma oft fyrir í rímunum. Fjöldamörg heiti eru til en algengust eru þau sem eru samheiti fyrir konung (t.d. buðlungur, lofðungur, döglingur, fylkir, hilmir, ræsir, stillir, sjóli, jöfur og þengill), karlmann (t.d. halur, rekkur, seggur, höldur og skati) og konu (t.d. fljóð, lind, hrund, snót, sprund og þilja) (Craigie 1908, 104).

  • Kenningar eru flóknari en heitin en þær „snúast í meginatriðum um það að umorða hluti með kerfisbundnum hætti með því að skeyta saman nafnorðum, stofni og kenniorði, þar sem gjarnan er vísað til skilgreininga orðanna úr goðsögum Snorra Eddu [...] Í grundvallaratriðum er kenning það að segja með upphöfnum hætti að eitthvað sé einhvers eins og að segja gull byrði Grana – Grani var hestur Sigurðar Fáfnisbana og bar fyrir hann gullið af Gnitaheiði – eða að kona sé menja Hrund – valkyrja hálsmena“ (Pétur Húni Björnsson 2020, 6). Algengustu kenningarnar eru þær sem merkja karlmaður, kona, gull, skáldskapur, bardagi og sverð (Craigie 1908, 105).

Flutningur rímna virðist um langa tíð hafa verið með sambærilegum hætti og er hefðbundið að kalla flutninginn „að kveða“. Í dag er það að kveða í raun skilgreint sem söngstíll sem liggur um það bil miðja vegu milli þess að syngja og tala og mætti kalla lágstemmdan söng eða upphafna framsögn.

Rímnalög

Rímnalögin (sem einnig eru kölluð kvæðalög eða stemmur) einkennast af því að þau tengjast ekki ákveðnum textum heldur eiga þau við ákveðna bragarhætti. Einfaldlega má segja að til þess að flytja rímnaflokk sem ortur er undir mörgum bragarháttum þurfi kvæðamaður að kunna að minnsta kosti eitt kvæðalag við hvern bragarhátt. Þó eru til ótal dæmi, eins og fram kemur í rannsókninni, um að kvæðamaður noti sama kvæðalagið við mismunandi bragarhætti. Fyrir utan þær stemmur sem verða til á staðnum hefur ógrynni rímnalaga varðveist bæði í uppskriftum og á upptökum. Þær finnast í ótalmörgum tilbriðgum og útgáfum, eru af ýmsu tagi og hafa margskonar svipmót og stemningu. Eins og mismunandi bragarhættir kalla á mismunandi rímnalög getur efnið ráðið valinu. Angurvær stemma getur farið vel við mansöngsvísur eða ástarljóð en ef kveðnar eru blóðidrifnar bardagalýsingar rímna hentar oft betur að nota hraðkvæðar stemmur sem ná yfir lítið tónsvið. Val á stemmum veltur því á efni og aðstæðum og reyndar vitnar Hreinn Steingrímsson (2000, 111) í kvæðamann sem segir að kvæðalögin og vísurnar séu ein heild. Ólafur Davíðsson (1888–1892, 218–222) gaf út rímnalög á nótum í ritgerð sinni um rímnakveðskap og í bók Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög (1906–1909, 817–919) er að finna uppskriftir 253 rímnalaga. Töluvert er til af upptökum sem gerðar eru á 20. öld af heimildarmönnum sem fæddir eru á 19. öldinni (sjá t.d. Silfurplötur Iðunnar 2004, Segulbönd Iðunnar 2018). Langflestar þeirra eru varðveittar í þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, eins og þær sem Svend Nielsen safnaði hér á landi, og eru aðgengilegar á ismus.is. Uppskriftir og lýsingar sem gerðar eru á 19. öldinni miðast við kvæðamenn sem fæddir eru í kringum aldamótin 1800 og út frá þeim og upptökunum má sýna fram á að flutningsmáti rímna, kvæða og vísna sem ort eru undir rímnaháttum, hefur verið með sama eða sambærilegum hætti undanfarnar þrjár aldir. „Ef við leyfum okkur að líta á þá hefð sem þá tíðkaðist sem arfleifð frá fyrri öldum er innan seilingar að líta á kveðskaparhefðina sem við þekkjum í dag sem beinan afkomanda þeirrar kveðskaparhefðar sem tíðkast hefur frá öndverðu“ (Pétur Húni Björnsson 2020, 12; sjá þó Ragnheiður Ólafsdóttir og Nicola Dibben 2019, 50–52).

Rannsóknin

Svend Nielsen hefur áður birt rannsókn á íslenskum kvæðalögum, en það er ritgerð hans um kveðskap Þórðar Guðbjartssonar sem einnig er skoðaður í rannsókninni hér (sjá Nielsen 1982). Þar fyrir utan má segja að eina önnur nákvæm rannsókn á rímnakveðskap sé rannsókn Hreins Steingrímssonar sem gefin var út að honum látnum árið 2000 í bókinni Kvæðaskapur. Hreinn nýtir þar meðal annars kveðskap fjögurra sömu kvæðamanna og koma fyrir í rannsókn Svends, þeirra Péturs Ólafssonar, Guðmundar Ólafssonar, Þórðar Guðbjartssonar og Þorgils Þorgilssonar og styðst þá oft við upptökur Svends og Hallfreðar. Hreinn einbeitir sér einnig, eins og Svend, að Breiðafirði og Vestfjörðum og segir að kveðskapurinn fyrir vestan sé eitt dæmi um gamlan kveðskaparstíl (Hreinn Steingrímsson 2000, 52–53). Svend Nielsen kemst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að þennan stíl sé eiginlega ekki að finna annars staðar (sjá hér). Þrátt fyrir að þessir tveir tónlistarfræðingar fari mismunandi leiðir og séu ekki beinlínis að leita að sömu hlutum komast þeir þó stundum að svipuðum niðurstöðum um kveðskaparstíl einstakra kvæðamanna (sjá t.d. Hreinn Steingrímsson 2000, 57 og 61–65). Annars staðar eru þeir ekki sammála svo sem um hvort hægt sé að nota sömu stemmu við alla bragarhætti. Hreinn skiptir bragarháttum í þrjá flokka og segir að hægt sé að nota sömu stemmu við alla bragarhætti sem tilheyra sama flokki. Þar kemur meðal annars fram að nýhendur háttur standi sér og kvæðamenn noti ekki sömu stemmur við hann og aðra hætti (Hreinn Steingrímsson 2000, 57). Svend sýnir aftur á móti nokkuð mörg dæmi í sinni rannsókn um að kvæðamaður noti sama kvæðalag við nýhendu (7/8/7/8) og ýmsa aðra ferkvæða hætti.

Tilgangur Hreins með rannsókn sinni er annar en tilgangur Svends en Hreinn setur fram almennar kenningar um kveðskap yfirleitt svo sem að ekkert kvæðalag eigi sér eina rétta mynd heldur sé það sífellt teygt og togað til bæði í takti, tónbilum og hendingaskipan (Hreinn Steingrímsson 2000, 111). Um þetta má segja að hér sé aftur komið að kjarna málsins um efni sem lifir í munnlegri hefð og einnig að kjarnanum í rannsókn Svend Nielsens. Það er alveg ljóst að þeir tíu kvæðamenn sem hann skoðar hafa lengi orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum af kveðskap annarra sem þeir hafa heyrt í lifandi flutningi og jafnvel í upptökum og útvarpi (sjá Guðmundur Steinn Gunnarsson 2018, 39). Þó að þeir telji sjálfir að þeir kveði eins og þeir gerðu sem ungir menn og að þeir kveði sama kvæðalag alltaf eins er alveg ljóst að bæði hlýtur kveðskapur þeirra að hafa þróast með tímanum og að utanaðkomandi aðstæður í hverjum flutningi geta haft áhrif. Þannig er ekki víst að þeir breyti kvæðalagi á sama hátt í öðrum upptökum eða hafi kveðið með nákvæmlega sama hætti fyrir heimilisfólkið daginn eftir að upptakan fór fram. Eins og reyndin er um aðra flytjendur munnlegs efnis er þó ljóst að góður kvæðamaður verður bæði að fylgja reglum hefðarinnar og láta í ljós sína eigin einstaklingsbundnu sköpun (sjá t.d. Åkeson 2009, 8). Eins og í allri hefðbundinni munnlegri sagnahefð verður kvæðamaðurinn að gefa áheyrendum það sem þeir búast við og Astrid Nora Ressem (2009, 129) hefur einmitt bent á að í rannsóknum á breytingum sé hið stöðuga jafnáhugavert og breytingarnar. Hún telur að breytingarnar séu ekki gerðar breytinganna vegna heldur séu þær hluti af því að varðveita hefðbundinn stíl og halda honum lifandi.

Breytingar, eins og Svend Nielsen finnur hjá nokkrum þeirra tíu kvæðamanna sem hann rannsakaði, eru ekki einskorðaðar við kvæðalög heldur finnast sömu einkenni í allri tónlist sem ekki styðst við nótur (sjá Guðmundur Steinn Gunnarsson 2018, 39–40). Til dæmis eru til hljóðritanir með hinni færeysku Súsönnu Samuelsen frá Húsavík á Sandey sem syngur fimm sálmavers og breytir sálmalaginu í hverju versi (Clausen 2006, 216–218). Svend Nielsen hefur reyndar sjálfur fjallað um íslenskan sálmasöng en þar talar hann ekkert um breytingar (Nielsen 2006).

Leit Svends og Hallfreðar að kvæðamönnum sem gætu spunnið kvæðalagið um leið og þeir kveða bar árangur en hér er ekki um séríslenskt fyrirbæri að ræða. Astrid Nora Ressem rannsakaði uppskriftir á lögum norsks kvæðasöngvara sem gerðar voru á 19. öld og kemst að því að um það bil helmingur laganna byrji á sama tóni. Hún setur fram þrjár hugsanlegar skýringar og ein þeirra er einmitt að lagið hafi ekki verið fastákveðið fyrirfram en að það hafi þróast og aðlagast bæði sagnaefninu og hrynjandinni í textanum. Lagið byggist þannig upp á frösum sem söngvarinn hefur tiltæka (Ressem 2009, 134–136). Margareta Jersild kemst að svipaðri niðurstöðu í rannsókn á lögum tveggja sænskra söngvara. Hjá þeim finnur hún frasa sem ná yfir eina línu í textanum sambærilega þeim sem Svend finnur bæði hjá Einari Einarssyni og Þórði Guðbjartssyni. Jersild segir að bygging laganna fylgi ekki erindaskiptingu kvæðanna heldur byggist þau upp á þessum frösum sem koma fyrir aftur og aftur í gegnum öll erindin. Hún telur að þarna sé um að ræða leifar af gömlum aðferðum þar sem formúlur eru nýttar til að búa til lag (Jersild 2009, 181).

Svend kemst að þeirri niðurstöðu að sex kvæðamannanna sem hann rannsakaði beiti spuna að einhverju leyti í kveðskap sínum, þó mismikið. Þeir hafa þó allir einnig fyrirfram fastmótaðar stemmur í kveðskaparsjóði sínum og bendir það til að Jan Ling (1986, 131) hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að þróunin frá slíkri hefð til fastmótaðra kvæðalaga hafi gerst smátt og smátt en ekki með neinum vatnaskilum.

Útgáfan

Svend Nielsen hefur tekið saman gagnlegan hugtakalista sem birtur er inni í texta hans. Við þýðinguna er reynt að halda hugtökunum einföldum og notast við íslensk hugtök þar sem Svend hefur þurft fleiri orð til að útskýra hlutina á dönsku, sem að sjálfsögðu á ekki orð yfir rímur, kvæðalag og kveðandi, svo eitthvað sé nefnt.

Nóturnar sem Svend skrifar upp eru í raun ekki eiginlegar uppskriftir rímnalaganna sem kveðin eru á upptökunum heldur uppskrift að lagmyndinni sem kemur í ljós þegar hlustað er á flutning kvæðamannanna á mörgum vísum með sama lagi. Því má segja að lagmyndin sé nokkurs konar meðaltal af ítrekuðum flutningi lagsins við mismunandi texta og þannig eru tilfallandi skreytingar og áherslubreytingar eða stöku frávik frá laglínunni í flutningi kvæðamannanna ekki skrifað upp (sjá Gunnsteinn Ólafsson 2004, 36–37; Guðmundur Steinn Gunnarsson 2018, 40–41). Í nótunum eru lögin skrifuð í sömu eða svipaðri tónhæð sem er ekki alltaf sama tónhæð og er í flutningi kvæðamannanna á upptökunum. Með því móti verður auðveldara að bera lögin saman og sjá í fljótu bragði hvernig þau eru lík eða ólík hvert öðru. Engir taktboðar eru fyrir nótunum vegna þess að bragarhættir eru látnir ráða og þar af leiðandi eru taktstrik sett á milli vísuorða eða hendinga. Upplýsingar um vísurnar sem teknar eru sem dæmi er að finna í vísnaskrá aftan við umfjöllunina sjálfa og einnig hlekkir á upprunalegu upptökuna.


svend nielsen

Rannsókn á tilbrigðum

Upphaf

Upphaflega hugmyndin að því verkefni að hljóðrita rímnakveðskap á árunum 1965 til 1971 kviknaði við lestur ummæla sem séra Bjarni Þorsteinsson viðhafði í inngangi að rímnalögunum sem hann birtir í bók sinni Íslenzk þjóðlög. Þar talar hann um tvo mismunandi kveðskaparmáta eða tvenns konar kvæðalög:

Kvæðalögin eru sum almenn, og kunna mjög margir þau og kveða þau nær því eins um margar sveitir. Ýmsir einstakir kvæðamenn hafa sjerstök kvæðalög, er þeir hafa fundið upp sjálfir og hafa ávallt eins og ávallt sama lag við sama bragarhátt. Er það þá ýmist, að slík lög gleymast og deyja út með þessum mönnum, einkum ef lítið þykir varið í þau, eða að alþýða lærir þau, ef þau þykja falleg, og geymir þau svo sem endurminningu um hinn dána kvæðamann, og verða þau þannig að almennum lögum t. d. kvæðalag Gunnars á Gautastöðum, Kristjáns skálds, Erlendar í Garði o. fl. Sum kvæðalög eru að eins augnabliks tilbúningur þess, sem kveður, hann hefur ekkert visst lag í huga áður en hann byrjar, en býr lagið til eptir eigin geðþótta, jafnframt og hann kveður, og veitir vönum og góðum kvæðamönnum það ljett. Hættast er við að slík lög gleymist (810).

Benedikt Jónsson frá Auðnum, sem safnaði þjóðlögum fyrir Bjarna, staðfestir þessa skoðun hans í greinargerð sem hann hefur sent og prentuð er að hluta í áðurnefndum inngangi:

Þegar menn kveða, fer hver eptir sínu höfði; þá eru menn með sína eigin eign og fara líka með hana eins og andinn inn gefur í hvert sinn, svo að heita má að hver maður hafi sitt kvæðalag og þó ekki ætíð eins, heldur fer það eptir efni, hætti og augnabliks áhrifum (812).

Spurning var hvort enn þá væri hægt að finna kvæðamenn sem færu með kvæðalög eins og þeir Bjarni og Benedikt lýstu eða minntu að minnsta kosti á það; lög sem verða til á augnablikinu sem verða eins og andinn blæs kvæðamanninum í brjóst. 

Fyrir utan það að skrásetja þá kvæðamennsku sem hægt væri að finna var þetta leiðarstefið í söfnunarverkefninu sem við lögðum út í. Við gerðum okkur þó ekki almennilega grein fyrir þessu fyrr en um haustið 1965 þegar við höfðum þegar safnað í hálft ár. 

Forsaga

Rannsóknir á Þjóðminjasafni

Þegar ég kom í fyrsta sinn til Íslands árið 1964 hafði ég fengið það verkefni á Danska þjóðfræðisafninu (d. Dansk folkemindesamling) að athuga hvað hægt væri að finna af þjóðlagatónlist á Íslandi og einnig hvort þar væri einhver að safna og rannsaka íslenska þjóðlagatónlist. Á safninu hafði starfsfólkið góða hugmynd um hvaða þjóðlagatónlist hafði verið safnað í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Færeyjum og hvernig áframhaldandi söfnun og rannsóknir fóru þar fram en Ísland var eins og ókannað land á landakortinu. 

Ég kom til Reykjavíkur í apríl og sneri mér til Þjóðminjasafns Íslands þar sem þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, tók á móti mér af mikilli vinsemd og lipurð. Í heilan mánuð sat ég í turninum á þjóðminjasafninu og hlustaði á segulbandsupptökur sem þar voru varðveittar. Í elsta hluta safnsins voru ekki margar upptökur á kveðskap og langur tími hafði liðið á milli þeirra. Þær helstu voru annars vegar upptökur gerðar hjá Ríkisútvarpinu 1941 merktar „Jón Lárusson, bóndi á Hlíð, 132 kvæðalög“ og hins vegar safn hljóðritana gerðar 1958–1959 á Vestfjörðum af Hallfreði Erni Eiríkssyni í samvinnu við tæknimann frá Ríkisútvarpinu. Eftir að hafa hlustað á allar upptökurnar sá ég að upptökur frá því fyrir árið 1945 voru fáar og í þeim voru nær eingöngu kveðnar lausavísur. Söfnunin frá 1958–59 var mun stærri. Þar var að finna um tíu klukkutíma upptökur af 42 körlum og konum, sem bæði sungu sálma og kváðu, og nærri helmingur þeirra kvað ekki eingöngu lausavísur heldur fundust inni á milli bútar úr rímum. Því miður voru þessir bútar þó oftast ekki mjög langir og í flestum tilfellum voru aðeins kveðin tvö, þrjú eða fjögur erindi. 

Söfnunin

Fyrsta söfnunarferð 1964: Um miðjan maí kom Hallfreður Örn Eiríksson aftur til Íslands eftir að hafa lokið námi sem þjóðsagnafræðingur í Prag. Kristján Eldjárn kynnti okkur og það varð upphaf vináttu og samvinnu sem ekki lauk fyrr en með dauða Hallfreðar árið 2005.

Kristján Eldjárn kom því svo fyrir að Hallfreður og ég gátum tekist á hendur ferð um Suðurland til að safna upplýsingum um þjóðtrú, sögnum og ævintýrum og því sem við gætum af sungnum kvæðum svo sem sagnadönsum, sálmum og þulum en ekki hvað síst kveðnum lausavísum og rímum. Við ferðuðumst í hálfan mánuð og söfnuðum töluverðu efni í óbundnu máli, sögnum og lýsingum á þjóðtrú, en þegar kom að tónlistinni var afraksturinn mun rýrari. Við fundum hvorki sagnadansa, sálma né þulur og aðeins fáir kunnu að kveða. Þeir sem það gátu kváðu eingöngu lausavísur.

Önnur söfnunarferð 1964: Síðsumars fór samstarfsmaður minn Thorkild Knudsen með Hallfreði í aðra söfnunarferð. Þeir fóru um Norðurland og Austurland og höfðu sett sér sömu markmið varðandi efni sem þeir vildu safna. Fyrir austan náðu þeir að hljóðrita dálítið af sálmalögum sem sungin voru af þremur systkinum og þeir tóku einnig upp sungin kvæði. Hvað rímnakveðskapinn varðaði var árangurinn þó sá sami og á Suðurlandinu, enginn kvað langa kafla úr rímum heldur eingöngu lausavísur og styttri kvæði.

Áður en Thorkild Knudsen fór aftur til Danmerkur skruppu þeir í stutta söfnunarferð á Snæfellsnes og á meðal þeirra fáu sem þeir heimsóttu var Þorgils Þorgilsson á Þorgilsstöðum. Hann hafði sjálfur ort kvæði undir rímnaháttum um árstíðirnar og það flutti hann nokkrum sinnum eftir mikla hvatningu. Þetta varð í fyrsta sinn sem við fengum dæmi þar sem nokkuð langur texti undir rímnaháttum var kveðinn og í kveðskapnum var greinilega hægt að heyra hvernig kvæðamaðurinn notaði spuna í sköpun sinni.

Eftir að hafa farið nákvæmlega í gegnum efnið sem safnaðist á Suðurlandi og fyrir norðan og austan án þess að finna nokkurn einstakling sem gæti kveðið rímur var ljóst að efnið sem Hallfreður hafði safnað árin 1958–1959 gaf vonir um betri árangur á Vestfjörðum. Það var því ákveðið að hér eftir myndum við einbeita okkur að því landsvæði. Þegar ég fór heim aftur í júní 1964 hafði ég með leyfi Kristjáns Eldjárns gert afrit af upptökum Hallfreðar af Vestfjörðum og tók ég þau með mér til Kaupmannahafnar. Ég fór vandlega í gegnum upptökurnar veturinn 1964–1965 og af þeim 42 kvæðamönnum sem þar voru hljóðritaðir valdi ég 15 sem mér þóttu álitlegastir. Það sem ég hafði í huga við valið á kvæðamönnum var að þeir væru ekki of gamlir, að þeir væru öruggir í kveðskapnum, að kvæðalög þeirra væru áhugaverð og að kveðskapur þeirra væri öðruvísi en venjulegur söngur. Ég sendi Hallfreði listann yfir þessa 15 kvæðamenn og hann hófst handa við að finna út úr því hverjir þeirra vildu og gætu kveðið fyrir okkur næsta sumar.

Söfnunarferð 1965: Söfnunin hófst á Vestfjörðum. Um vorið hafði Hallfreður fengið samþykki þriggja á listanum mínum fyrir því að við mættum heimsækja þá og taka kveðskap þeirra upp. Þetta voru Þórður Guðbjartsson, Einar Einarsson og Gísli Gíslason. Hann hafði einnig gengið frá því að við mættum heimsækja Þorgils Þorgilsson á Þorgilsstöðum á Snæfellsnesi, sem hann og Thorkild Knudsen höfðu hljóðritað árið áður. Þann 2. ágúst flugum við til Vatneyrar við Patreksfjörð þar sem við heimsóttum Þórð Guðbjartsson og Einar Einarsson. Við fengum leyfi til að dvelja í skólastofu á staðnum og Þórður, sem átti heima þar rétt hjá, kom margar ferðir yfir í skólann til að kveða fyrir okkur. Einar bjó heldur ekki langt frá skólanum en við fórum heim til hans og tókum upp þar. Á fimm dögum náðum við þremur upptökulotum með hvorum þeirra.

Við fengum síðan mann til að aka okkur suður á Barðaströnd að bænum Fit þar sem Gísli Gíslason bjó. Hjá honum dvöldum við í fimm daga. Á daginn hjálpuðum við til við heyskapinn en flest kvöldin hljóðrituðum við kveðskap Gísla þannig að við höfðum fimm upptökur upp úr krafsinu. Seinnipart dags 10. ágúst fórum við, eftir hvatningu frá Gísla, yfir á annan bæ í nágrenninu þar sem við hljóðrituðum kveðskap bóndans Þórðar Marteinssonar. Hallfreður hafði einnig heimsótt hann og hljóðritað 1958 en hann var ekki einn þeirra sem við höfðum valið nú þar sem kvæðalög hans voru mjög föst í formi og kveðskapur hans lá mjög nálægt söng. Tilgangur þess að hafa kveðskap hans með í rannsókninni var fyrst og fremst sá að draga skýrt fram muninn á kveðskap hans og hinna kvæðamannanna.

Eftir fáeinar heimsóknir til annarra sem við gátum ekki fengið til að kveða langa kafla héldum við aftur til Reykjavíkur. Þaðan fórum við síðan að Þorgilsstöðum á Snæfellsnesi og heimsóttum Þorgils Þorgilsson. Þorgils kvað fyrst og fremst árstíðavísurnar sem hann hafði ort sjálfur og hafði kveðið fyrir Thorkild og Hallfreð árið áður. Við hvöttum hann til að kveða vísurnar í nokkur skipti. Til viðbótar kvað hann eingöngu brot úr rímum. Heimsóknin stóð aðeins þennan eina dag.

Söfnunin 1967: Árið 1966 komst ég ekki til Íslands en sneri aftur þangað í ágúst 1967. Þann 25. ágúst lögðum við af stað og flugum til Patreksfjarðar. Þar dvöldum við í sex daga. Við héldum aðallega áfram að hljóðrita með Þórði Guðbjartssyni og náðum fimm upptökum en einnig með Einari Einarssyni sem kvað fyrir okkur í tveimur upptökulotum.

Eftir að hafa dvalið nokkra daga í Reykjavík héldum við 5. september að Stóru-Tungu á Fellsströnd til þess að heimsækja og hljóðrita Pétur Ólafsson, fyrrverandi bónda þar.

Hallfreður hafði heyrt Pétur kveða sumarið 1966. Hann hafði hitt ungan stúdent sem sagðist hafa hljóðritað kveðskap föður síns um jólin árið áður. Faðirinn hafði iðkað hefðbundinn rímnakveðskap allt fram á miðjan sjötta áratuginn og hafði um jólin, nokkur kvöld í röð, kveðið fyrir fjölskylduna til að gleðja gamla frænku sem var í heimsókn. Samkvæmt þessu virtist Pétur Ólafsson vera sá sem allra lengst hafði viðhaldið hefðbundinni rímnahefð á heimili sínu og eftir að hafa fengið afrit af upptökum sonarins, sem voru töluvert umfangsmiklar, sannfærðumst við um að kveðskaparstíll Péturs væri mjög áhugaverður.

Pétur var tilbúinn til að kveða heilar rímur og við hófumst handa við að hljóðrita Rímur af Héðni og Hlöðvi eftir Jón Eyjólfsson. Rímnaflokkurinn samanstendur af átta rímum og Pétur kvað eina rímu á kvöldi. Ætlunin var að dvelja hjá Pétri í þrjár vikur en vegna dauðsfalls í fjölskyldu minni neyddist ég til að hætta söfnuninni eftir aðeins eina viku.

Söfnunin 1968: Þetta ár hljóðrituðum við þrjá kvæðamenn, Pál Stefánsson, Guðmund Ólafsson og Pétur Ólafsson. Pál Stefánsson hafði Hallfreður komist í samband við og hann heimsóttum við í Reykjavík í upphafi söfnunarinnar. Við það tækifæri gerðum við aðeins eina upptöku en náðum síðan að taka hann upp aftur þegar við komum til baka til Reykjavíkur undir lok söfnunarferðarinnar.

Þann 23. nóvember fórum við frá Reykjavík norður á Fellsströnd þar sem við dvöldum fyrst í þrjá daga hjá Guðmundi Ólafssyni, bróður Péturs Ólafssonar, og náðum fimm upptökulotum. Guðmundur gat, líkt og Pétur, kveðið heilar rímur og yfirleitt kvað hann eina rímu í hverri lotu.

Við héldum síðan áfram til Péturs Ólafssonar en þeir bræður bjuggu ekki langt hvor frá öðrum. Dvölin hjá Pétri var aðaltakmark ferðarinnar. Við vildum gjarnan dveljast hjá honum um nokkurt skeið og einmitt í skammdeginu. Til þess að tryggja að hann hefði áheyrendur höfðum við gengið frá því fyrir fram að Guðrún Jóhannsdóttir, eiginkona Péturs, og Agnes, dóttir þeirra, myndu sitja og hlusta á kveðskapinn með okkur. Þetta gerðum við vegna þess að fyrir upptökurnar vonuðumst við til þess að ná að skapa aðstæður sem líktust því andrúmslofti sem hafði ríkt á meðan Pétur kvað enn þá fyrir heimilisfólkið á kvöldin. Á tíu dögum fóru fram 23 upptökulotur; á hverjum degi var ein gerð um miðjan daginn, önnur snemma kvölds og stundum hljóðrituðum við einnig seinna um kvöldið. Eins og árið áður kvað Pétur heila rímnaflokka – eina rímu og stundum tvær – í hverri lotu.

Söfnunin 1969: Þetta ár varð söfnunin dálítið sérstök þar sem hún tengdist sumarleyfisferð minni og eiginkonu minnar til Íslands. Söfnunarstaðirnir voru þess vegna valdir þannig að þeir pössuðu vel inn í ferðaáætlun okkar. Við fórum því til Siglufjarðar og Sigluness á leið okkar að Mývatni. Á Siglufirði heimsóttum við fyrst Hallgrím Jónsson og hljóðrituðum með honum einn seinnipart dags, alls þrjár upptökur.

Næsta morgun sigldum við út á Siglunes þar sem Jón Oddsson bjó einn. Við vorum þar næstum allan daginn og gerðum 26 upptökur. Daginn eftir snerum við aftur til Siglufjarðar og héldum áfram að hljóðrita kveðskap Hallgríms. Í þetta sinn náðum við fimm upptökum.

Þórður Guðbjartsson og Hallfreður Örn Eiríksson ásamt þremur ungum sumardvalarstúlkum á Patreksfirði 1971

Söfnunin 1971: Í tengslum við lokaskrif á meistaraprófsritgerð minni dvaldi ég stuttan tíma á Íslandi. Ég fór ásamt Hallfreði í stutta ferð til Patreksfjarðar til þess að taka ljósmyndir af Þórði Guðbjartssyni og af Vatneyri. Í þeirri heimsókn tókum við kveðskap Þórðar upp nokkrum sinnum. Aðeins tvær upptökur (fjögur erindi alls) sem sýndu eitthvað nýtt eru teknar með í þessari rannsókn en lýsingin á kveðskap Þórðar er byggð á meistara­prófs­ritgerðinni.


Rammi rannsóknarinnar

Aðalmarkmið söfnunarinnar var að rannsaka hvort mögulegt væri að finna dæmi um kvæðalög af þeirri gerð sem Bjarni Þorsteinsson lýsti í Íslenzkum þjóðlögum sem andstæðum við hin óbreytanlegu, þekktu kvæðalög:

(...) kvæðalög [sem] eru að eins augnabliks tilbúningur þess, sem kveður, hann hefur ekkert visst lag í huga áður en hann byrjar, en býr lagið til eptir eigin geðþótta, jafnframt og hann kveður og veitir vönum og góðum kvæðamönnum það ljett (810).

Með öðrum orðum var tilgangurinn að ákvarða hvort enn þá fyndust kvæðamenn með kveðandi sem einkenndist af og byggðist á spuna, eða hvort einhverjir þeirra hefðu að minnsta kosti breytt lögum sínum frá einum flutningi til annars í áberandi meira mæli en þekkist, t.d. í hefðbundnum dönskum kvæðasöng. Verkefnið fólst sem sagt í því að lýsa umfangi og þéttleika breytinga sem urðu í flutningi einstakra kvæðamanna. Það krafðist þess að ákvarða þurfti hvað ætti að mæla og hvernig ætti að gera það. Breytingarnar geta orðið á tveimur sviðum, í laginu sjálfu og í taktinum og í báðum tilfellum getur kvæðalagið verið fast, þ.e.a.s. aðeins haft eina mynd eða það getur verið opið og breytilegt.


Breytingar á kvæðalögum

Dreifing

Hinar lagrænu breytingar geta dreifst á ýmsan hátt. Stundum eru breytingarnar gerðar á einstökum tónum í laginu, þær geta verið einangraðar í einni hendingu eða verið útbreiddar yfir allt kvæðalagið.

Vídd

Breytingarnar geta geta haldið kvæðalaginu nokkurn vegin óbreyttu eða þær geta breytt því verulega. Í fyrra tilfellinu verður hér talað um að kvæðalagið sé nokkuð breytilegt. Breytingarnar eru m.a. áberandi ef þær verða til að breyta tónsviðinu eða byggingu lagsins. Þess vegna eru þessir tveir þættir einnig mikilvæg viðmið. Síðast en ekki síst er mikilvægt að athuga hvort breytingar verða frá einni hljóðritun til annarrar eða hvort mismunur heyrist frá einni vísu til annarrar innan sömu upptöku.

Breytingar á takti

Eins og tilfellið er með kvæðalögin sjálf gildir hið sama um takt þeirra. Hann getur verið fastur og aðeins leyft eitt ákveðið taktmynstur innan kvæðalagsins eða hann getur verið breytilegur og leyft taktbreytingar innan sama lags.

Fræðilega séð finnast átta mismunandi taktmynstur í gögnum rannsóknarinnar en tvö þeirra eru algjörlega ráðandi. Takturinn er því breytilegri ef breytingarnar verða ekki aðeins frá einu hljóðriti til annars heldur þegar hann breytist frá einu erindi til annars innan sömu upptöku.

Hugtök sem notuð eru í rannsókninni

Rímur

Rímur eru löng sagnakvæði ort undir rímnaháttum. Sagnaefnið (rímnaflokkurinn) skiptist í kafla (rímur) og við upphaf nýrrar rímu innan flokksins er venjulega skipt um bragarhátt.

Lausavísur

Lausavísur eru stakar vísur ortar undir rímnaháttum og eru kveðnar undir kvæðalögum eins og rímur. Hið sama gildir um kvæði sem ort eru undir rímnaháttum.

Bragarhættir

Hugtakið bragarháttur lýsir byggingu vísu. Bragarhættir rímna eru kallaðir rímnahættir en þeir eiga það sameiginlegt að samanstanda af tvíliðum. Vísur samanstanda af vísuorðum (línum, hendingum) og hvert vísuorð hefur ákveðinn atkvæðafjölda. Vísur undir rímnaháttum eru tvö til fjögur vísuorð og í hverju vísuorði geta verið þrjú til tólf atkvæði.

Kvæðamennirnir tíu nota í flutningi sínum tólf bragarhætti af þeim 20 grunnrímnaháttum sem algengir eru:

  • fjögurra lína hættir:

    • ferskeytt (7/6/7/6);
    • stikluvik (7/6/7/7);
    • samhenda (7/7/7/7);
    • gagaraljóð (7/7/7/7);
    • nýhenda (7/8/7/8);
    • úrkast (8/4/8/4);
    • skammhenda (8/5/8/5);
    • langhenda (8/7/8/7) og
    • breiðhenda (einnig kölluð nýlanghenda) (8/8/8/8).
    • Einnig nota þeir hagkveðlingahátt (7/7/7/7) sem er afbrigði af samhendu.

  • þriggja lína hættir:

    • stuðlafall (10/7/7);
    • braghenda (12/8/8).

  • tveggja lína háttur:

    • afhending (12/8).

Kveðandi

Kveðandi er sá máti sem rímur og lausavísur eru fluttar á. Kveðandi er venjulega talin liggja á milli tals og söngs. Hver kvæðamaður hefur sína kveðandi en í rímnakveðskap skiptir mestu máli að koma textanum til skila til áheyrenda.

Kvæðalag (stemma, rímnalag)

Sú röð af tónum, þ.e. frasi eða laglína sem tengist hverri vísu í heild óháð taktbyggingu eða atkvæðafjölda hvers vísuorðs kallast kvæðalag eða stemma. Kvæðalög geta verið breytileg eða föst. Í breytilegum kvæðalögum er fyrir hendi möguleiki á miklum breytingum og þar með mörgum tilbrigðum. Á föstum kvæðalögum verða aðeins óverulegar breytingar og því fá eða engin tilbrigði. Hér á eftir er hugtakið stemma notað yfir þau kvæðalög sem eru skyld og skilja sig að verulegu leyti frá öðrum í sjóði kvæðamannsins. Ólík afbrigði sömu stemmu eru kölluð módel.

Samsetning hendinga

Hendingar kvæðalaga eru settar í samhengi hver við aðra en stuttir melódískir frasar ná yfir eina hendingu (eitt vísuorð) í kveðandi kvæðamanns. Hver frasi skilur sig greinilega frá öðrum frösum. Gerður er greinarmunur á því hvort ein hending eða fleiri eru eins / nánast eins eða hvort þær eru frábrugðnar hver annarri. Ef engin hending í kvæðalagi er eins er samsetningunni lýst með ABCZ en ef til dæmis fyrsta og þriðja hending eru eins og önnur og fjórða eins er samsetningunni lýst með ABAB. Venjulega er síðasta hendingin táknuð með Z, nema hún sé eins og einhver hinna hendinganna í kvæðalaginu. Lítið breytt afbrigði eru táknuð með litlum bókstaf á eftir viðkomandi hendingu.

Teygjanleiki

Kvæðalag er teygjanlegt ef hægt er að víkka það út eða draga saman til þess að það passi mismunandi bragarháttum sem eru ólíkir hver öðrum hvað varðar atkvæðafjölda í hverju vísuorði eða fjölda vísuorða í hverri vísu. Teygjanleiki er því mælikvarði á það hve breytileg hendingalengd í kvæðalaginu er.

Taktbygging

Í kveðskap kvæðamannanna tíu í rannsókninni heyrast átta mismunandi taktform en þó eru tvö einföldustu og algengustu takttegundirnar, tví- og þrískiptur taktur, ríkjandi.

Tónsvið

Bilið á milli neðsta og efsta tóns í hverju kvæðalagi fyrir sig er tónsvið þess. Stundum er það gefið upp relatíft (t.d. tvíund, þríund eða ferund), stundum absolút (t.d. tónbil 1 til 6 eða tónbil -3 til 5).

Tónbil

Þegar kvæðalögin eru skrifuð út eru þau skrifuð út frá einstrikuðu G (g') og er hér kallað G til einföldunar. G er í flestum tilfellum lokatónn kvæðalaganna og grunntónn í lýsingu tónbila. Tónn 1 er þannig G, tónn 2, a', er A, tónn 3, h' eða b', er H eða B o.s.frv. Tónn -1 er #f og tónn -2 er e, hér kallaðir #F og E til einföldunar.


Einar Einarsson

Einar Einarsson (1905–1984) var trésmiður á Patreksfirði (Vatneyri) en hann var fæddur á Haukabergi á Barðaströnd. Einar man ekki til þess að hann hafi lært kvæðalögin af neinum sérstökum, kvæðamanni eða öðrum. Heima hjá honum voru oft kveðnar rímur eftir algengum prentuðum útgáfum, svo sem Númarímur. Þar var venjan að kvæðamaðurinn drægi seiminn í hverri vísu en ekki var venja að áheyrendur tækju undir lokatóninn.

Við heimsóttum Einar þrisvar sinnum árið 1965 og einu sinni árið 1967. Hver heimsókn varði í um tvær klukkustundir og á þessum tíma hljóðrituðum við 32 upptökur á kveðskap. Einar kvað samtals 325 vísur undir ellefu mismunandi bragarháttum. Hættirnir sem Einar kvað undir voru: ferskeytt (7/6/7/6), gagaraljóð (7/7/7/7), samhenda (7/7/7/7), langhenda (8/7/8/7), nýhenda (7/8/7/8), breiðhenda (8/8/8/8), skammhenda (8/5/8/5), úrkast (8/4/8/4), braghenda (12/8/8), stuðlafall (10/7/7) og afhending (12/8). Í upptökunum 32 finnast fjórar skýrar stemmur. Bragarhættir réðu mestu um notkun Einars á hverri stemmu fyrir sig.

Stemma 1

Einar notar þetta kvæðalag í þrettán upptökum með 121 erindi undir háttunum ferskeytt (7/6/7/6), gagaraljóð (7/7/7/7), samhent (7/7/7/7) og nýhent (7/8/7/8). Þessir fjórir hættir eiga það sameiginlegt að vera ferhendir og hafa sjö atkvæði í fyrsta og þriðja vísuorði. Munurinn á þeim liggur einungis í því hvort þeir hafa sex, sjö eða átta atkvæði í öðru og fjórða vísuorði. Áhrif þessa á kvæðalagið eru þar af leiðandi mjög lítil. Kvæðalagið er mjög breytilegt en ekki teygjanlegt. Stemman gefur svigrúm til margra og mikilla breytinga. Breytingarnar verða bæði frá einum flutningi til annars og innan sömu upptöku, eins og sést í dæmum 1–4 en tilbrigðin verða hér á eftir kölluð módel.

Dæmi 1

Dæmi 1: Fjarlæg ströndin heillar hug

Dæmi 2

Dæmi 2: Fjarlæg ströndin heillar hug

Dæmi 3

Dæmi 3: Hægir róður hrönnum á

Dæmi 4

Dæmi 4: Hægir róður hrönnum á

Við nánari skoðun sést að langflestar þessara breytinga sem finnast innan stemmunnar heyrast aðeins í einu eða tveimur módelum og koma án undantekningar fyrir í fyrsta erindi í upptökunni. Fyrir utan þessi módel má finna fimm módel sem koma fyrir í föstum kvæðalögum.

Dæmi 5

Dæmi 5: módel 1: Ljósið fæðist, dimman dvín

Dæmi 6

Dæmi 6: módel 2: Leó kærum þakkar þá

Dæmi 7

Dæmi 7: módel 3: Dagaláardísirnar

Dæmi 8

Dæmi 8: módel 4: Fljótt á kviði Fjörgynjar

Dæmi 9

Dæmi 9: módel 5: Fárleg voru fjörbrot hans

Við athugun á þessari stemmu má sjá að Einar býr yfir forða af frösum sem nær hver um sig yfir eina hendingu. Einar hefur yfir að ráða fjórtán frösum sem hver um sig hefur fasta mynd, það er að aðeins óveruleg tilbrigði heyrast. Þetta sérkenni finnst aðeins hjá Einari og Þórði Guðbjartssyni.

Sjö frasar af þessum fjórtán koma þó aðeins fyrir einu eða tvisvar sinnum í gögnunum hver. Hinir sjö frasarnir eru því ríkjandi í kveðandinni, frasar a, b, c, d, e, f og z. Nokkrir þeirra eru bundnir ákveðnum hendingum í kvæðalaginu, frasar b, c, d og f, en aðrir geta komið fyrir í fleiri mismunandi hendingum.

Í dæmi 10 eru sýndir þeir ráðandi frasar sem Einar notar í einstökum hendingum í kveðandi sinni. Í fyrstu hendingu notar hann þrjá mismunandi frasa og sömuleiðis í annarri hendingu, fimm í þriðju hendingu en í lokahendingunni notar hann aðeins einn. Módelin fimm sem Einar notar, dæmi 5 til 9, verða til vegna mismunandi samsetninga hans á þeim frösum sem hann hefur í sjóði sínum.

Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3
Dæmi 3

Dæmi 10: Ráðandi frasar sem Einar notar

Módel 1 er sett saman af frösum a/a/b/z

Módel 2 er sett saman af frösum a/a/d/z

Módel 3 er sett saman af frösum a/z/e/z

Módel 4 er sett saman af frösum c/c/b/z

Módel 5 er sett saman af frösum e/b/e/z

Tónsviðið er breytilegt. Það sveiflast frá ferund (tónbil 1–4) upp í sexund (tónbil 1–6). Samsetning hendinganna er einnig breytileg. Í fjórum vísum heyrast fjórar mismunandi samsetningar á hendingum: ABCZ, ABAZ, AABZ og ABBvZ.

Lokahendingin er nánast alltaf föst í öllum myndum kvæðalagsins: bogi sem fer upp frá g — a yfir c' og til baka niður á g. Takturinn er fastur, taktur b.

Stemma 2

Stemma 2 kemur fyrir í fimmtán upptökum með samtals 176 vísum. Hún tengist fimm bragarháttum sem allir hafa fleiri en sjö atkvæði í fyrstu línu. Hættirnir eru ýmist tveggja, þriggja eða fjögurra lína en hafa annars breytilega línulengd. Fjögurra línu hættirnir eru breiðhenda (8/8/8/8), langhenda (8/7/8/7), skammhenda (8/5/8/5) og úrkast (8/4/8/4).

Dæmi 11

Dæmi 11: Síðan þreyða þig til vinar

Dæmi 12

Dæmi 12: Eins og fjalla efst frá tindum

Dæmi 13

Dæmi 13: Allt hvað skeði eins réð segja

Þriggja línu hátturinn sem Einar kveður er braghenda (12/8/8):

Dæmi 14

Dæmi 14: Númi fer og hæstan hittir hilmi Róma

Dæmi 15

Dæmi 15: Hér hef eg fangað hetju þá, oss hræddi löngum

Afhending (12/8) er sá tveggja línu háttur sem kemur fyrir:

Dæmi 16

Dæmi 16: Þó ég eigi dikti drósum dýra bragi

Breytileiki kvæðalagsins er takmarkaður. Kvæðamaðurinn getur valið á milli fáeinna aðferða við að móta upphafstóninn en annars er kvæðalagið fast. Lagið snýst ákveðið um tón 1, sem er einnig ráðandi tónn, en laglínan getur þó færst um allt að tvö tónbil yfir og undir tón 1 og sem upphafstónn í fyrstu og þriðju hendingu er hægt að heyra tón -3 og síðan stökk upp í tón 1. Breytingarnar verða ekki aðeins frá einni upptöku til annarrar heldur einnig milli vísna innan sömu upptöku.

Kvæðalagið er sérlega teygjanlegt með tilliti til hendingalengdar sem gerir það að verkum að hægt er að nota það við jafn ólíka bragarhætti og raun ber vitni. Tónsviðið er breytilegt og breytist frá þríund (tónbil -1 til 2) til sexundar (tónbil -3 til 4) en breytingarnar er mun minni en þær virðast í fyrstu, sérstaklega ef litið er hjá þeim mismun sem stafar af mismunandi bragarháttum. Samsetning hendinganna er föst í þessari stemmu og takturinn er fastur, taktur b.

Stemma 3

Þessi stemma heyrist í þremur upptökum sem hver inniheldur vísur af einum bragarhætti: breiðhendu (8/8/8/8), gagaraljóði (7/7/7/7) og nýhendu (7/8/7/8). Samtals 46 vísur eru undir þessari stemmu.

Dæmi 17

Dæmi 17: Rétt einmana Númi nú

Dæmi 18

Dæmi 18: Lengi fer svo fram um reit

Dæmi 19

Dæmi 19: Lofðung eftir lesinn dóm

Dæmi 20

Dæmi 20: Númi þoldi varla við

Kvæðalagið er fast ef litið er framhjá því að fyrsta hendingin getur haft eitt form í upphafsvísunni en annað í vísunum sem á eftir koma. Kvæðalagið er dálítið teygjanlegt en þar sem munur milli bragarhátta er ekki mikill reynist ekki þörf á að teygja eða stytta hendingalengdina. Samsetning hendinga er föst, ABAvZ. Tónsviðið er alltaf fimmund og spannar bilið frá -2 til 3 en, sem er nokkuð óvenjulegt, með lágri þríund. Takturinn er fastur, aðeins taktur b heyrist.

Stemma 4

Stemman kemur fyrir í átján vísum í tveimur upptökum þar sem í báðum tilfellum er kveðið undir þriggja línu bragarhættinum stuðlafalli (10/7/7). Kvæðalagið er breytilegt og breytingarnar koma fyrir í öllum þremur hendingunum. Kvæðalagið er þó ekki teygjanlegt enda alltaf kveðið undir sama bragarhætti.

Tónsviðið er breytilegt, venjulega tónbil -1 til 4, en stundum hefst kvæðalagið á stökki frá tóni -3 til tóns 1. Tónsviðið getur þess vegna breikkað upp í sjöund (tónbil -3 til 4). Samsetning hendinga er breytileg og breytingar þar á verða milli vísna í sömu upptöku. Takturinn er alltaf sá sami, taktur b.

Dæmi 21

Dæmi 21: Skal eg mega um skáldin nokkuð tala

Dæmi 22

Dæmi 22: Nafnið það menn naumast vinna kunna

Dæmi 23

Dæmi 23: Orðfimni og æfður lengi vani

Dæmi 24

Dæmi 24: Orð og þanka alla úr hinna bókum


Þórður Guðbjartsson

Þórður Guðbjartsson (1891–1981) fæddist á bænum Firði í Múlasveit á sunnanverðum Vestfjörðum. Sem ungur maður stundaði hann sjó en seinna vann hann verkamannavinnu í frystihúsinu á Vatneyri við Patreksfjörð. Hann ólst upp við kvæðamennsku og einn kvæðamaður hafði sérstaklega mikil áhrif á hann. Það var Brynjólfur Björnsson frá Siglunesi á Barðaströnd sem Þórður segir að hafi verið eftirsóttur kvæðamaður á bæjunum í nágrenninu. Ekkert bendir þó til þess að Þórður hafi kvæðalög Brynjólfs sérstaklega í huga heldur frekar kveðandi hans og einnig lausavísurnar sem Þórður lærði af honum.

Þórður kvað fyrir aðra, bæði sem ungur sjómaður og eftir að hann flutti á Vatneyri en þegar hann var um þrítugt komst hann að raun um að kvæðamennska var ekki lengur í hávegum höfð meðal fólks og hann hætti að kveða. Um kvæðamennskuna sem Þórður kynntist sem barn gat hann sagt frá því að áheyrendur voru vanir að „draga seiminn“, þeir kváðu með síðustu atkvæðin í vísunni og hinn langa lokatón.

Við Hallfreður heimsóttum Þórð þrisvar sinnum á árunum 1965, 1967 og 1971. Áður hafði Hallfreður hitt hann árið 1959 og hljóðritað samtals þrettán vísur – mest lausavísur – í fimm upptökum. Árið 1961 komu Hallgrímur Helgason og John Levy til hans og hljóðrituðu tíu lausavísur í þremur hljóðritum. Samtals hljóðrituðum við Hallfreður 309 erindi í 22 upptökum. Þórður notaði níu mismunandi bragarhætti: ferskeytt (7/6/7/6), nýhent (7/8/7/8), samhent/hagkveðlingahátt (7/7/7/7), stikluvik (7/6/7/7), langhent (8/7/8/7), braghent (12/8/8), skammhent (8/5/8/5), stuðlafall (10/7/7) og úrkast (8/4/8/4).

Í kveðandi sinni nýtir Þórður þrjár stemmur:

  • Stemma 1 tengist ferskeyttum hætti, hagkveðlingahætti og stikluviki.
  • Stemma 2 tengist stikluviki, langhendu, braghendu, skammhendu og úrkasti.
  • Stemma 3 tengist nýhendu og hagkveðlingahætti.

Stemma 1

Þessi stemma er mjög ríkjandi í kveðandi Þórðar og hann notar hana í 44 upptökum við alls 290 vísur. Vísurnar eru undir þremum bragarháttum sem líkjast mjög hver öðrum hvað atkvæðatalningu varðar: ferskeytt (7/6/7/6), hagkveðlingaháttur (7/7/7/7) og stikluvik (7/6/7/7).

Kvæðalagið er mjög breytilegt og, eins og kemur vel fram í upptökunum frá 1971, teygjanlegt. Form kvæðalagsins eru svo mismunandi og ólík hvert öðru að það getur verið erfitt að heyra að þau eigi nokkuð sameiginlegt. Breytingarnar finnast í öllum fjórum hendingunum en koma þó minnst fram í lokalínunni.

Dæmi 1

Dæmi 1: Reiðar þurrka þeir ei val

Dæmi 2

Dæmi 2: Sjóli ágætur sér við mund

Dæmi 3

Dæmi 3: Upp á grundu einstig fann

Dæmi 4

Dæmi 4: Arnljóts bróðir ekki sljór

Þessar miklu breytingar verða ekki aðeins frá einni upptöku til annarrar heldur einnig frá vísu til vísu innan sömu upptöku, svo sem hér í 8. rímu af Bernótus Borneyjarkappa, vísum 3–5:

Dæmi 5

Dæmi 5: Söng í reiða kífinn kár

Dæmi 6

Dæmi 6: Sigla drengir dag sem nátt

Dæmi 7

Dæmi 7: Kár með jöfnum þrótti þar

Samsetning hendinga er breytileg. Heyra má samsetningar á borð við ABCZ, AAvBZ, ABBvZ og ABAZ. Tónsviðið er mjög breytilegt og breytist frá þríund (tónar 1 til 3) upp í sexund (tónar 1 til 6) frá einni vísu til annarrar. Takturinn er fastur, allar vísur eru í takti a.

Í tveimur upptökum, annars vegar með sex vísum og hins vegar einni sem Þórður kvað árið 1971, eftir að ég hafði lokið meistaraprófsrannsókn minni, kom í ljós að hann gat einnig notað stemmu 1 til að kveða stuðlafall (10/7/7) sem sýndi að kvæðalagið er teygjanlegt.

Dæmi 8

Dæmi 8: Sunnlendingur sem að Björn er nefndur

Dæmi 9

Dæmi 9: Húsmóðirin honum gaf að borða

Hinn yfirþyrmandi fjölda breytinga má flokka í átta kvæðalagamódel (flokka kvæðalaga með sameiginleg einkenni sem aðskilja þau frá öðrum flokkum). Hér eru sýnd dæmi um módelin en leggja verður áherslu á að hvert módel hefur mörg tilbrigði sem öll eru jafnrétthá.

Módel 1 (10 vísur):
Dæmi 10

Dæmi 10: Stundum fram á steinbítsmið

Módel 2 (35 vísur):
Dæmi 11

Dæmi 11: Stríð er að fást við stjórn og þjóð

Módel 3 (26 vísur):
Dæmi 12

Dæmi 12: Í landsins hjarta lifði þar

Módel 4 (6 vísur):
Dæmi 13

Dæmi 13: Hnút við stóran hafla beins

Módel 5 (19 vísur):
Dæmi 14

Dæmi 14: Faldasunna sál var heið

Módel 6 (21 vísa):
Dæmi 15

Dæmi 15: Hróp í staðinn heyrði þá

Módel 7 (6 vísur):
Dæmi 16

Dæmi 16: Hátt upp gerði hrópa þar

Módel 8 (151 vísa):
Dæmi 17

Dæmi 17: Breiða- fyrst á firðinum

Hægt er að lýsa módelunum átta, og þar með stemmunni í heild, þannig að þau byggist upp af tólf frösum, sem síðan er hægt að setja saman á mismunandi en ekki reglulegan hátt í fyrstu þremur hendingum kvæðalagsins. Ýmis tilbrigði eru síðan af hverjum frasa. Tölurnar undir nótunum segja til um hve oft frasinn kemur fyrir innan stemmunnar.

Þrír frasar (za, zb og zc) eru lokafrasar sem koma aðeins fyrir í fjórðu hendingu kvæðalagsins.

Dæmi 18: Ráðandi frasar sem Þórður notar

Sem fyrr segir voru Þórður og Einar Einarsson þeir einu í hópi kvæðamannanna sem hér er fjallað um sem kváðu með ólíkum frösum með þessum hætti. Nákvæmari lýsingu á þessari stemmu Þórðar er að finna í bók minni, Stability in Musical Improvisation.

Stemma 2

Þessa stemmu notar Þórður í átta upptökum við alls 100 vísur. Vísurnar eru undir sex mismunandi bragarháttum sem margir hafa fleiri en sjö atkvæði í fyrsta vísuorði: stikluvik (7/6/7/7), langhenda (8/7/8/7), braghenda (12/8/8), skammhenda (8/5/8/5), stuðlafall (10/7/7) og úrkast (8/4/8/4).

Kvæðalagið er fremur fast en þó ansi teygjanlegt hvað lengd varðar, enda atkvæðafjöldi bragarháttanna breytilegur. Samsetning hendinganna er föst þegar tekið er tillit til munar á bragarháttum. Tónsviðið er næstum fast, yfirleitt sexund, og spannar tónbil -3 til 3. Í einstaka tilfellum hefst lagið á tóni -4 eða er teygt upp á tón 4 þannig að tónsviðið breikkar upp í sjöund. Taktmyndin er föst, aðeins taktur b kemur fyrir.

Dæmi 19

Dæmi 19: Smala hlýðinn hjarðar fjöldinn

Dæmi 20

Dæmi 20: Sé eg það, að sorg þú berð í sinnu ranni

Stemma 3

Þessi stemma heyrist í nítján vísum í fjórum upptökum og eru vísurnar annað hvort nýhendar (7/8/7/8) eða undir hagkveðlingahætti (7/7/7/7). Kvæðalagið er fast og ekki teygjanlegt þar sem munurinn á atkvæðafjölda hvers vísuorðs í þessum tveimur bragarháttum er lítill og hefur lítil áhrif á kvæðalagið. Samsetning hendinga er föst. Tónsviðið er fast og spannar ferund, frá tóni 1 til 4. Takturinn er fastur, taktur a.

Dæmi 21

Dæmi 21: Firna stórum fjöllum á

Dæmi 22

Dæmi 22: Súða lýsti af sólunum


Gísli Gíslason

Gísli Gíslason (1910–2001) fæddist á Hrísnesi á Barðaströnd og ólst upp á Siglunesi. Þegar við heimsóttum hann og hljóðrituðum árið 1965 var hann bóndi á Fit á Barðaströnd. Gísli var einn þeirra sem Hallfreður hljóðritaði árið 1959 og þegar ég hlustaði á þær upptökur haustið 1964 valdi ég hann sem einn af þeim sem við ættum að reyna að taka upp að nýju. Gísli segist sjálfur hafa heyrt rímnakveðskap í bernsku sinni og þá vaknaði áhugi hans á kveðskap. Hann gat ekki sagt nákvæmlega af hverjum hann hafði lært kvæðalögin en taldi að hann hefði bara lært þau af sjálfum sér og reynt að herma eftir því sem aðrir kváðu.

Við bjuggum hjá Gísla og fjölskyldu hans í fjóra daga, hjálpuðum til við heyskapinn á daginn og tókum upp rímnaflutning Gísla á kvöldin. Afrakstur þessa var alls 31 upptaka, langoftast stuttir eða langir hlutar af rímum, og í upptökunum koma fyrir sjö mismunandi bragarhættir, sumir meira áberandi en aðrir. Ferskeyttir hættir heyrast í sextán upptökum, stikluvik í fimm upptökum, nýhenda í fjórum og langhenda og braghenda í þremur hvor. Afhending kom fyrir í tveimur upptökum en stafhenda og stuðlafall aðeins í einni hvor. Í kveðskaparsjóði sínum hefur Gísli sjö mismunandi stemmur.

Stemma 1

Gísli notar þessa stemmu oft. Hún heyrist í tíu upptökum með samtals 148 vísum sem allar eru undir öðrum hvorum bragarhættinum, ferskeyttu (7/6/7/6) eða stikluviki (7/6/7/7). Þessir bragarhættir líkjast hvor öðrum mjög hvað varðar atkvæðafjölda í vísuorðum.

Kvæðalagið er mjög breytilegt og býður upp á möguleika á miklum og róttækum breytingum. Breytingarnar verða ekki aðeins á milli upptaka og eru ekki takmarkaðar við einstaka tóna heldur geta þær náð til heillar hendingar í kvæðalagi innan sömu upptöku. Kvæðalagið verður að teljast lítið teygjanlegt vegna þess hve lítill munur er á bragarháttunum tveimur.

Dæmi 1

Dæmi 1: Þar var greina þrotið smíð

Dæmi 2

Dæmi 2: Hart fram veður Hyrningur

Tónsviðið er breytilegt og getur sveiflast frá fimmund upp í sexund (tónbil 1 til 5 og 1 til 6). Samsetning hendinga er breytileg (ABCZ og ABAZ) og takturinn er fastur, taktur a.

Dæmi 3

Dæmi 3: Sumars blíðan svo út rann

Dæmi 4

Dæmi 4: Heiman ferð um haustið bjó

Dæmi 5

Dæmi 5: Síðan heima að sumri er

Stemma 2

Stemma 2 kemur fyrir í fimmtán upptökum með 175 vísum. Vísurnar eru allar undir öðrum af tveimur áþekkum fjögurra línu bragarháttum, ferskeyttum (7/6/7/6) eða stafhendu (7/7/7/7). Kvæðalagið er fast og tekur aðeins litlum breytingum og vegna sambærilegs atkvæðafjölda bragarháttanna verður kvæðalagið að teljast óteygjanlegt.

Dæmi 6

Dæmi 6: Skipti manna bauð í ból

Dæmi 7

Dæmi 7: Sókn og varnir sýndu þeir

Tónsviðið er breytilegt, venjulega er það sexund (tónbil -2 til 4) en það getur einnig verið fimmund (tónbil -2 til 3). Óvenjulegt er að þriðji tónn yfir lokatóninum er lágur. Samsetning hendinga er föst, ABABv og takturinn er fastur, alltaf taktur a.

Stemma 3

Þessi stemma heyrist í átta upptökum með samtals 90 vísum. Þar koma fyrir þrír mismunandi bragarhættir sem eru töluvert frábrugðnir hver öðrum hvað fjölda og lengd vísuorða varðar. Þetta eru fjögurra línu hátturinn langhenda (8/7/8/7), braghenda sem er þriggja lína (12/8/8) og tveggja línu afhending (12/8).

Kvæðalagið er frekar breytilegt og breytingarnar heyrast frá einni vísu til annarrar. Þannig má greina tvö mismunandi form fyrstu hendingarinnar sem spanna misbreitt tónsvið. Kvæðalagið er mjög teygjanlegt eins og það verður að vera til að passa hinum mjög svo ólíku bragarháttum. Samsetning hendinga er þó föst þegar tekið er tillit til bragarháttanna, AZvBZ / azvBZ / abvZ. Tónsviðið er breytilegt. Það getur breyst frá fimmund (tónbil 1 til 5) til sjöundar (tónbil -2 til 5) frá einni vísu til annarrar í sömu upptöku en breytingarnar eru ekki stórkostlegar. Takturinn er breytilegur, bæði taktur b og taktur c koma fyrir.

Dæmi 8

Dæmi 8: Öslaði gnoðin, beljaði boðinn

Dæmi 9

Dæmi 9: Húsfreyjurnar hugsandi um hagi slæma

Dæmi 10

Dæmi 10: Auður mælti: „Oss úr vöndu er að ráða.“

Dæmi 11

Dæmi 11: Börkur, eftir bardagann, til bæja sneri

Stemma 4

Stemman kemur fyrir í þremur upptökum með 54 vísum og er flutningur í hverri upptöku undir sínum bragarhætti, stikluviki (7/6/7/7), ferskeytlu (7/6/7/6) og stuðlafalli (10/7/7). Kvæðalagið er nokkuð breytilegt og breytingar heyrast frá einni vísu til annarrar innan hverrar upptöku en þær eru ekki stórkostlegar.

Tónsviðið er breytilegt og breytist frá áttund (tónbil 1 til 8) til níundar (tónbil 1 til 9).  Kvæðalagið er mjög teygjanlegt þar sem það passar ólíkum bragarháttum. Samsetning hendinga er föst en takturinn er breytilegur, bæði heyrast taktur a og taktur b.

Dæmi 12

Dæmi 12: Ekki gleymist Gísli mér

Dæmi 13

Dæmi 13: Njótar lófa neggja hófu leika

Dæmi 14

Dæmi 14: Sumars blíðan svo út rann

Stemma 5

Stemma 5 kemur aðeins fyrir í tveimur upptökum með samtals 34 vísum undir nýhendum (7/8/7/8) og stafhendum (7/7/7/7) háttum. Kvæðalagið er mjög breytilegt eins og stemma 4 og breytingarnar eru áberandi. Kvæðalagið verður þó að teljast óteygjanlegt hvað lengd varðar vegna þess hve lítill munur er á bragarháttunum tveimur.

Samsetning hendinga er föst, ABAB. Tónsviðið er breytilegt og sveiflast milli ferundar (tónbil -2 til 2) og fimmundar (tónbil -2 til 3). Takturinn er breytilegur en bæði taktur d og taktur e heyrast í upptökunum.

Dæmi 15

Dæmi 15: Þegar helja handaköld

Dæmi 16

Dæmi 16: Þar var greina þrotið smíð

Dæmi 17

Dæmi 17: En því auðsærri sem hann var

Stemma 6

Stemma 6 kemur aðeins fyrir í einni upptöku með 34 vísum sem allar eru undir ferskeyttum hætti. Kvæðalagið er fast og óteygjanlegt með tilliti til lengdar enda ólíklegt að tilbrigði komi fram vegna þess að bragarhátturinn er alltaf sá sami.

Samsetning hendinganna er föst og er ABABv. Tónsviðið er einnig fast og spannar áttund (tónbil 1 til 8). Stemma 6, ásamt stemmu 7, skilur sig greinilega frá öðrum stemmum Gísla þar sem hún byggist á þríhljómi og er sönghæf. Takturinn er fastur og er alltaf taktur a.

Dæmi 18

Dæmi 18: Drauma undur orðið hér

Stemma 7

Stemmu 7 notar Gísli aðeins í einni upptöku með fjórtán vísum undir nýhendum hætti (7/8/7/8). Kvæðalagið er fast og óteygjanlegt, enda kemur aðeins einn bragarháttur fyrir í upptökunni.

Dæmi 19

Dæmi 19: Líkafrón og lagsmenn tveir

Tónsviðið er föst sexund og spannar frá tóni 1 til 6. Takturinn er fastur, taktur e. Þessi stemma skilur sig einnig, eins og stemma 6, frá öðrum stemmum Gísla með því að vera sönghæf.


Þórður V. Marteinsson

Þórður Valdimar Marteinsson (1932–2008) var bóndi í Holti á Barðaströnd. Það var Gísli Gíslason sem benti okkur á hann og við heimsóttum hann aðeins einu sinni á meðan við bjuggum hjá Gísla á Fit. Við gerðum alls sex upptökur með samtals 67 vísum sem voru undir fimm mismunandi bragarháttum, ferskeytt (7/6/7/6), langhent (8/7/8/7), nýhent (7/8/7/8), stuðlafall (10/7/7) og braghent (12/8/8). Í flutningi sínum notar Þórður þrjár mismunandi stemmur.

Stemma 1

Stemman kemur fyrir í þremur upptökum með samtals 48 vísum og er notaður við tvo bragarhætti, ferskeytt (7/6/7/6) og stuðlafall (10/7/7). Kvæðalagið er fast með mjög litlum breytingum en lengd þess er teygjanleg þar sem hægt er að nota það við svo ólíka bragarhætti sem ferskeytt og stuðlafall eru. Tónsviðið er fast og spannar níund (tónbil 1 til 9). Samsetning hendinga er einnig næstum föst, ABCZ / abCZ. Takturinn er breytilegur því bæði taktur a og taktur b heyrast.

Dæmi 1

Dæmi 1: Fékk ég bréf þitt, Fúsi minn

Dæmi 2

Dæmi 2: Njótar lófa neggja hófu leika

Stemma 2

Stemma 2 heyrist í tveimur upptökum með samtals fjórtán vísum undir tveimur bragarháttum, langhendu (8/7/8/7) og braghendu (12/8/8). Kvæðalagið er fast með óverulegum breytingum en það er teygjanlegt því hægt er að nota það við tvo ólíka bragarhætti.

Tónsviðið er óbreytilegt, áttund á tónbilinu -1 til 6. Samsetning hendinga er nánast alveg föst þegar tekið er tillit til hinna ólíku bragarhátta, ABCZ / abCZ. Takturinn er þó breytilegur þar sem bæði taktur a og taktur b koma fyrir.

Dæmi 3

Dæmi 3: Þiggur af lýðum lofið tíðum

Dæmi 4

Dæmi 4: Húsfreyjurnar hugsandi um hagi slæma

Stemma 3

Stemma 3 kemur einungis fyrir í einni upptöku þar sem kveðnar eru fjórar vísur undir nýhendum hætti (7/8/7/8). Kvæðalagið er fast með mjög óverulegum breytingum og virðist ekki vera teygjanlegt miðað við þau gögn sem eru til staðar. Tónsvið kvæðalagsins er fast, sexund (tónbil 1 til 6), og samsetning hendinga er einnig föst, ABAB.

Dæmi 5

Dæmi 5: Fjörulallar fóru á kreik

Takturinn virðist vera fastur. Kveðandi Þórðar Marteinssonar er nær söng en kveðskap og lögin eru mjög sönghæf.


Þorgils Þorgilsson

Þorgils Þorgilsson (1884–1971) var fæddur á Búlandshöfða og bjó á Þorgilsstöðum á Snæfellsnesi. Í tveimur heimsóknum til hans voru gerðar samtals 23 upptökur með samtals 110 vísum sem tilheyra fimm bragarháttum: ferskeytt (7/6/7/6), nýhenda (7/8/7/8), braghenda (12/8/8), langhenda (8/7/8/7) og stuðlafall (10/7/7).

Ferskeytti hátturinn er langalgengastur en hann heyrist í tólf upptökum með samtals 89 vísum, þar af eru fjórar upptakanna af því er Þorgils flytur sitt eigið kvæði, Árstíðirnar. Þar fyrir utan er nýhenda kveðin í fjórum upptökum. Tvær þeirra eru með fimm vísum hvor, ein með tveimur vísum og ein aðeins með einni vísu.

Braghendar vísur eru fjórar í þremur upptökum, stuðlafall aðeins í einni upptöku með tveimur vísum og langhenda heyrist í tveimur upptökum með einni vísu hvor. Innan ferskeytts háttar notar Þorgils samtals fjórar mismunandi stemmur og sérstaka stemmu fyrir hvern hinna bragarháttanna. Þetta þýðir að hann notar níu stemmur og þar að auki kveður hann átta vísur sem falla þar utan við.

Einungis ferskeyttur háttur kemur fyrir nógu oft til þess að hægt sé að slá einhverju föstu um hversu mikil tilbrigðin eru en nýhendu vísurnar gefa þó vísbendingar og um þær og nokkrar aðrar má staðhæfa með nokkurri vissu að þær séu opnar fyrir tilbrigðum. Undir ferskeytta bragarhættinum heyrast fjórar stemmur: stemmur 1, 2, 3 og 5.

Stemma 1

Stemman er bundin ferskeyttum hætti og heyrist í 38 vísum í samtals sex upptökum. Kvæðalagið er breytilegt en ekki teygjanlegt. Breytingar eru algengar, bæði milli kvæða og frá einni vísu til annarrar, en þær eru ekki miklar og koma nánast eingöngu fyrir í fyrstu hendingu. Lokatónn hverrar vísu (tónn 1) er hækkaður. Samsetning hendinganna er breytileg, oftast ABCZ en getur þó einnig verið ABAZ.

Dæmi 1

Dæmi 1: Vorsins blíða lýða lund

Dæmi 2

Dæmi 2: Grænkar víða grund að sjá

Dæmi 3

Dæmi 3: Sumri hallar haustar þá

Tónsvið kvæðalagsins er fast og spannar sexundina frá tóni -1 til 5. Í fyrstu hendingu er notað tónbil 3 til 5 en hinar þrjár halda sig við tónbil -1 til 3. Takturinn er fastur, taktur c.

Stemma 2

Stemma 2 er notuð til að flytja vísur undir ferskeyttum hætti og kemur fyrir í 29 vísum í sex upptökum. Allar upptökurnar nema tvær (með tíu vísum) eru gerðar árið 1964. Kvæðalagið er breytilegt með mörgum tilbrigðum en sú lagmyndun sem sýnd er í dæmi 6 er ríkjandi. Kvæðalagið er ekki teygjanlegt hvað lengd varðar.

Samsetning hendinganna er breytileg og getur ýmist verið ABCZ, ABBvZ eða ABAvZ. Tónsviðið er breytilegt og getur sveiflast á milli þríundar (tónbil 1 til 3) og fimmundar (tónbil 1 til 5). Takturinn er breytilegur og bæði taktur a og taktur b heyrast.

Dæmi 4

Dæmi 4: Geislar ljóma um grund og haf

Dæmi 5

Dæmi 5: Þá vetur klæðist kufl sinn í

Dæmi 6

Dæmi 6: Dagsins runnu djásnin góð

Stemma 3

Þessi stemma tengist einnig ferskeyttum hætti og heyrist aðeins í tveimur upptökum, báðum frá árinu 1965. Í annarri upptökunni má heyra kveðskaparmátann notaðan í flutningi fimmtán vísna og tveggja í hinni.

Kvæðalagið er frekar breytilegt og ólík tilbrigði heyrast í fyrstu þremur hendingum vísnanna, bæði milli upptaka og frá einni vísu til annarrar innan sömu upptöku en breytingarnar eru ekki miklar. Kvæðalagið er ekki teygjanlegt hvað lengd varðar. Lokatónninn er venjulega hækkaður. Samsetning hendinga er föst, hún er alltaf á forminu ABCZ. Tónsviðið er sömuleiðis fast og spannar sexund, frá tóni -1 til 5. Takturinn er breytilegur og bæði taktur a og taktur c koma fyrir.

Dæmi 7

Dæmi 7: Vorsins blíða lýða lund

Dæmi 8

Dæmi 8: Unaðs hljómar um þá tíð

Stemma 4

Stemmu 4 má heyra í þremur upptökum, í flutningi alls átta vísna sem allar eru undir nýhendum hætti (7/8/7/8). Kvæðalagið tekur ekki stórtækum breytingum en þó er mikið um óverulegar breytingar. Lokatónninn er hækkaður. Samsetning hendinga er föst og alltaf á forminu ABAvZ. Tónsviðið er einnig fast, fimmund (tónbil 1 til 5) og kvæðalagið er ekki teygjanlegt enda einungis notað við einn bragarhátt. Takturinn er óbreytanlegur, eingöngu taktur b.

Dæmi 9

Dæmi 9: Stafninn klýfur strauma dátt

Dæmi 10

Dæmi 10: Nú skal vinda voð að hún

Stemma 5

Þessi stemma tengist aðeins ferskeyttum hætti. Hann heyrist í átta vísum á einni upptöku sem gerð var árið 1965. Kvæðalagið virðist vera frekar breytilegt með greinilegum tilbrigðum. Tónsviðið er einnig breytilegt, það er stundum ferund og stundum fimmund (tónbilið frá 1 til 4 eða frá 1 til 5). Samsetning hendinga er föst, ABAZ, og takturinn er fastur en aðeins taktur a kemur fyrir.

Dæmi 11

Dæmi 11: Vorsins blíða lýða lund

Dæmi 12

Dæmi 12: Að sumars blíða svífur tíð

Stemma 6

Stemman er eingöngu tengd braghendu (12/8/8) og kemur fyrir í fjórum vísum í þremur mismunandi upptökum. Kvæðalagið er breytilegt að takmörkuðu leyti. Lokatónninn er hækkaður. Kvæðalagið er ekki teygjanlegt hvað lengd varðar sem ekki kemur á óvart þar sem það er eingöngu notað við braghendar vísur.

Tónsviðið er breytilegt því það getur sveiflast á milli ferundar (tónbil 1 til 4) til sexundar (tónbil -1 til 5) eða sjöundar (tónbil -3 til 4). Samsetning hendinga er föst, ABBv, og takturinn er fastur, taktur b.

Dæmi 13

Dæmi 13: Á ég að halda áfram lengra eða hætta

Dæmi 14

Dæmi 14: Á ég að halda áfram lengra eða hætta

Dæmi 15

Dæmi 15: Högna kenni eg, hefna nennir hlýra sinna

Stemma 7

Þorgils notar þessa stemmu aðeins við þrjár vísur undir nýhendum hætti (7/8/7/8) í tveimur upptökum. Kvæðalagið er nokkuð breytilegt og tilbrigði heyrast í öllum hendingum. Lokatónninn er oftast hækkaður. Samsetning hendinga er breytileg og getur verið ýmist AZBZv eða AZAvZv. Tónsviðið er aftur á móti fast og spannar fimmund (tónbil -1 til 4). Takturinn er breytilegur, bæði taktur a og taktur b heyrast.

Dæmi 16

Dæmi 16: Líkafrón og lagsmenn tveir

Dæmi 17

Dæmi 17: Ill var færð og óhrein leið

Stemma 8

Stemma 8 tengist stuðlafalli (10/7/7) og heyrist einungis í tveimur stökum vísum. Ekki er hægt er skera úr um hvort hér er um tvær mismunandi stemmur að ræða eða eina breytilega stemmu. Í báðum vísunum er samsetning hendinga AAZ. Tónsviðið er breytilegt, í öðru tilfellinu fimmund (tónbil 1 til 5) og hinu ferund (tónbil -1 til 3). Takturinn er breytilegur, taktur a og taktur b.

Dæmi 18

Dæmi 18: Andri hlær svo höllin nær við skelfur

Dæmi 19

Dæmi 19: Andri hlær svo höllin nær við skelfur

Stemma 9

Þessi stemma heyrist aðeins þegar kveðin er langhenda (8/7/8/7) og hún kemur aðeins fyrir í tveimur stökum vísum. Kvæðalagið virðist fremur lítið breytilegt þar sem aðeins er hægt að heyra smávegis breytingar í tveimur síðustu hendingunum. Þó er erfitt að fullyrða um það vegna þess hve takmörkuð gögnin eru. Tónsvið kvæðalagsins spannar fasta ferund (tónbil 1 til 4), og samsetning hendinga er óbreytanleg, ABCZ. Takturinn er einnig fastur en taktur a heyrist í dæmunum.

Dæmi 20

Dæmi 20: Ofan lúðir fjallið fóru

Dæmi 21

Dæmi 21: Númi undrast, Númi hræðist


Páll B. Stefánsson

Páll Böðvar Stefánsson (1886–1973) var fæddur og uppalinn á Fossá í Kjós til 15 ára aldurs en flutti þá til Reykjavíkur. Hann lauk námi í trésmíðum og starfaði við húsbyggingar. Þegar við heimsóttum hann árið 1968 var hann 82 ára gamall og bjó í Reykjavík. Við fengum engar upplýsingar um það hvar hann hefði lært að kveða. Við hittum hann aðeins einn eftirmiðdag við upphaf söfnunarinnar áður en haldið var vestur á Fellströnd til að hljóðrita Guðmund og Pétur Ólafssyni.

Hjá Páli voru gerðar sjö upptökur og á þeim kveður Páll rímnahluta undir þremur ólíkum bragarháttum: ferskeytlu (7/6/7/6), langhendu (8/7/8/7) og nýhendu (7/8/7/8). Aðeins þrír rímnahlutanna sem fluttir voru innihalda langa samhangandi kafla. Einn þeirra er undir nýhendum hætti og tveir eru sami texti undir ferskeyttum hætti sem fluttur er með ólíkum kvæðalögum. Efniviður til rannsóknar er þannig mjög lítill og þess vegna verður að taka lýsingu á kveðandi Páls með vissum fyrirvara. Í upptökunum notar Páll sex mismunandi stemmur.

Stemma 1

Fyrsta stemman heyrist í tveimur vísum undir langhendum hætti (8/7/8/7) á einni upptöku. Kvæðalagið er ekki breytilegt ef marka má þær takmörkuðu upptökur sem til eru af því. Samsetning hendinga er einnig óbreytanleg, ABAB, og tónsviðið er föst sjöund (tónbil -1 til 6). Takturinn er fastur, einungis taktur d kemur fram.

Dæmi 1

Dæmi 1: Man ég fyrrum þyt á þökum

Stemma 2

Þessi stemma heyrist í 29 vísum í tveimur upptökum með sama texta undir ferskeyttum hætti. Kvæðalagið er ekki breytilegt og er greinilega fastmótað. Samsetning hendinga er föst, ABCD. Tónsviðið er föst sjöund (tónbil -3 til 5) með lækkuðum 3. tóni. Takturinn er einnig fastur, taktmynstur a er eini takturinn sem heyrist.

Dæmi 2

Dæmi 2: Ófær sýnist áin mér

Stemma 3

Stemma 3 kemur fyrir í tólf vísum undir nýhendum hætti (7/8/7/8) í einni upptöku. Kvæðalagið er lítið breytilegt, tekur aðeins fáeinum smávægilegum breytingum og það er ekki teygjanlegt. Fyrsta og önnur hending kvæðalagsins samsvara annarri hendingu í stemmu 1. Samsetning hendinga er föst, AABC. Tónsviðið er föst sjöund (tónbil -1 til 6). Takturinn er fastur, taktur b.

Dæmi 3

Dæmi 3: Vora tekur. Árla er

Stemma 4

Stemman er notuð við ferskeyttan hátt og kemur aðeins fyrir í þremur vísum í einni upptöku. Kvæðalagið er ekki breytilegt og alfarið óteygjanlegt hvað lengd varðar. Samsetning hendinga er föst, ABCD, og tónsviðið er föst sjöund (tónbil 1 til 7). Takturinn er fastur og taktmynstur a það eina sem kemur fram.

Dæmi 4

Dæmi 4: Fugla háan heyri klið

Stemma 5

Þessi stemma kemur fyrir í tveimur vísum undir ferskeyttum hætti í einni upptöku. Efnið er því í raun of lítið til þess að hægt sé að meta það með fullri vissu. Tónsviðið er föst sexund (tónbil 1 til 6) og samsetning hendinga er einnig föst, ABAB. Kvæðalagið virðist geta tekið minniháttar breytingum. Takturinn er fastur, taktur a er eina taktmynstrið sem finna má í kvæðalaginu.

Dæmi 5

Dæmi 5: Ýmsum þykir einskis vert

Stemma 6

Stemma 6 kemur fyrir í fjórum vísum undir ferskeyttum hætti. Kvæðalagið er breytilegt og hefur möguleika á að taka tilbrigðum, sér í lagi í lokahendingunni. Samsetning hendinga er föst, AABC. Tónsvið kvæðalagsins er breytilegt. Það getur sveiflast frá ferund sem spannar bilið frá tóni -1 til 3 til sexundar og spannar þá tónbilið -1 til 5. Taktbyggingin er aftur á móti fastmótuð og einungis taktmynstur a kemur fyrir.

Dæmi 6

Dæmi 6: Af því nú er komið kvöld

Dæmi 7

Dæmi 7: Sál mín brynni í sjafnar eld


Pétur Ólafsson

Pétur Ólafsson (1895–1991) var bóndi í Stóru-Tungu á Fellsströnd þar sem hann bjó með konu sinni og börnum. Hann var fæddur á Stakkabergi en foreldrar hann fluttu að Stóru-Tungu á Fellsströnd 1897. Þar ólst Pétur upp og átti þar heima til dauðadags. Sem ungur maður vann hann fyrir sér með vinnumennsku og sjósókn. Í Stóru-Tungu var það eingöngu faðir Péturs sem kvað og það gerði hann fram til ársins 1907. Þá dó kona hans og eftir það hætti hann að kveða. Ólafur kvað bæði lausavísur og heilar rímur og notaði til þess sömu kvæðalög þegar sömu bragarhættir komu fyrir. Á kvöldin voru sögur lesnar upphátt eða rímur voru kveðnar. Þessi skemmtun varaði venjulega í um klukkustund og þegar rímur voru kveðnar var hægt að kveða nokkrar rímur úr sama rímnaflokki en sjaldan var kveðinn heill rímnaflokkur í senn. Venjulega voru mansöngvarnir kveðnir líka og þá voru þeir kveðnir með sama kvæðalagi og sjálf ríman. Pétur varð seinna vinnumaður á öðrum bæ þar sem bóndinn kvað eingöngu lausavísur en aldrei rímur. Á Fellsströnd lagðist rímnakveðskapur af um 1920 en þegar frá því um 1910 fór fólki að fækka í sveitinni. Pétur kvað rímur til skemmtunar á heimilinu í síðasta sinn árið 1952.

Við heimsóttum Pétur árið 1967 og 1968 og í bæði skiptin dvöldum við hjá honum í dágóðan tíma. Með honum fengum við tækifæri til að hljóðrita heilar rímur og á nokkrum dögum tókst okkur að hljóðrita heilan rímnaflokk. Samtals voru gerðar 55 upptökur og lausavísur koma aðeins fram í tólf þeirra. Í upptökunum koma fyrir tólf bragarhættir: ferskeytt (22 upptökur), langhent (sjö upptökur), stuðlafall (sex upptökur), nýhent (fimm upptökur), stikluvik (fjórar upptökur), braghent og samhent (þrjár upptökur hvort), gagaraljóð og afhent (tvær upptökur hvort) og breiðhent, skammhent og stafhent ( í einni upptöku hvert).

Til að kveða hvern og einn af þessum bragarháttum notaði Pétur ellefu mismunandi stemmur. Allar stemmurnar sýna takmarkaðan breytileika en aðeins lítils háttar breytingar heyrast á þeim. Aftur á móti eru margar þeirra teygjanlegar þannig að hægt er að nota hverja og eina stemmu við fleiri en einn bragarhátt.

Stemma 1

Stemma 1 heyrist í níu upptökum með 259 vísum. Pétur notar hana fyrst og fremst við stuðlafall (10/7/7) en hún heyrist einnig við stikluvik (7/6/7/7), ferskeytt (7/6/7/6) og gagaraljóð (7/7/7/7). Kvæðalagið er aðeins breytilegt, þ.e. örlitlar breytingar heyrast í lokahendingunni, en samsetning hendinganna er ekki breytileg. Það er teygjanlegt því hægt er að nota það við ólíka bragarhætti. Tónsviðið er breytilegt, tvíund (tónbil 1 til 2) eða þríund (tónbil 1 til 3). Laglínan hreyfist aðeins um tvö tónbil nema í lokahendingunni þar sem hún nær mest yfir þrjú tónbil. Takturinn er fastur og eingöngu taktur c kemur fyrir.

Dæmi 1

Dæmi 1: Hákon þá er hniginn lá

Dæmi 2

Dæmi 2: Héðinn sjóli sest að stóli valda

Stemma 2

Þessi stemma heyrist í átta upptökum með 391 vísu sem allar eru undir ferskeyttum hætti (7/6/7/6). Kvæðalagið er nánast óbreytanlegt og tekur aðeins óverulegum breytingum. Það virðist einnig vera óteygjanlegt hvað lengd varðar en stemman er sem fyrr segir aðeins notuð með einum bragarhætti. Samsetning hendinga er föst, ABABv, og tónsviðið er fast þ.e.a.s. þríund (tónbil 1 til 3). Takturinn er einnig fastur, taktur a.

Dæmi 3

Dæmi 3: Bóndinn tér með blíðri önd

Stemma 3

Stemmu 3 notar Pétur í sjö upptökum með 340 vísum. Í sex upptökum eru vísurnar undir ferskeyttum hætti (7/6/7/6) og í einni er stemman notuð við stikluvik (7/6/7/7). Kvæðalagið er nánast óbreytanlegt og tekur mjög litlum breytingum. Einnig er það óteygjanlegt að lengd þar sem munurinn á bragarháttunum tveimur er óverulegur. Samsetning hendinga er föst og alltaf á forminu ABCZ. Tónsviðið er einnig fast og spannar ferund, frá tóni 1 til 4. Takturinn er fastur en taktur c er eina taktmynstrið sem kemur fyrir.

Dæmi 4

Dæmi 4: Héðinn dvelur heima þá

Stemma 4

Stemma 4 heyrist í fimm upptökum með 172 vísum sem eru ýmist undir ferskeyttum (7/6/7/6) eða nýhendum hætti (7/8/7/8). Kvæðalagið er nánast óbreytanlegt og þær breytingar sem heyrast eru óverulegar. Tónsviðið er þríund og spannar tónbil 1 til 3. Fyrsta og þriðja hending einkennast af stígandi laglínu en önnur og fjórða hending líkjast mjög hvor annarri. Þær hefjast bæði og enda á grunntóni. Þriðji tónn er lækkaður. Takturinn er fastur, aðeins taktur b kemur fyrir.

Dæmi 5

Dæmi 5: Ólafs saga áðan beið

Dæmi 6

Dæmi 6: Skipið flaut og ferða naut

Stemma 5

Þessa stemmu má heyra í þremur upptökum með 242 vísum sem allar eru undir ferskeyttum hætti (7/6/7/6). Kvæðalagið er nánast óbreytanlegt og tekur aðeins óverulegum breytingum. Einnig er það óteygjanlegt. Samsetning hendinga er föst og má lýsa með ABBvBv. Tónsviðið er einnig fast og spannar ferund, tónbil 1 til 4. Takturinn er aftur á móti breytilegur en bæði taktur a, taktur b og taktur c koma fyrir.

Dæmi 7

Dæmi 7: Frændur Merði fleins í klið

Stemma 6

Stemma 6 heyrist við 228 vísur í fjórum upptökum undir bragarháttunum ferskeytt (7/6/7/6) og gagaraljóð (7/7/7/7). Kvæðalagið er óbreytanlegt eða tekur aðeins óverulegum breytingum. Það er einnig óteygjanlegt enda hafa bragarhættirnir tveir svo líkan atkvæðafjölda að munurinn hefur lítil áhrif á hendingalengdina. Samsetning hendinga er föst og er alltaf á forminu ABABv. Tónsviðið er fimmund og spannar tónbil 1 til 5 en það er breytilegt milli hendinga innan sömu vísu. Í fyrstu og þriðju hendingu er notað tónbilið 3 til 5 en í annarri og fjórðu hendingu víkkar tónsviðið og þá er tónbil 1 til 5 notað. Takturinn er breytilegur og bæði taktur a, taktur b og taktur c koma fyrir.

Dæmi 8

Dæmi 8: Frægða háir fólkstjórar

Stemma 7

Þessi stemma heyrist einnig í fjórum upptökum með samtals 197 vísum sem eru annað hvort undir langhendum (8/7/8/7) eða skammhendum (8/5/8/5) hætti. Kvæðalagið er án verulegra breytinga en það er teygjanlegt enda nokkur munur á atkvæðafjölda bragarháttanna. Samsetning hendinga er föst og er á forminu BCBZ. Tónsvið kveðskaparmátans er lítillega breytilegt og spannar ýmist fimmund, tónbil -2 til 3, eða ferund, tónbil -2 til 2. Takturinn er fastur því taktur a er notaður í öllum upptökunum.

Dæmi 9

Dæmi 9: Hann Járngrímur sér að sjóli

Dæmi 10

Dæmi 10: Ólafur Svía sjóli stýrir

Stemma 8

Stemma 8 kemur fyrir í fjórum upptökum með 154 vísum sem allar eru undir langhendum hætti (8/7/8/7). Kvæðalagið er óbreytanlegt og virðist einnig vera óteygjanlegt. Vísurnar eru þó allar undir sama bragarhætti með sama atkvæðafjölda og því reynir ekki á teygjanleika kvæðalagsins. Samsetning hendinga er föst og er alltaf á forminu ABAB. Tónsvið kvæðalagsins er einnig fast og spannar þríund, á bilinu frá tóni 1 til tóns 3. Takturinn er fastur og einungis taktur d kemur fyrir.

Dæmi 11

Dæmi 11: Þar var aldan Óma þrotin

Stemma 9

Þessi stemma heyrist í þremur upptökum með 181 vísu og eru þær allar undir ferskeyttum hætti (7/6/7/6). Kvæðalagið er fast en tekur þó óverulegum breytingum. Tónsviðið er einnig fast og spannar ferund, tónbil 1 til 4. Samsetning hendinga er föst og eru þær með öllu óbreytanlegar, það er að allar hendingar hljóma eins og því má lýsa forminu sem AAAA. Takturinn er þó breytilegur og bæði taktur b og taktur c koma fyrir.

Dæmi 12

Dæmi 12: Ólafs saga áðan beið

Stemma 10

Stemma 10 kemur fyrir í þremur upptökum með 138 vísum undir bragarháttunum braghent (12/8/8) og úrkast (8/4/8/4). Kvæðalagið er óbreytanlegt en teygjanlegt enda um ákaflega ólíka bragarhætti að ræða bæði hvað lengd og fjölda hendinga varðar. Samsetning hendinga er þó föst og er hægt að lýsa með ABBv. Tónsvið kvæðalagsins er föst ferund, tónbil 1 til 4. Takturinn er einnig fastur og aðeins taktur b kemur fyrir.

Dæmi 13

Dæmi 13: Hákon varð í húsfreyjunnar hæstu metum

Stemma 11

Þessa stemmu má heyra í þremur upptökum með 21 vísu undir ferskeyttum (8/7/8/7) og braghendum (12/8/8) hætti. Kvæðalagið er nánast óbreytanlegt en teygjanlegt hvað lengd varðar enda töluverður munur á atkvæðafjölda bragarháttanna. Síðasta hendingin í vísunum sem eru undir braghendum hætti tekur þó örlitlum breytingum. Tónsviðið er föst sexund og spannar tónbil 1 til 6. Samsetning hendinga er föst og er hægt að lýsa með ABABv. Takturinn er einnig fastur, taktur c, en braghendi hátturinn er þó ekki eins greinilega í þeim takti.

Dæmi 14

Dæmi 14: Móðurjörð hvar maður fæðist


Guðmundur Ólafsson

Guðmundur Ólafsson (1896–1978) ólst upp hjá foreldrum sínum í Stóru-Tungu á Fellsströnd. Hann var yngri bróðir Péturs Ólafssonar. Faðir þeirra var bóndi þar og Guðmundur og bræður hans tóku síðan við búskapnum af föður sínum. Guðmundur flutti að Ytra-Felli 1936. Hann kvæntist aldrei, en bjó með systur sinni og fóstursyni. Hann var alinn upp við kveðskap og það var fyrst og fremst faðir hans sem kvað á kvöldin, eins og áður hefur komið fram. Guðmundur hafði þó sjálfur þróað sína eigin kveðandi og lært af sjálfum sér. Við Hallfreður dvöldum hjá Guðmundi í þrjá daga og á þeim dögum gerðum við sautján upptökur þar sem Guðmundur kvað undir sjö mismunandi bragarháttum: ferskeyttum (7/6/7/6), samhendum (7/7/7/7), nýhendum (7/8/7/8), breiðhendum (8/8/8/8), langhendum (8/7/8/7), braghendum (12/8/8) og úrkasti (8/4/8/4). Í kveðandinni í þessum sautján upptökum notaði Guðmundur þrjár mismunandi stemmur.

Stemma 1

Stemma 1 er ríkjandi í kveðandi Guðmundar. Hún kemur fyrir í flutningnum í tíu upptökum þar sem fyrir koma alls 326 vísur undir ferskeyttum (7/6/7/6), samhendum (7/7/7/7) og nýhendum (7/8/7/8) háttum. Það kemur á óvart hvað kvæðalagið er breytilegt þrátt fyrir hið knappa form þess. Mörg tilbrigði koma fram, aðallega frá upptöku til upptöku en einnig frá einni vísu til annarrar. Kvæðalagið verður þó að teljast óteygjanlegt þar sem svo lítill munur er á atkvæðafjölda bragarháttanna þriggja, ferskeytt, samhent (hagkveðlingaháttur) og nýhent, að þeir hafa mjög lítil áhrif á kvæðalagið.

Tónsviðið er breytilegt. Algengust er lítil eða stór tvíund (tónbil 1 til 2) eins og í dæmum 1 og 2 en einnig heyrist lítil þríund (tónbil 1 til 3 eða tónbil -1 til 2). Athyglisvert er að frá einni upptöku til annarrar getur annar tónn stundum verið stór og stundum lítil tvíund en á því er þó samræmi innan hverrar upptöku. Samsetning hendinga er föst, ABAB. Takturinn virðist vera lítillega breytilegur. Í flestum upptökum heyrist taktur c en í nokkrum kemur taktur b fyrir.

Dæmi 1

Dæmi 1: Númi bálar brúna ljós

Dæmi 2

Dæmi 2: Samt ég allra svásast finn

Dæmi 3

Dæmi 3: Svo nam skunda Skarðsströnd á

Dæmi 4

Dæmi 4: Þaðan yfir fór ég fjöll

Stemma 2

Þessi kveðskaparmáti heyrist í fjórum upptökum með samtals 152 vísum og aðeins undir breiðhendum (8/8/8/8) og langhendum (8/7/8/7) háttum. Kvæðalagið er óbreytanlegt og einnig óteygjanlegt þar sem munurinn á bragarháttunum hefur aðeins óveruleg áhrif á kvæðalagið. Tónsviðið spannar ferund, tónbil -1 til 3, og er óbreytanlegt. Samsetning hendinga er föst og má lýsa með forminu ABCZ. Takturinn er breytilegur, bæði taktur a og taktur b koma fyrir.

Dæmi 5

Dæmi 5: Skjaldmey móti kappa kemur

Dæmi 6

Dæmi 6: Númi undi lengi í lundi

Stemma 3

Guðmundur notar þessa stemmu í þremur upptökum með samtals 95 vísum. Í tveimur upptökum tengist stemman braghendum hætti (12/12/8) og í þeirri þriðju úrkasti (8/4/8/4).

Kvæðalagið er breytilegt í hófi, með tilbrigðum í lokahendingu frá einni vísu til annarrar, en breytingarnar eru ekki stórtækar. Kvæðalagið er teygjanlegt þannig að hægt er að nota það við bragarhætti sem annað hvort hafa þrjú eða fjögur vísuorð. Tónsviðið er breytilegt, það getur verið ferund og spannað tónbil -1 til 3 eða fimmund og náð yfir tónbil -1 til 4. Samsetning hendinga er föst ef tekið er tillit til munar á bragarháttunum og takturinn er sömuleiðis fastur, aðeins taktur b kemur fyrir.

Dæmi 7

Dæmi 7: Fjallið niður fóru menn og fundu herinn

Dæmi 8

Dæmi 8: Á ég að halda áfram lengra eða hætta?

Dæmi 9

Dæmi 9: Karlmennirnir kunna ekki kvæðamálið

Dæmi 10

Dæmi 10: Á nær bjátar eymdin smáða


Hallgrímur Jónsson

Hallgrímur Jónsson (1884–1972) var fæddur á Hraunum í Fljótum en ólst upp á Minnireykjum í Flókadal. Hann vann bæði á sjó og landi og var fjórtán vertíðir á hákarlaskipum. Um þrítugt fluttist hann til Siglufjarðar og vann þar síðan við trésmíðar. Hallgrímur ólst upp við rímnakveðskap og hafði alla tíð ánægju af að kveða.

Við heimsóttum Hallgrím tvisvar sinnum. Það var í júlí 1969 með tveggja daga millibili, fyrir og eftir heimsókn til Jóns Oddssonar og í hvort skipti var hljóðritað í um tvo tíma. Útkoman var alls átta upptökur og sex þeirra voru nokkuð langir samhangandi kaflar úr rímum. Í kveðandi Hallgríms heyrast þrjár stemmur.

Stemma 1

Stemman heyrist í þremur upptökum með samtals 43 vísum undir langhendum (8/7/8/7) og samhendum (7/7/7/7) hætti. Kvæðalagið er að mestu leyti fast, utan síðustu hendingar hverrar vísu þar sem heyrast mörg tilbrigði. Fyrstu tvær hendingarnar eru kveðnar á sama tóni en í þriðju hendingu fer kvæðalagið í boga upp á fjórða tón og síðan til baka. Kvæðalagið verður þó að teljast óteygjanlegt þar sem munurinn á atkvæðafjöldanum í bragarháttunum tveimur er lítill. Tónsvið kvæðalagsins er fast og spannar ferund, tónbilið frá tóni 1 til tóns 4. Samsetning hendinga er föst og má lýsa sem AABBv. Takturinn er einnig fastur, aðeins taktur a kemur fyrir.

Dæmi 1

Dæmi 1: Lék á seiða löndunum

Dæmi 2

Dæmi 2: Brátt fallandi byrjarföld

Dæmi 3

Dæmi 3: Vörður lýða fær þá frétt

Stemma 2

Þessi stemma kemur fyrir í tveimur upptökum með samtals 20 vísum. Vísurnar eru undir bragarháttunum stikluviki (7/6/7/7) og samhendu (7/7/7/7). Kvæðalagið er breytilegt en ekki teygjanlegt enda lítill munur á atkvæðafjölda og þar með hendingalengd bragarháttanna. Tilbrigðin geta komið fyrir í öllum hendingum kvæðalagsins en munurinn á bragarháttunum er það lítill að hann hefur ekki áhrif á kvæðalagið. Tónsviðið er breytilegt, ýmist fimmund (tónbil 1 til 5) eða sexund (tónbil 1 til 6). Samsetning hendinga er einnig breytileg, ABABv, AABZ og ABAvZ. Takturinn er breytilegur þar sem bæði taktur a, taktur c og taktur d koma fyrir og það getur meira að segja gerst innan sömu upptöku (dæmi 4–7).

Dæmi 4

Dæmi 4: Akron sagði feðgum frá

Dæmi 5

Dæmi 5: Til jarlsdæmis hóf mig hann

Það óvenjulega gerist í stemmu 2 að í tveimur vísum, dæmi 7 og 8, kemur fyrir lagform sem eiginlega ætti að tilheyra stemmu 1 en af samhenginu sést að hægt er að túlka þannig að lægsti tónninn í þessum vísum svari til þriðja tóns í öðrum vísum sem kveðnar eru með stemmu 2.

Dæmi 6

Dæmi 6: Reimar fyrst og Fal ég tel

Dæmi 7

Dæmi 7: Flötu merki fleygja réð

Dæmi 8

Dæmi 8: Samson hrellir sókndjarfur

Stemma 3

Stemmu 3 má heyra á þremur upptökum þar sem Hallgrímur kveður undir langhendum (8/7/8/7) og samhendum (7/7/7/7) hætti, alls tíu vísur. Kvæðalagið er breytilegt en þó ekki mjög, einkum er síðasta hendingin breytileg en tilbrigði í fyrstu þremur hendingunum eru óveruleg. Tónsviðið er breytilegt og er ýmist ferund, tónbil 1 til 4, eða fimmund, tónbil 1 til 5.

Dæmi 9

Dæmi 9: Bylgjan spýtti boðunum

Dæmi 10

Dæmi 10: Súða lýsti af sólunum

Dæmi 11

Dæmi 11: Lét á seiða löndunum

Dæmi 12

Dæmi 12: Höfuðið ljósa lagt hún hefur

Dæmi 13

Dæmi 13: Númi undi lengi í lundi

Munurinn á bragarháttunum tveimur er það lítill að hann hefur ekki áhrif á kvæðalagið sem verður því að teljast óteygjanlegt. Samsetning hendinga er breytileg og er ýmist ABCZ eða AABZ. Takturinn er sömuleiðis breytilegur en bæði taktmynstur a og c eru notuð.


Jón Oddsson

Jón Oddsson (1904–1994) var bóndi á Siglunesi þar sem hann fæddist og ólst upp. Við heimsóttum hann dag einn í júlí 1969 en á þeim stutta tíma náðum við að hljóðrita 35 upptökur með samtals 183 vísum undir bragarháttunum ferskeytt (7/6/7/6), stikluvik (7/6/7/7), samhent (7/7/7/7), nýhent (7/8/7/8), langhent (8/7/8/7), stuðlafall (10/7/7) og braghent  (12/8/8). Í kveðandinni notar Jón fimm mismunandi stemmur.

Stemma 1

Stemma 1 heyrist í 22 upptökum með samtals 126 vísum undir bragarháttunum langhent (8/7/8/7), braghent (12/8/8), stikluvik (7/6/7/7), skammhent (8/5/8/5), ferskeytt (7/6/7/6), stuðlafall (10/7/7), afhent (12/8) og samhent (7/7/7/7). Kvæðalagið er breytilegt með fjölda tilbrigða, milli upptaka sem og frá einni vísu til annarrar innan sömu upptöku, enda notað við ákaflega fjölbreytta bragarhætti. Breytingarnar hafa áhrif bæði á samsetningu hendinga og tónsviðið.

Kvæðalagið er einnig teygjanlegt þar sem hægt er að láta það falla að tveggja, þriggja og fjögurra línu bragarháttum. Tónsviðið er breytilegt og er stundum þríund (tónbil 1 til 3) en stundum ferund (tónbil 1 til 4) en þríundin er þó mun algengari. Samsetning hendinga er breytileg, ýmist ABCZ eða ABAZ. Takturinn er einnig breytilegur, bæði taktur a, taktur b og taktur c koma fyrir.

Dæmi 1

Dæmi 1: Þrátt fyrir taman þjóðarsið

Dæmi 2

Dæmi 2: Ég í túni teina sá

Dæmi 3

Dæmi 3: Andri snar drakk inni þar með ýtum sínum

Dæmi 4

Dæmi 4: Innir sagan svo hér frá

Dæmi 5

Dæmi 5: Málma skvaldur herðir hann

Dæmi 6

Dæmi 6: Andri kallar upp og tér

Stemma 2

Þessa stemmu notar Jón í tíu upptökum með 49 vísum undir þremur bragarháttum: ferskeytt (7/6/7/6), stikluvik (7/6/7/7) og samhent (7/7/7/7). Kvæðalagið er nokkuð breytilegt með miklum tilbrigðum, einkum í fyrstu hendingu en einnig nokkuð í annarri hendingu. Þegar hann kveður stemmu 2 heyrast breytingarnar ekki aðeins frá einni upptöku til annarrar heldur einnig frá vísu til vísu í sömu upptöku. Breytingarnar eru þó ekki stórfelldar og hafa ekki áhrif á samsetningu hendinga. Kvæðalagið verður að teljast óteygjanlegt þar sem munurinn á bragarháttunum þremur er ekki mikill. Tónsviðið er aftur á móti breytilegt og er stundum fimmund (tónbil 2 til 6) og stundum sexund (tónbil 1 til 6). Samsetning hendinga er föst, ABAvBz, sem og takturinn sem samanstendur eingöngu af taktmynstri a.

Dæmi 7

Dæmi 7: Hranna skríður hesturinn

Dæmi 8

Dæmi 8: Oddur minn er ærustór

Dæmi 9

Dæmi 9: Það ber fyrst að heyrnar hurð

Dæmi 10

Dæmi 10: Tveggja flíkum faldaðir

Stemma 3

Margt óvænt kemur fyrir í þessari stemmu. Hún kemur fyrir í fimm upptökum með samtals 35 vísum undir bragarháttunum langhent (8/7/8/7), stikluvik (7/6/7/7) og samhent (7/7/7/7). Tvær upptakanna innihalda þrettán vísur hvor um sig og ein þeirra inniheldur sjö vísur. Í tveimur síðustu upptökunum eru einungis stakar vísur.

Stemma 3 og stemma 1 virðast tengjast með einhverjum hætti en í tveimur upptökum koma þær báðar fyrir hvor í bland við aðra. Stemma 1 heyrist þar alls í fjórtán vísum en stemma 3 í 21 vísu.

Kvæðalagið er nokkuð breytilegt en breytingarnar eru frekar smáar. Það verður einnig að teljast óteygjanlegt þar sem munurinn á bragarháttunum þremur er lítill og hefur ekki mikil áhrif á kvæðalagið. Tónsviðið er breytilegt, spannar ýmist sexund (tónbil 1 til 6) eða fimmund (tónbil 1 til 5). Samsetning hendinga er föst og má lýsa með ABCZ. Takturinn er breytilegur og bæði taktur a og taktur b heyrast.

Dæmi 11

Dæmi 11: Aldrei falla hann Andri vann

Dæmi 12

Dæmi 12: Andra slyngur hjó í haus

Þessar litlu breytingar verða ekki aðeins frá einni upptöku til annarrar heldur einnig frá vísu til vísu innan sömu upptöku eins og sést á næstu þremur dæmum.

Dæmi 13

Dæmi 13: Góins bringa gnægt var léð

Dæmi 14

Dæmi 14: Áttu hjónin arfa þann

Dæmi 15

Dæmi 15: Býður þokka sér af sá

Eins og áður segir kemur stemman fyrir í tveimur upptökum í tengslum við aðra stemmu Jóns, stemmu 1. Í annarri upptökunni notar Jón stemmu 1 við fyrstu sex vísurnar en síðan stemmu 3 við síðustu vísuna. Í hinni, sem er gerð aðeins seinna, notar hann stemmu 3 við fimm fyrstu vísurnar en sex síðustu vísurnar eru kveðnar með stemmu 1. Í þessari seinni upptöku virðast tóntegundir stemmanna tengjast í gegnum efsta tóninn sem haldið er óbreyttum.

Dæmi 16

Dæmi 16: Helgi úr máta ræddi reiður

Dæmi 17

Dæmi 17: Farðu skjótt úr skyrtu þinni

Engin augljós ástæða er fyrir þessum skiptum á milli stemma.

Stemma 4

Þessi stemma Jóns skilur sig frá öðrum stemmum hans og vafi leikur á um hvort hér sé um eina breytilega stemmu að ræða eða hvort hver og ein upptaka, þar sem hún kemur fyrir, innhaldi sjálfstæða stemmu sem hefur síðan ákveðin líkindi við hinar. Stemman eða stemmurnar koma fyrir í fjórum upptökum með samtals 19 vísum undir bragarháttunum nýhent (7/8/7/8), ferskeytt (7/6/7/6) og samhent (7/7/7/7).

Kvæðalagið er nokkuð breytilegt en breytingarnar eru fremur smáar og hafa ekki áhrif á samsetningu hendinganna. Það verður einnig að teljast óteygjanlegt þar sem munurinn á bragarháttunum þremur er lítill og hefur ekki teljanleg áhrif á kvæðalagið. Tónsviðið er þó breytilegt og breytist frá sexund (tónbil 1 til 6) til fimmundar (tónbil 1 til 5). Samsetning hendinga er föst, AzAZ og takturinn er fastur, taktur b.

Dæmi 18

Dæmi 18: Grímur þá kom gólfið á

Dæmi 19

Dæmi 19: Aldrei síðar sú er mín

Ein upptakan sker sig sérstaklega mikið úr. Þar er laglínan sönghæf og taktbyggingin alveg sérstök. Kvæðalagið er næstum eins og vel þekkt óbreytanlegt kvæðalag sem hefur þróast yfir í tvísöngsstemmu.

Dæmi 20

Dæmi 20: Þá mun tíðin þér indæl

Stemma 5

Stemma 5 kemur aðeins fyrir við tíu vísur sem dreifast á fimm upptökur þannig að tvær vísur eru í hverri. Vísurnar eru undir ferskeyttum (7/6/7/6) og samhendum (7/7/7/7) hætti auk stikluviks (7/6/7/7). Kvæðalagið er fast og verður að teljast óteygjanlegt þar sem munurinn á bragarháttunum þremur er mjög lítill og hefur ekki teljanleg áhrif á kvæðalagið. Tónsviðið er fast, sexund (tónbil 1 til 6) og kvæðalagið er sönghæft. Takturinn er einnig fastur og skilur sig greinilega frá öðrum stemmum Jóns.

Dæmi 22

Dæmi 22: Fárleg voru fjörbrot hans


Samantekt

Leit okkar Hallfreðar að fólki sem kunni að kveða átti sér stað á árunum 1964 til 1971. Á því tímabili náðum við sambandi við þá tíu kvæðamenn sem fjallað er um í rannsókninni. Ekki fundust fleiri kvæðamenn sem höfðu á ungum aldri kveðið fyrir aðra og voru enn þá færir um að flytja hluta af því efni sem þeir höfðu haft í kvæðasjóði sínum sem ungir menn.

Efnisumfang

Kvæðamennirnir tíu hafa ólíkt vægi innan rannsóknarinnar vegna þess að mismikill efniviður er til frá hverjum og einum þeirra. Þrír þeirra leggja aðeins lítið efni til rannsóknarinnar.

Þórður Marteinsson kveður 67 vísur undir sex bragarháttum í sex upptökum.

Páll Stefánsson kveður 52 vísur undir tveimur bragarháttum í sjö upptökum.

Hallgrímur Jónsson kveður 61 vísu undir þremur bragarháttum í átta upptökum.

Af þeim eru til á bilinu sex til átta upptökur með færri en 70 vísum frá hverjum um sig. Allt annað er uppi á teningnum þegar kemur að þeim rannsóknarefnivið sem fékkst hjá hinum sjö kvæðamönnunum.

Einar Einarsson kveður 325 vísur undir ellefu bragarháttum í 32 upptökum.

Þórður Guðbjartsson kveður 309 vísur undir níu bragarháttum í 22 upptökum.

Gísli Gíslason kveður 549 vísur undir sjö bragarháttum í 33 upptökum.

Þorgils Þorgilsson kveður 110 vísur undir fimm bragarháttum í 23 upptökum.

Guðmundur Ólafsson kveður 319 vísur undir fimm bragarháttum í 16 upptökum.

Pétur Ólafsson kveður 2228 vísur undir 11 bragarháttum í 55 upptökum.

Jón Oddsson kveður 183 vísur undir sjö bragarháttum í 35 upptökum.

Landfræðileg dreifing kvæðamannanna

Athyglisvert er að þeir tíu kvæðamenn sem rannsóknin snýst um voru allir upprunnir og höfðu kveðið á norðan- og vestanverðu landinu. Þórður Guðbjartsson ólst upp í Gufudalssveit en bæði hann og Einar Einarsson, sem fæddur var á Barðaströnd, bjuggu á Patreksfirði. Gísli Gíslason og Þórður Marteinsson bjuggu og höfðu alist upp á Barðaströnd og Guðmundur og Pétur Ólafssynir voru upprunnir af Fellströnd. Þorgils Þorgilsson var af Snæfellsnesinu en Páll Stefánsson var upprunninn syðst þeirra, en hann var ættaður úr Kjós. Hallgrímur Jónsson og Jón Oddsson voru upprunnir af Norðurlandi og báðir búsettir þar.

Þessi landfræðilega dreifing heimildarmannanna stafar ekki af því að ekki hafi verið leitað að kvæðamönnum annars staðar á landinu. Vorið 1964 fórum við Hallfreður í langa söfnunarferð um Suðurland þar sem við leituðum að fólki sem kynni að kveða en utan einstaka manns sem gat kveðið lausavísur var árangurinn enginn.

Síðsumars sama ár fór samstarfsmaður minn Thorkild Knudsen ásamt Hallfreði í langa söfnunarferð um Norður- og Austurland með sama árangri hvað rímnakveðskap varðar. Undir lok dvalar Thorkild Knudsens á landinu fóru þeir einnig vestur á Snæfellsnes þar sem þeir hittu Þorgils Þorgilsson meðal annarra og með honum tókst þeim loks að hljóðrita nokkuð langa samhangandi kafla af kveðskap.

Þegar á árunum 1958 og 1959 hafði Hallfreður farið í söfnunarferð um Vestfirði fyrir Þjóðminjasafnið til að hafa upp á fólki sem gæti kveðið rímur og lausavísur en þá tókst aðeins í nokkrum tilvikum að hljóðrita langa kafla úr rímum og hver upptaka innihélt venjulega aðeins nokkur erindi.

Markmið rannsóknarinnar

Meginmarkmið söfnunarinnar var að láta reyna á hvort mögulegt væri að finna dæmi um þess konar kvæðalög sem Bjarni Þorsteinsson lýsti í Íslenzkum þjóðlögum sem andstæðum við vel þekkt föst kvæðalög:

(...) kvæðalög [sem] eru að eins augnabliks tilbúningur þess, sem kveður, hann hefur ekkert visst lag í huga áður en hann byrjar, en býr lagið til eptir eigin geðþótta, jafnframt og hann kveður, og veitir vönum og góðum kvæðamönnum það ljett (810).

Við fundum vissulega dæmi um slíkan kveðskap og reyndar kom okkur á óvart hvað við fundum mörg slík. Aðeins Pétur Ólafsson notaði eingöngu föst kvæðalög í kveðandi sinni en hann kunni mjög mörg kvæðalög. Stemmur þriggja annarra í tíu manna hópnum voru einnig næstum fastar. Það voru Þórður Marteinsson, Páll Stefánsson og Hallgrímur Jónsson en hjá þeim voru tilbrigðin innan hverrar stemmu fyrir sig fá og lítt áberandi. Hjá þeim sex sem eftir standa fundust stemmur sem voru breytilegar og þeir beittu allir spuna í flutningi sínum. Það er einnig athyglisvert að aðeins nokkrar stemmur þeirra voru opnar og gáfu þannig möguleika á spuna á meðan aðrar stemmur voru fastar og óbreytanlegar.

Umfang spunans

Umfang og þéttleiki spunans eru ákaflega misjöfn en hægt er að greina spuna í tveimur aðskildum hlutum kveðskaparins; í kvæðalaginu annars vegar og taktinum hins vegar.

Kvæðalagið

Breytingar á og tilbrigði við kvæðalög eru allavega og nýtt tilbrigði getur orðið til við breytingu á nokkrum tónum kvæðalagsins. Breytingar geta einskorðast við eina hendingu innan kvæðalagsins eða verið dreifðar um allt kvæðalagið. Einnig getur tónsviðið ýmist verið fast eða það opið fyrir breytingum. Spuninn fer þannig fram innan misvíðra ramma. Breytingarnar geta vel átt sér stað innan fasts tónsviðs en geta orðið meiri ef tónsviðið er einnig breytilegt frá einni upptöku til annarrar, sem og á milli vísna. Ef samsetning hendinga er einnig breytileg geta breytingarnar frá vísu til vísu innan sama kvæðalags og á milli hljóðritana verið svo miklar og róttækar að erfitt getur verið að heyra að hér sé einhver skyldleiki á milli. Spuni í kvæðalagi þarf ekki endilega að virka á samsetningu hendinga en getur stundum verið þannig að hún breytist.

Teygjanleiki

Ef kvæðalag er fast er það fræðilega aðeins bundið einum ákveðnum bragarhætti en nokkrir bragarhættir eru það líkir að munurinn á kvæðalögunum verður sömuleiðis mjög lítill. Hann getur til að mynda verið þannig í einu kvæðalagi að tveir tónar í einum bragarhætti fylgja hvor sínu atkvæði en í öðrum hætti eru tónarnir tengdir saman og nýttir til að syngja eitt atkvæði. Önnur kvæðalög ýmist teygjast eða skreppa saman þannig að hægt er að nota þau við bragarhætti sem eru ólíkir hvað varðar fjölda hendinga og lengd hverrar hendingar.

Takturinn

Í kveðskap kvæðamannanna tíu finnast átta mismunandi taktmynstur. Þeim er hér raðað eftir því hvað þau koma fyrir í mörgum stemmum.

Taktmynstur a
Taktmynstur b
Taktmynstur c
Taktmynstur d
Taktmynstur e
Taktmynstur f
Taktmynstur g
Taktmynstur h

Taktur a og taktur b eru ráðandi en hinir koma fyrir einstöku sinnum. Nokkrir þeirra, t.d. taktur g og taktur h koma aðeins fyrir í fáeinum vísum í rannsókninni. Einar Einarsson notar eingöngu takt b í kveðskap sínum. Þórður Guðbjartsson heldur sig við takt a og takt b í sínum kveðskap. Takt a notar hann í stemmu 1 en eingöngu takt b í hinum tveimur stemmum sínum. Ef Einar er undanskilinn nota allir kvæðamennirnir bæði takt a og takt b í kveðskapnum og þessar tvær taktmyndir eru ráðandi hjá þeim öllum.

Taktur c kemur fyrst og fremst fyrir hjá Pétri Ólafssyni sem notar hann sem fasta taktmynd í fjórum af ellefu stemmum sínum. Þar fyrir utan kemur takturinn fyrir sem föst taktmynd í einni stemmu hjá Þórði Marteinssyni, Þorgils Þorgilssyni og Guðmundi Ólafssyni. Hjá Hallgrími Jónssyni kemur hann fyrir í tveimur breytilegum stemmum ásamt takti a.

Pétur Ólafsson notar takt d sem fasta taktmynd í tveimur stemmum og takturinn kemur einnig fyrir í tveimur breytilegum stemmum hjá Þorgils Þorgilssyni ásamt takti a og takti b. Einnig kemur taktmynstur d fyrir í einni breytilegri stemmu Hallgríms Jónssonar ásamt takti a og takti b.

Taktur e heyrist hjá Gísla Gíslasyni í tveimur stemmum, einni fastri og annarri breytilegri, ásamt takti f. Takturinn er einnig til staðar í einni stemmu Þórðar Marteinssonar.

Taktur f kemur fyrir hjá Gísla í einni fastri og einni breytilegri stemmu (ásamt takti e) og hjá Páli í einni fastri stemmu.

Taktur g heyrist eingöngu hjá Jóni Oddssyni í einni stemmu.

Taktur h kemur aðeins fyrir hjá Gísla, einnig eingöngu í einni stemmu.

Spuni hvers kvæðamanns

Kveðandi Þórðar Guðbjartssonar er sú sem líkist mest lýsingu Bjarna Þorsteinssonar á kvæðalögum sem verða til á staðnum. Þetta gerist í stemmu 1 þar sem spuninn er mjög mikill og róttækur þannig að í fyrstu gæti virst sem að í einu og sama kvæðalaginu noti Þórður marga frasa algjörlega sjálfstæða, bæði hvað varðar tónsvið og samsetningu hendinga (dæmi 5–7). Frasarnir tilheyra þó allir sama kvæðalagi og eru því nátengdir. Þessi stemma Þórðar, sem er nákvæmlega lýst í bók minni Stability in Musical Improvisation (Kaupmannahöfn, 1982), byggist á notkun hans á tólf mismunandi frösum. Frasar eru stuttar laglínur sem hver svarar til einnar hendingar og hverjir tveir frasar eru bundnir ákveðinni hendingu. Einstaka frasar hafa tilbrigði en skilja sig þó greinilega frá öðrum frösum (sjá dæmi 18a og b).

Hver frasi getur komið fyrir á mismunandi stöðum innan kvæðalagsins, dæmi 19 sýnir hvernig kvæðalag sem byrjar með frasa i er samsett af öðrum frösum. Í annarri hendingu (vísuorði) er möguleiki á sex mismunandi frösum og valið milli þeirra ræður síðan úr hvaða frösum er hægt að velja í þriðju hendingu.

Á skýringarmyndinni sést að flesta frasana er hægt að nota í fleiri en einni hendingu. Frasi i er notaður í fyrstu og þriðju hendingu og frasi d í annarri og þriðju hendingu. Tveir frasar eru fastbundnir lokahendingunni. Samsetning frasanna innan kvæðalagsins stjórnast einnig af þeim hugmyndum sem Þórður hefur um hvað geti talist heilt kvæðalag og hann virðist geta valið á milli átta mjög mismunandi samsetninga (dæmi 10–17).

Stemma 1 kemur eingöngu fyrir með fjögurra lína bragarháttum þar sem fyrsta og þriðja vísuorð innihalda sjö atkvæði; ferskeytt, samhenda, stikluvik og nýhenda.


Einar Einarsson spinnur einnig. Það gerist að takmörkuðu leyti í stemmu 4 þar sem finna má tilbrigði í öllum hendingum kvæðalagsins, en breytingarnar eru þó ekki stórkostlegar (dæmi 21–24). Í stemmum 2 og 3 eru breytingarnar einnig óverulegar.

Breytingarnar eru mun meira áberandi í stemmu 1. Hana notar Einar við bragarhætti sem eru fjögur vísuorð og hafa sjö atkvæði í því fyrsta og þriðja; ferskeytt, samhenda, gagaraljóð og nýhenda. Frá einni vísu til annarrar innan sömu upptöku breytast hendingarnar verulega og tónsviðið fer frá sexund (tónbil 1 til 6) í fyrstu vísu til ferundar (tónbil 1 til 4) í annarri vísu. Því næst breytist það í sexund (tónbil -1 til 5) í þriðju vísu og í fjórðu vísu í fimmund (tónbil 1 til 5). Röð hendinganna getur einnig breyst og farið á milli ABCD, ABAAv, AABC og ABBvB. Það getur gerst frá einni vísu til annarrar innan sömu upptöku. Umfang breytinganna er þannig sambærilegt við það sem gerist hjá Þórði en þær gagntaka ekki á sama hátt allan kveðskap Einars. Stór hluti þeirra er fastbundinn fyrstu vísu í upptöku en síðan fækkar breytingum í örfá föst módel sem síðan virka sem föst kvæðalög innan flutningsins. Eins og hjá Þórði byggir kveðandi Einars á 20 mismunandi frösum sem flestir koma þó aðeins fyrir í einni eða tveimur vísum. Sjö þessara frasa eru ríkjandi í kveðandi hans. Frasarnir eru bundnir ákveðnum stöðum í kvæðalaginu en með því að velja ólíkar samsetningar þeirra skapar Einar mismunandi módel.


Gísli Gíslason spinnur í stemmum 1, 3 og 4 en í stemmum 3 og 4 eru breytingarnar óverulegar. Í stemmu 1 heyrast mörg tilbrigði sem bæði felast í mismunandi tónsviði, frá sexund til fimmundar, og í hendingaröðinni frá ABCZ til ABAZ. Breytingarnar eru þó mun minni en hjá Þórði Guðbjartssyni og Einari.


Þórður Marteinsson: Báðar stemmur Þórðar eru fastar með mjög litlum breytingum.


Þorgils Þorgilsson: Allar níu stemmur Þorgils virðast, fyrir utan stemmur 4 og 9, vera meira eða minna opnar fyrir tilbrigðum. Í stemmum 1, 5, 6, 7 og 8 eru breytingarnar þó ekki miklar og að stemmum 1, 2 og 3 undanskildum eru ekki það margar vísur í hverri upptöku að hægt sé að meta þær að fullu. Í stemmu 2 heyrast margar og nokkuð róttækar breytingar sem bæði geta falist í breytingum á tónsviði og röð hendinga. Ljóst er þó að kvæðalagið sem sýnt er í dæmi 6 er ráðandi á meðan aðrar myndir eru fáar og koma oftast fyrir í fyrstu vísu upptöku. Greinileg tilbrigði geta komið fyrir í stemmu 3, eins og sést af dæmum 7 og 8, en þau hafa þó hvorki áhrif á tónsviðið né röð hendinga. Allar stemmur Þorgils eru óteygjanlegar og hver þeirra er aðeins notuð við einn bragarhátt.


Páll Stefánsson: Allar fimm stemmur Páls eru fastar og óteygjanlegar.


Pétur Ólafsson notar ellefu mismunandi stemmur. Hver og ein þeirra hefur eitt fast kvæðalag með aðeins óverulegum tilbrigðum en fimm eru teygjanleg þannig að hægt er að nota þau við mismunandi og ólíka bragarhætti.


Guðmundur Ólafsson: Aðeins í einni stemmu hans, stemmu 1, koma tilbrigði fyrir í stórum stíl og breytingarnar þar eru verulegar. Þær hafa áhrif á tónsviðið og það er sérstakt að tilbrigðin koma fram í bilinu á milli tónbila 1 og 2. Hendingaröðin breytist þó ekki.


Hallgrímur Jónsson notar þrjár stemmur. Tvær þeirra eru fastar en sú þriðja, stemma 3, virðist gefa möguleika á tilbrigðum sem einnig koma fram í tónsviðinu. Þar sem aðeins eru hljóðritaðar tíu vísur með þessari stemmu er efnið þó of lítið til þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það.


Jón Oddsson: Í hinum fimm stemmum Jóns heyrast tilbrigði í litlum mæli í stemmum 2, 3 og 4 en stemma 5 er fast kvæðalag. Í stemmu 1 eru mun fleiri og þéttari tilbrigði og þau hafa áhrif bæði á tónsviðið og hendingaröðina.

Niðurlag

Kvæðamennirnir tíu skiptast í tvo meginflokka. Annar flokkurinn notar nær eingöngu föst kvæðalög í kveðskap sínum. Ef einhverjar breytingar heyrast yfir höfðuð í kvæðalögum þeirra eru þær mjög litlar. Í þessum flokki eru Þórður Marteinsson, Páll Stefánsson, Pétur Ólafsson og Hallgrímur Jónsson.

Hjá hinum sex kvæðamönnunum er spuni áberandi eiginleiki í rímnaflutningnum. Magn og þéttleiki tilbrigðanna er mismunandi og mikilvægt er að koma auga á að spuninn á sér aðeins stað í einstökum stemmum kvæðamannanna.

Greinilega eru það Einar Einarsson og Þórður Guðbjartsson sem helst búa yfir víðfeðmri tækni til breytinga eða spuna. Hjá báðum gildir að þessi spunatækni tengist stemmunni sem þeir nota mest, og er nefnd hér stemma 1 hjá báðum. Kveðskapur þeirra kemur að mjög miklu leyti heim og saman við lýsingu Bjarna Þorsteinssonar á því þegar „kvæðalög eru aðeins augnabliks tilbúningur þess, sem kveður,” eins og hann segir í Íslenzkum þjóðlögum. Báðar stemmurnar eru gegnsýrðar af tilbrigðum, ekki aðeins frá einni upptöku til annarrar heldur einnig frá einni vísu til annarrar innan sömu upptöku. Breytingarnar eru svo víðtækar að kvæðalögin hafa mismunandi tónsvið og samsetningu hendinga. Hjá báðum þessum kvæðamönnum byggir spuninn á takmörkuðum forða af frösum sem eru síðan settir saman á mismunandi hátt. Það einkennir þessar tvær stemmur að þær eru ekki teygjanlegar. Þær eru vissulega notaðar við fleiri en einn bragarhátt en aðeins við hætti sem eru nægilega líkir að uppbyggingu til þess að munurinn milli þeirra hafi takmörkuð áhrif á hendingalengd. Kvæðamennirnir tveir nota báðir fastan takt. Einar notar einungis takt b en Þórður aðeins takt a.

Gísli Gíslason, Guðmundur Ólafsson og Jón Oddsson búa einnig yfir stemmum þar sem miklar breytingar koma fyrir. Tilbrigðin í kvæðaflutningi þeirra hafa einnig áhrif á tónsvið og samsetningu hendinga en í samanburði við kveðskap Einars og Þórðar eru tilbrigði þeirra allra innan mun þrengri marka.

Í sumum stemmum Þorgils Þorgilssonar heyrast tilbrigði en þær breytingar koma einkum fyrir í fyrstu vísu flutningsins eða í stökum hendingum í kvæðalagi.


Heimildir

Bjarni Þorsteinsson (1906–1909). Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn: Carlsbergssjóðurinn.

Clausen, Marianne (2006). „Spiritual Songs and Kingo Singing in the Faroe Islands.“ Spiritual Folk Singing: Nordic and Baltic Protestant Traditions. Ritstj. Kirsten Sass Bak og Svend Nielsen. Copenhagen: Kragen, 197–226.

Craigie, W. A. (1908). Skotlands rímur: Icelandic Ballads on The Gowrie Conspiracy. Oxford: Clarendon Press.

Davíð Erlingsson (1989). „Rímur.“ Íslensk þjóðmenning VI. Munnmenntir og bókmenning. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Þjóðsaga, 330–355.

Finnur Jónsson (1892). Stutt íslenzk bragfræði. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Guðmundur Steinn Gunnarsson (2018). „Upptökur og nótur af þjóðlögum.“ Segulbönd Iðunnar. Ritstj. Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 39–41.

Gunnsteinn Ólafsson (2004). „Skráning kvæðalaga og leitin að höfundum þeirra.“ Silfurplötur Iðunnar. Ritstj. Gunnsteinn Ólafsson. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn; Smekkleysa, 34–39.

Hallfreður Örn Eiríksson (1975). „On Icelandic Rímur: An Orientation.“ Arv 31: 139–150.

Haukur Þorgeirsson (2021). „Fyrstu rímnaskáldin.“ Són 19: 15–45.

Helgi Sigurðsson (1891). Safn til bragfræði íslenzkra rímna að fornu og nýju: Fornfræðisleg ritgjörð. Reykjavík: án útg.

Honko, Lauri (2000). „Thick Corpus and organic variation: an Introduction.“ Thick Corpus, Organic Variation and Textuality in Oral Tradition. Helsinki: Finnish Literature Society, 3–28.

Hreinn Steingrímsson (2000). Kvæðaskapur: Icelandic Epic Song. Reykjavík: Mál og mynd.

Jersild, Margareta (2009). „Frasen som formel – spår av en gammal variationsteknik?“ Tradisjonell sang som levende prosess: Nordiske studier i stabilitet og forandring, gjentagelse og variasjon. Ritstj. Lene Halskov Hansen, Astrid Nora Ressem og Ingrid Åkeson. Oslo: Novus Forlag, 181–196.

Ling, Jan (1986). „Balladmelodierna – improviserade eller komponerade?“ Sumlen. Årsbok för vis- och folkmusikforsking: 125–132.

Magnús Gíslason (1977). Kvällsvaka: En isländsk kulturtradition belyst genom studier i bondebefolkningens vardagsliv och miljö under senare hälften av 1800-talet och början av 1900-talet. (Studia Ethnologica Upsaliensia 2). Uppsala: Acta Universitatis Upsaliensis.

Nielsen, Svend (1982). Stability in Musical Improvisation: A Repertoire of Icelandic Epic Song. (Acta Ethnomusicologica Danica 3). København: Kragen.

Nielsen, Svend (2006). „Traditional Hymn Singing in Iceland.” Spiritual Folk Singing: Nordic and Baltic Protestant Traditions. Ritstj. Kirsten Sass Bak og Svend Nielsen. Copenhagen: Kragen, 247–268.

Ólafur Davíðsson (1888–1892). „Rímnakveðskapur.“ Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. 4 bindi. Safnað hafa J. Árnason og Ó. Davíðsson. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag, II 206–223.

Pétur Húni Björnsson (2020). Rímur um rímur. Hvað má lesa úr elstu rímum um rímnahefðina? Ópr. meistararitgerð við HÍ.

Pétur Húni Björnsson og Rósa Þorsteinsdóttir (2004). „Bragfræði rímna.“ Silfurplötur Iðunnar. Ritstj. Gunnsteinn Ólafsson. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn; Smekkleysa, 15–19.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson (2013). Íslensk bragfræði. Reykjavík: Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson (2018). „Fáein orð um bragfræði rímna.“ Segulbönd Iðunnar. Ritstj. Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 24–35.

Ragnheiður Ólafsdóttir og Nicola Dibben (2019). „Rímur: From National Heritage to Folk Music.“ Sounds Icelandic: Essays on Icelandic Music in the 20th and 21st Centuries. Ritstj. Þorbörg Daphne Hall, Nicola Dibben, Árni Heimir Ingólfsson og Tony Mitchell. Sheffield: Equinox, 39–56.

Ressem, Astrid Nora (2009). „„Og han morede sig selv ved sin meddelelse“: Sangeren Bendik Sveigdalen, variabilitet og nedtegnelser fra 1800-tallet.“ Tradisjonell sang som levende prosess: Nordiske studier i stabilitet og forandring, gjentagelse og variasjon. Ritstj. Lene Halskov Hansen, Astrid Nora Ressem og Ingrid Åkeson. Oslo: Novus Forlag, 129–155.

Rósa Þorsteinsdóttir (2009). „Ljósgeislar í marglitu gleri.“ Einu sinni átti ég gott. Útg. Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Smekkleysa SM ehf; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2–5.

Rósa Þorsteinsdóttir (2016). „„Það vill heldur djassinn ...“: Um vinsældir rímnakveðskapar á síðustu öld.“ Són 14: 13–32.

Segulbönd Iðunnar (2018). Ritstj. Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Silfurplötur Iðunnar (2004). Ritstj. Gunnsteinn Ólafsson. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn; Smekkleysa.

Sveinbjörn Beinteinsson (1953). Bragfræði og Háttatal. Reykjavík: Leiftur.

Sverrir Tómasson (2005). „Hlutverk rímna í íslensku samfélagi á síðari hluta miðalda.“ Ritið 5/3: 77–94.

Åkeson, Ingrid. „Variation som röd tråd – en överblick.“ Tradisjonell sang som levende prosess: Nordiske studier i stabilitet og forandring, gjentagelse og variasjon. Ritstj. Lene Halskov Hansen, Astrid Nora Ressem og Ingrid Åkeson. Oslo: Novus Forlag, 2009, 5–21.


Summary

The book examines the performance of ten rímur singers. It describes how Svend Nielsen and Hallfreður Örn Eiríksson searched for individuals who had learned how to sing rímur, and had sung them for others, at a young age, and were still able to perform some of their early repertoire. The main aim of the collecting, which took place 1964–71, was to discover whether it was possible to find examples of rímur melodies of the sort Bjarni Þorsteinsson described in his Íslenzk þjóðlög (1906–9). In contrast to the fixed, well-known rímur melodies, Bjarni said that some ‚rímur melodies are the creation, on the spot, of the singer, who does not have a definite melody in mind before he begins, but creates it according to his own taste, as he sings, and this is easy for a good and experienced singer‘ (p. 810). In other words, their object was to determine whether there were still singers whose performance was varied and spontaneous, or whether some of them had, at least, changed their melodies from one performance to another to a greater degree than is known from, for example, traditional Danish singers. Changes might be found in two areas, in the melody itself or the rhythm, and in both cases the rímur melody can either be fixed, i.e., have only one form, or be free and variable. Svend and Hallfreður recorded the singing of the ten singers discussed in the book. They are of differing importance in the study, because there are different amounts of material from each one. It is striking that the ten individuals on which the study focuses all grew up and began their careers as singers in the north and west of Iceland, in spite of attempts to find singers in other parts of the country. It was surprising how many examples were found of singers who changed their melodies when they sang.

The conclusion is that the ten singers can be divided into two groups. One group used almost exclusively fixed melodies in their performance. At most, very small changes can be heard in their melodies. This group comprises Þórður Marteinsson, Páll Stefánsson, Pétur Ólafsson and Hallgrímur Jónsson. Only Pétur Ólafsson used exclusively fixed rímur melodies in his singing, and he knew very many. The melodies of the other three were generally fixed and there were few and unimportant variants within each performance. The other six singers showed marked improvisation in their performance of rímur. The number and density of variation differs; it is noteworthy that improvisation appears only in certain of their melodies.

It is clear that Einar Einarsson and Þórður Guðbjartsson have a greater tendency to vary and improvise. Each has a favorite melody they use most often. Both melodies are permeated with variations, not just between one recording and the next but also from one stanza to the next in the same recording. The changes are so extensive that the melodies have different musical range and different patterns of phrasing. Both singers base their improvisations on a limited vocabulary of phrases that are put together in different ways. A characteristic of these two melodies is that they are not ‘elastic’. To be sure, they are used with more than one metre, but only with metres that are sufficiently similar in structure that the difference among them will have limited influence on the melody. Both singers use a fixed rhythm. Their singing corresponds, to a large extent, to Bjarni Þorsteinsson’s description when he says that ‘rímur melodies are the creation, on the spot, of the singer’.

Gísli Gíslason, Guðmundur Ólafsson and Jón Oddsson also knew rímur melodies where significant changes are found. The variation in their performances includes the musical range and influence the key and order of phrases, but compared to the performances of Einar and Þórður they use variants within much narrower bounds. Variation can be heard in some of Þorgils Þorgilsson’s melodies, especially in the first verse of the performance or in individual phrases.

The introduction of the book contains definitions of rímur, metres, poetic language and rímur melodies, with a list of additional sources. Svend Nielsen´s research is then put in the context of other Scandinavian research on oral performance of songs.


Myndaskrá

Þórður Guðbjartsson, ljósm. Svend Nielsen
Gísli Gíslason, eig. Guðrún Gísladóttir, eftirgerð Jóhanna Ólafsdóttir
Þórður Marteinsson, ljósm. Sigrún Helgadóttir, eig. Ólöf Þórðardóttir
Þorgils Þorgilsson, ljósm. Svend Nielsen
Páll B. Stefánsson, ljósm. Svend Nielsen
Pétur Ólafsson, ljósm. Svend Nielsen
Guðmundur Ólafsson, ljósm. Svend Nielsen
Hallgrímur Jónsson, ljósm. Kristfinnur Guðjónsson, eig. Síldarminjasafnið
Jón Oddsson, ljósm. Svend Nielsen

Vísnaskrá

Einar Einarsson:

Dæmi 1:

Fjarlæg ströndin heillar hug
hafs í böndum víðum,
vængjum þöndum furðuflug
flýgur öndin tíðum.

Dæmi 3:

Hægir róður hrönnum á,
hlægir móðan strönd að ná.
ægis glóða foldum frá
fæ ég ljóðagjöldin smá.
Rósarímur, 6. ríma, 52. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Jón Rafnsson (1899–1980).
Kveðið 27. ágúst 1967.
SÁM 93/3707 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1018990]

Dæmi 5–6:

Ljósið fæðist dimman dvín,
dafnar næðið fróma,
loftið glæðist, láin skín,
landið klæðist blóma.
Leó kærum þakkar þá
þvita meiði hnúa,
vill svo færa leið að lá
langar skeiðir búa.
Númarímur, 12. ríma, 16. og 30. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 2. ágúst 1965.
SÁM 84/65 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001075]

Dæmi 7:

Dagaláardísirnar
dyggvar, smáar, rjóðar
viljið þið sjá á vísurnar,
verið þið þá svo góðar.
Rímur af Tístran og Indíönu, 2. ríma, 1. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 2. ágúst 1965.
SÁM 84/66 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001079]

Dæmi 8:

Fljótt á kviði Fjörgynjar
fylkt er liði allsherjar,
breitt um sviðið blikeldar
braka friðils Gunnlaðar.
Rósarímur, 6. ríma, 9. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Jón Rafnsson (1899–1980).
Kveðið 30. ágúst 1967.
SÁM 93/3720 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1019134]

Dæmi 9:

Fárleg vóru fjörbrot hans,
fold og sjórinn léku dans,
gæfusljór með glæpa fans
Grímur fór til andskotans.
Göngu-Hrólfsrímur, 18. ríma, 72. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Hjálmar Jónsson (1796–1875).
Kveðið 30. ágúst 1967.
SÁM 93/3720 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1019141]

Dæmi 11–12:

Síðan þreyða þig til vinar
þáði, hér af landsins konum
sverja eið fyrir allar hinar
ætla eg mér á hreppskilonum.
Eins og fjalla efst frá tindum
ógnarlegur klettur riðar,
sem í falli, frárri vindum,
foldar vega sundur niðar.
Númarímur, 7. ríma, 11.–12. vísa (breiðhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 2. ágúst 1965.
SÁM 84/65 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001074]

Dæmi 13:

Allt hvað skeði eins réð segja
ör að fregnum hann.
Númi á meðan þá réð þegja
því næst gegna vann:
Númarímur, 16. ríma, 46. vísa (skammhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 6. ágúst 1965.
SÁM 84/71 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001140]

Dæmi 14–15:

Númi fer og hæstan hittir hilmi Róma;
Leó þangað líka kemur,
lofðungs vinur ræðu semur:
„Hér hef eg fangað hetju þá, oss hræddi löngum;
veit eg þó í víga söngum
vinnast muni hann af öngum.“
Númarímur, 9. ríma, 20.–21. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 2. ágúst 1965.
SÁM 84/66 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001078]

Dæmi 16:

Þó ég eigi dikti drósum dýra bragi
fyrir því allt má fara í lagi.
Rímur af Tístran og Indíönu, 3. ríma, 3. vísa (afhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 2. ágúst 1965.
SÁM 84/66 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001080]

Dæmi 17–18:

Rétt einmana Númi nú
nokkuð mætur hvatar för;
yfir Grana gamla frú
ganga lætur söðulknör.
Lengi fer svo fram um reit
forðast neyðir hetjan traust;
öngva sér hann vegi veit,
völlinn skeiðar þankalaust.
Númarímur, 11. ríma, 13.–14. vísa (gagaraljóð).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 4. ágúst 1965.
SÁM 84/67 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001096]

Dæmi 19–20:

Lofðung eftir lesinn dóm
lætur farið heim að sölum
mikinn gjörðu Rómar róm
Rómúlar að fyrirtölum.
Númi þoldi valla við —
vaka ástarsárin — lengur
Tasa kóngs við hægri hlið
hugsandi og lotinn gengur.
Númarímur, 5. ríma, 11.–12. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 4. ágúst 1965.
SÁM 84/68 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001097]

Dæmi 21–24:

Skal eg mega um skáldin nokkuð tala
fyrst eg er að erja við
óbúsæla handverkið.
Nafnið það menn naumast vinna kunna
fyrir það, að ríma rétt,
sem regla verður fyrir sett.
Orðfimni og æfður lengi vani,
gefur þessa góðu mennt,
þó geti má ske fáir kennt.
Orð og þanka alla úr hinna bókum,
þegar láta þrykkta skrá,
þurfa slíkir jafnan fá.
Númarímur, 17. ríma, 1.–4. vísa (stuðlafall).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 6. ágúst 1965.
SÁM 84/71 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001141]

Þórður Guðbjartsson:

Dæmi 1:

Reiðar þurrka þeir ei val
þrautaslurk þó reyni
allt fram skurka Yxnadal
upp að Lurkasteini.
Rímur af Þórði hreðu, 16. ríma, 41. vísa (ferskeytt).
Höf. Hallgrímur Jónsson (1787–1861).
Kveðið 3. ágúst 1965.
SÁM 84/67 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001087]

Dæmi 2:

Sjóli ágætur sér við mund
setjast lætur gram um stund,
yndisbætur lífga lund,
lánast mætu kerasund.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 9. ríma, 64. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 6. ágúst 1965.
SÁM 84/70 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001137]

Dæmi 3:

Upp á grundu einstig fann
öðlingskundur téður,
komst svo undir kastalann
kesjuþunda meður.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 8. ríma, 17. vísa (ferskeytt).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 5. ágúst 1965.
SÁM 84/68 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001103]

Dæmi 4:

Arnljóts bróðir ekki sljór
álma var sá njótur,
þar var hjá þeim þróttarstór
Þorsteinn uxafótur.
Rímur af Svoldarbardaga, 1. ríma, 50. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 30. ágúst 1967.
SÁM 93/3717 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1019100]

Dæmi 5–7:

Söng í reiða kífinn kár,
kólgur freyða stórar,
Ekkilsheiða yfir flár
öldu skeiða jórar.
Sigla drengir dag sem nátt
djúpt um engi þöngla,
rárnar lengi hljóða hátt,
hjól og strengir söngla.
Kár með jöfnum þrótti þar
þá um nöfnur úðar
brátt að höfnum Borneyjar
beindi hröfnum súðar.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 8. ríma, 13.–15. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 5. ágúst 1965.
SÁM 84/70 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001137]

Dæmi 8–9:

Sunnlendingur sem að Björn er nefndur
um það víst ég vitna skal
var hér nótt í Sauðlauksdal.
Húsmóðirin honum gaf að borða
finna bæði fisk og smjör
flautir og graut með bestu kjör.
Sunnlendingur sem að Björn er nefndur (stuðlafall).
Höf. ókunnur.
Kveðið 13. júlí 1971.
SÁM 91/2383 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013521]

Dæmi 10:

Stundum fram á steinbítsmið
stefni ég árakjóa,
stundum má ég strákinn við
stíga, kveða og róa.
Brynki var á fótum frár, 2. er. (ferskeytt).
Höf. Brynjólfur Björnsson (1845–1934).
Kveðið sumarið 1959.
SÁM 00/3985 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1038694]

Dæmi 11:

Stríð er að fást við stjórn og þjóð
sem standa andvíg jafnan,
kóngaást er einatt góð
en oft það sást að skammt hún stóð.
Alþingisrímur, 1. ríma, 14. vísa (stikluvik).
Höf. ókunnur.
Kveðið 6. ágúst 1965.
SÁM 84/70 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001132]

Dæmi 12:

Í landsins hjarta lifði þar
ljósið margt, sem fegurð bar.
Nú er bjart við Breiðamar,
búinn skarti kveldsólar.
Breiðfirðingavísur, 3. er. (hagkveðlingaháttur).
Höf. Ólína Andrésdóttir (1858–1935).
Kveðið 3. ágúst 1965.
SÁM 84/66 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001082]

Dæmi 13:

Hnút við stóran hafla beins
heilsan fóru að vanda
stigu af jórum undir eins
allir þórar banda.
Rímur af Þórði hreðu, 16. ríma, 42. vísa (ferskeytt).
Höf. Hallgrímur Jónsson (1787–1861).
Kveðið 3. ágúst 1965.
SÁM 84/67 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001087]

Dæmi 14:

Faldasunna sál var heið,
þær saumuðu, spunnu, stýrðu skeið,
þeim var kunnug láar leið,
lögð yfir grunna svæðin breið.
Breiðfirðingavísur, 8. er. (hagkveðlingaháttur).
Höf. Ólína Andrésdóttir (1858–1935).
Kveðið 3. ágúst 1965.
SÁM 84/66 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001081]

Dæmi 15–16:

Hróp í staðinn heyrði þá
hirðir naðurs þetta,
múrinn gengur glaður á,
gerði hraður frétta:
Hátt upp gerði hrópa þar
hoskur skerðir fleina:
„Býð eg verði Borneyjar
brynju og sverð að reyna.“
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 8. ríma, 19. og 18. vísa (ferskeytt).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 5. ágúst 1965.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001103]

Dæmi 17:

Breiða- fyrst á firðinum
fékk ég vist á bátunum
hjá aflaþyrstum, þrekmiklum
þrauta og lista formönnum.
Breiðfirðingavísur, 5. er. (hagkveðlingaháttur).
Höf. Ólína Andrésdóttir (1858–1935).
Kveðið 3. ágúst 1965.
SÁM 84/66 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001082]

Dæmi 19:

Smala hlýðinn hjarðar fjöldinn
heim að líður stekkjunum,
þar um síð á sumarkvöldin
eg sat í víðirbrekkunum.
Númarímur, 3. ríma, 6. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 3. ágúst 1965.
SÁM 84/67 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001090]

Dæmi 20:

Sé eg það, að sorg þú berð í sinnu ranni.
Hermdu frá því, halurinn svinni,
hvað ógleði veldur þinni.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 4. ríma, 16. vísa (braghent).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 5. ágúst 1965.
SÁM 84/68 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001104]

Dæmi 21:

Firna stórum fjöllum á
fundust ekki leiðir betri,
jöklar voru og hnúkar há
á heiðu sumri eins og vetri.
Líkafrónsrímur, 4. ríma, 12. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 5. ágúst 1965.
SÁM 84/68 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001102]

Dæmi 22:

Súða lýsti af sólunum
síla víst á bólunum,
einatt tísti í ólunum,
að sem þrýstu hjólunum.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 9. ríma, 58. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 6. ágúst 1965.
SÁM 84/70 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001105]

Gísli Gíslason

Dæmi 1:

Þar var greina þrotið smíð
og þundar fundum lokið,
þegar Einar átti stríð
og illar skeinur veitti lýð.
Rímur af Svoldarbardaga, 6. ríma, 10. vísa (stikluvik).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 10. ágúst 1965.
SÁM 84/76 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001205]

Dæmi 2:

Hart fram veður Hyrningur
hrönnum mönnum bylti
sverði meður máttharður,
sem Markús kveður lögmaður.
Rímur af Svoldarbardaga, 6. ríma, 43. vísa (stikluvik).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. ágúst 1965.
SÁM 84/78 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001222]

Dæmi 3–5:

Sumars blíðan svo út rann,
sendir fríðum stála.
Drauma gríður verri vann
værðar tíðum brjála.
Heiman ferð um haustið bjó
hroftur erðis grana,
að Þorgerðar enn í ró
orma verður bana.
Síðan heima að sumri er
súta keiminn metur.
Aftur dreyma illa fer
að þá sveimar vetur.
Rímur af Gísla Súrssyni, 10. ríma, 12.–14. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/72 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001163]

Dæmi 6:

Skipti manna bauð í ból
bóndinn hrannar ljóma sól
öllum klæðum fleti frá
fyrst hann ræður kasta þá.
Rímur af Gísla Súrssyni, 12. ríma, 13. vísa (stafhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/73 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001168]

Dæmi 7:

Sókn og varnir sýndu þeir
sást þá harðna gaman
hreppstjórarnir traustir tveir
tóku þarna saman.
Kosningavísur (ferskeytt). Höf. Hallbjörn Bergmann Björnsson (1855–1925).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/73 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001169]

Dæmi 8:

Öslaði gnoðin, beljaði boðinn
blikaði voðin, kári söng,
stýrið gelti, aldan elti,
inn sér hellti á borðin löng.
Úr Grímseyjarrímu (langhent).
Höf. Árni Jónsson Eyjafjarðarskáld (1760–1816).
Kveðið 10. ágúst 1965.
SÁM 84/76 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001199]

Dæmi 9–10:

Húsfreyjurnar hugsandi um hagi slæma,
réna létu ræðu gaman;
rauðar eins og blóð í framan.
Auður mælti: „Oss úr vöndu er að ráða.“
Ásgerður nam andsvör þýða:
„Ekki skal eg þessu kvíða.“
Rímur af Gísla Súrssyni, 4. ríma, 13.–14. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/72 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001161]

Dæmi 11:

Börkur, eftir bardagann, til bæja sneri,
hugar lítið gæskan greri.
Rímur af Gísla Súrssyni, 9. ríma, 17. vísa (afhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/73 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001167]

Dæmi 12:

Ekki gleymist Gísli mér;
gjörum þar að snúa:
kempan heima á Hóli er,
heldur illa dreyma fer.
Rímur af Gísla Súrssyni, 5. ríma, 13. vísa (stikluvik).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/73 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001165]

Dæmi 13:

Njótar lófa neggja hófu leika,
um sem vann ég vekja tal,
vetur þann í Haukadal.
Rímur af Gísla Súrssyni, 6. ríma, 15. vísa (stuðlafall).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. ágúst 1965.
SÁM 86/78 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001225]

Dæmi 14:

Sumars blíðan svo út rann,
sendi fríðum stála.
Drauma gríður verri vann
værðar tíðum brjála.
Rímur af Gísla Súrssyni, 10. ríma, 12. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. ágúst 1965.
SÁM 86/78 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001226]

Dæmi 15:

Þegar helja handaköld
hniginn mundi Þorgrím taka,
Þórdís beljar óð á öld
alla biður menn að vaka.
Rímur af Gísla Súrssyni, 7. ríma, 13. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/72 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001162]

Dæmi 16–17:

Þar var greina þrotið smíð
og þundar fundum lokið,
þegar Einar átti stríð
og illar skeinur veitti lýð.
En því auðsærri sem hann var
og sendi fjöndum bana,
öllum nærri öðling þar
óttinn stærri hjartað skar.
Rímur af Svoldarbardaga, 6. ríma, 10. og 20. vísa (stikluvik).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. ágúst 1965.
SÁM 84/77 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001210]

Dæmi 18:

Drauma undur orðið hér
um það grundum stöku
fleina þundur einn sem er
ern í blundi og vöku.
Draumur Hallbjarnar Bergmann (ferskeytt).
Höf. Hallbjörn Bergmann Björnsson (1855–1925).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/73 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001170]

Dæmi 19:

Líkafrón og lagsmenn tveir,
ljósin dags nær fá að skoða,
kveðja hjón, og því næst þeir
þaðan undir fjöllin troða.
Líkafrónsrímur, 4. ríma, 11. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 10. ágúst 1965.
SÁM 84/76 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001206]

Þórður Marteinsson:

Dæmi 1:

Fékk ég bréf þitt, Fúsi minn,
sem fjallaði um kreppu og gengið,
en hitt er verra að húsviðinn
hef ég engan fengið.
Ljóðabréf (ferskeytt).
Höf. Óskar Arinbjörnsson (1889–1954).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/74 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001175]

Dæmi 2:

Njótar lófa neggja hófu leika,
um sem vann ég vekja tal,
vetur þann í Haukadal.
Rímur af Gísla Súrssyni, 6. ríma, 15. vísa (stuðlafall).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/74 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001180]

Dæmi 3:

Þiggur af lýðum lofið tíðum
lundurinn þýður, skíða bur,
rekkurinn blíður soðning sýður
sá hinn fríði Erlendur.
Þiggur af lýðum lofið tíðum (langhent).
Höf. Marteinn Gíslason (1908–1941).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/74 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001177]

Dæmi 4:

Húsfreyjurnar hugsandi um hagi slæma,
réna létu ræðu gaman;
rauðar eins og blóð í framan.
Rímur af Gísla Súrssyni, 4. ríma, 13. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/74 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001179]

Dæmi 5:

Fjörulallar fóru á kreik
frekt þó hallað var af degi
heim þeir dralla og hyggja á leik
héldu að karlar svæfu eigi.
Fjörulallabragur, 1. er. (nýhent).
Höf. Marteinn Gíslason (1908–1941).
Kveðið 8. ágúst 1965.
SÁM 84/74 EF.
[https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001178]

Þorgils Þorgilsson

Dæmi 1–3:

Vorsins blíða lýða lund
lífgar, kvíða ei seður
fuglar víða flökta um grund
fjaðraprýði meður.
Grænkar víða grund að sjá
grösin fríð fá völdin
lækir hlíðum líða frá
liljum skrýðist fjöldinn.
Sumri hallar haustar þá
hvín í fjalli og klifi
blómin vallar blikna smá
byrgð í mjallardrifi.
Úr Árstíðavísum (ferskeytt).
Höf. Þorgils Þorgilsson (1884–1971).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000710]

Dæmi 4–5:

Geislar ljóma um grund og haf
glöðum rómi er sungið
loftið hljómar lífi af
lífsins ómi þrungið.
Þá vetur klæðist kufl sinn í
klaka þræðir sína
fellur á svæði fönn á ný
fegurð og gæði dvína.
Úr Árstíðavísum (ferskeytt).
Höf. Þorgils Þorgilsson (1884–1971).
Kveðið 18. ágúst 1965.
SÁM 84/85 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001317]

Dæmi 6:

Dagsins runnu djásnin góð
dýr um hallir vinda
morgunsunnu blessað blóð
blæddi um fjallatinda.
Númarímur, 12. ríma, 15. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000716]

Dæmi 7:

Vorsins blíða lýða lund
lífgar, kvíða ei seður
fuglar víða flökta um grund
fjaðraprýði meður.
Unaðs hljómar um þá tíð
upp sprettur drómi kífsins
anga blómin undurfríð
allt er í blóma lífsins.
Úr Árstíðavísum (ferskeytt).
Höf. Þorgils Þorgilsson (1884–1971).
Kveðið 18. ágúst 1965.
SÁM 84/86 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001323]

Dæmi 9:

Stafninn klýfur strauma dátt,
stormur svífur yfir höfin,
bylgjan kýfist borð við þrátt,
blakta stífust mastratröfin.
Vísur ortar eftir norðanveður 1916 (nýhent).
Höf. Þorgils Þorgilsson (1884–1971).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000709]

Dæmi 10:

Nú skal vinda voð að hún
vænt svo syndi dýrið flóða,
æða vindar áls um tún
og æsa lyndi ránar jóða.
Vísur ortar eftir norðanveður 1916 (nýhent).
Höf. Þorgils Þorgilsson (1884–1971).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000712]

Dæmi 11–12:

Vorsins blíða lýða lund
lífgar, kvíða ei seður
fuglar víða flökta um grund
fjaðraprýði meður.
Að sumars blíða svífur tíð
síst fer að líða að kvíða
blómum skrýðist brekkan fríð
blómsturhlíðar fríðar.
Úr Árstíðavísum (ferskeytt).
Höf. Þorgils Þorgilsson (1884–1971).
Kveðið 18. ágúst 1965.
SÁM 84/85 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001317]

Dæmi 13:

Á eg að halda áfram lengra eða hætta
og milli Grænlands köldu kletta
kvæðin láta niður detta?
Númarímur, 9. ríma, 1. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000718]

Dæmi 14:

Á eg að halda áfram lengra eða hætta
og milli Grænlands köldu kletta
kvæðin láta niður detta?
Númarímur, 9. ríma, 1. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000720]

Dæmi 15:

Högna kenni eg, hefna nennir hlýra sinna,
vorir menn því fjörtjón finna,
fast því spennum dörinn stinna.
Rímur af Andra jarli, 5. ríma, 54. vísa (braghent).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 18. ágúst 1965.
SÁM 84/85 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001321]

Dæmi 16–17:

Líkafrón og lagsmenn tveir,
ljósin dags nær fá að skoða,
kveðja hjón, og því næst þeir
þaðan undir fjöllin troða.
Ill var færð og óhrein leið,
útilegumenn og tröllin
byggðu ærð, um bratta heið
bönnuðu mönnum leið um fjöllin.
Líkafrónsrímur, 4. ríma, 11.–12. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 18. ágúst 1965.
SÁM 84/85 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001322]

Dæmi 18–19:

Andri hlær svo höllin nær við skelfur
við sína granna sagði hann:
„Sjáið þið manninn vitlausan?“
Rímur af Andra jarli, 2. ríma, 104. vísa (stuðlafall).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 18. ágúst 1965.
SÁM 84/85 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001320]

Dæmi 20:

Ofan lúðir fjallið fóru
fornar flóðir lilju ranns.
Átta búðir í honum vóru,
úti stóð þar fjöldi manns.
Rímur af Úlfari sterka, 9. ríma, 50. vísa (langhent).
Höf. Árni Böðvarsson (1713–1776).
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000713]

Dæmi 21:

Númi undrast, Númi hræðist,
Númi grundar hvað til ber,
Númi skundar, Númi læðist,
Númi undan víkur sér.
Númarímur, 3. ríma, 49. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 11. september 1964.
SÁM 84/44 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000715]

Páll B. Stefánsson

Dæmi 1:

Man ég fyrrum þyt á þökum
þreyta styr við éljadrög,
þá á kyrrum kvelda vökum
kveiktu hyrinn rímnalög.
Man ég fyrrum þyt á þökum (langhent).
Höf. Jóhannes úr Kötlum (1899–1972).
Kveðið 18. nóvember 1968.
SÁM 87/1077 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1036370]

Dæmi 2:

„Ófær sýnist áin mér,
állinn þessa verstur,
stóra jaka straumur ber,
stendur hann enginn hestur.
Sveinn Pálsson og Kópur, 1. er. (ferskeytt).
Höf. Grímur Thomsen (1820–1896).
Kveðið 18. nóvember 1968.
SÁM 87/1077 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1036371]

Dæmi 3:

Vora tekur. Árla er.
Æskan rekur gullna þræði.
Sólin vekur, gegnum gler,
geislum þekur rekkjuklæði.
Bjartir morgnar, 1. er. (nýhent).
Höf. Stefán frá Hvítadal (1887–1933).
Kveðið 18. nóvember 1968.
SÁM 87/1077 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1036372]

Dæmi 4:

Fugla háan heyri klið
hressir dável muna.
Glaður bláa vatnið við
verð ég þá að una.
Fugla háan heyri klið (ferskeytt).
Höf. Baldvin Jónsson (1826–1886).
Kveðið 18. nóvember 1968.
SÁM 87/1078 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1036373]

Dæmi 5:

Ýmsum þykir einskis vert
er annarra kvika svíður.
Eitthvert strik er eftir hvert
augnablik sem líður.
Ýmsum þykir einskis vert (ferskeytt).
Höf. ókunnur.
Kveðið 18. nóvember 1968.
SÁM 87/1078 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1036374]

Dæmi 6–7:

Af því nú er komið kvöld
og kærstur liðinn dagur
rennur undir rekkjutjöld
röðull skær og fagur.
Sál mín brynni í sjafnar eld
sæl um njólu stundir
ef hjá mér rynni hlý í kveld
hringasólin undir.
Kvöldvísur (ferskeytt).
Höf. Símon Bjarnarson Dalaskáld (1844–1916).
Kveðið 18. nóvember 1968.
SÁM 87/1078 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1036376]

Pétur Ólafsson

Dæmi 1:

Hákon þá er hniginn lá,
og hetjan móð á velli stóð,
Jökull brá sér beinin á,
blossa tróð að stjörnu rjóð.
Rímur af Víglundi og Ketilríði, 8. ríma, 11. vísa (gagaraljóð).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 28. nóvember 1968.

Dæmi 2:

Héðinn sjóli sest að stóli valda,
vinsæll náði verða fljótt
vopna ráður gæddur þrótt.
Rímur af Héðni og Hlöðvi, 3. ríma, 6. vísa (stuðlafall).
Höf. Jón Eyjólfsson (1850–1924).
Kveðið 6. september 1967.
SÁM 93/3722 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1019150]

Dæmi 3:

Bóndinn tér með blíða önd
baldri mundar steina:
„Tökum okkur tafl í hönd
týnum efni meina.“
Rímur af Víglundi og Ketilríði, 12. ríma, 14. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 29. nóvember 1968.

Dæmi 4:

Héðinn dvelur heima þá,
harmar sprundið fríða,
greipar hélu geymir sá
gæti finnur lýða.
Rímur af Héðni og Hlöðvi, 2. ríma, 7. vísa (ferskeytt).
Höf. Jón Eyjólfsson (1850–1924).
Kveðið 5. september 1967.
SÁM 93/3721 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1019145]

Dæmi 5:

Ólafs saga áðan beið,
öðlings mengið slynga,
fram nam draga á laxa leið,
langa hringhyrninga.
Rímur af Svoldarbardaga, 2. ríma, 11. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 30. nóvember 1968.

Dæmi 6:

Skipið flaut og ferða naut,
flenntust skaut á haflabúðum;
stormur þaut, en láin laut
limablaut að öllum súðum.
Rímur af Víglundi og Ketilríði, 10. ríma, 10. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 28. nóvember 1968.

Dæmi 7:

Frændur Merði fleins í klið
fylgi sögðust veita,
bræðralag svo binda við
börinn góins reita.
Rímur af Héðni og Hlöðvi, 8. ríma, 10. vísa (ferskeytt).
Höf. Jón Eyjólfsson (1850–1924).
Kveðið 9. september 1967.

Dæmi 8:

Frægða háir fólkstjórar
freyjum bráins torgar
vagni á um úlfamar
aka þá til borgar.
Rímur af Héðni og Hlöðvi, 6. ríma, 4. vísa (ferskeytt).
Höf. Jón Eyjólfsson (1850–1924).
Kveðið 8. september 1967.

Dæmi 9:

Hann Járngrímur sér að sjóli
sundur kvistar lið,
rétt við lá í rænubóli
reiddist hraustmennið.
Rímur af Héðni og Hlöðvi, 7. ríma, 8. vísa (skammhent).
Höf. Jón Eyjólfsson (1850–1924).
Kveðið 8. september 1967.

Dæmi 10:

Ólafur Svía sjóli stýrir
sundakríum þangs um rann,
öðling fríi orð þau skýrir:
„Ekki flýja mun eg þann!“
Rímur af Svoldarbardaga, 3. ríma, 57. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 5. desember 1968.

Dæmi 11:

Þar var aldan Óma þrotin
út við kalda humra lá,
hlóð Sigvalda sagður flotinn
seglum tjalda haukum á.
Rímur af Svoldarbardaga, 3. ríma, 7. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 30. nóvember 1968.

Dæmi 12:

Ólafs saga áðan beið,
öðlings mengið slynga,
fram nam draga á laxa leið,
langa hringhyrninga.
Rímur af Svoldarbardaga, 2. ríma, 11. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 30. nóvember 1968.

Dæmi 13:

Hákon varð í húsfreyjunnar hæstu metum
gjörði hann með gjöfum káta
gríði klæða mikilláta.
Rímur af Víglundi og Ketilríði, 6. ríma, 9. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 27. nóvember 1968.

Dæmi 14:

Móðurjörð, hvar maður fæðist,
mun hún eigi flestum kær?
Þar sem ljósið lífi glæðist,
og lítil sköpun þroska nær.
Númarímur, 3. ríma, 1. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 5. desember 1968.

Guðmundur Ólafsson

Dæmi 1:

Númi bálar brúnaljós
brúðar til að vonum,
eik forsjála eisu sjós
eins á móti honum.
Númarímur, 8. ríma, 12. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 25. nóvember 1968.

Dæmi 2:

Samt ég allra svásast finn
sólarfall við Jökulinn;
vermist mjallar vanginn þinn,
vesturfjalla kóngurinn.
Breiðfirðingavísur, 2. er. (hagkveðlingaháttur).
Höf. Ólína Andrésdóttir (1858–1935).
Kveðið 23. nóvember 1968.

Dæmi 3:

Svo nam skunda Skarðsströnd á
skýja undir faldi,
oft þar lundum laufa hjá
langar stundir dvaldi.
Svo nam skunda Skarðsströnd á (ferskeytt).
Höf. ókunnur.
Kveðið 23. nóvember 1968.

Dæmi 4:

Þaðan yfir fór ég fjöll,
frekar þandi göngu,
fönnum drifin alveg öll
á Hornstrandir löngu.
Þaðan yfir fór ég fjöll (ferskeytt).
Höf. ókunnur.
Kveðið 23. nóvember 1968.

Dæmi 5:

Skjaldmey móti kappa kemur,
kveður hann ljótum orðum þannin:
„Oss þú hóta ei skalt fremur,
allra þrjóta verstur glanninn.“
Númarímur, 7. ríma, 18. vísa (breiðhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið í nóvember 1968.

Dæmi 6:

Númi undi lengi í lundi,
leiðir sveigir hér og þar,
lítur hann sprund, hún lá í blundi,
lík skjaldmey að búning var.
Númarímur, 4. ríma, 13. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 24. nóvember 1968.

Dæmi 7–9:

Fjallið niður fóru menn og fundu herinn,
mestur þorri Marsa barinn
mundi þá og varnar farinn.
Á eg að halda áfram lengra eða hætta
og milli Grænlands köldu kletta
kvæðin láta niður detta?
Karlmennirnir kunna ekki kvæða málið,
ætli það sé þá ekki galið
að eg lengi kvæðaskjalið?
Númarímur, 9. ríma, 16., 1. og 3. vísa (braghent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 23. nóvember 1968.

Dæmi 10:

Á nær bjátar eymdin smáða
og eitthvað hallast
sumir láta hugann hrjáða
og hendur fallast.
Númarímur, 13. ríma, 2. vísa (úrkast).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 25. nóvember 1968.

Hallgrímur Jónsson

Dæmi 1–3:

Lét á seiða löndunum
lægis skeiða bröndunum;
áls á heiða öndunum
í hvein reiða böndunum.
Brátt fallandi byrjarföld,
bíta sandinn akker köld;
svo á landi setur öld
sín ljómandi fögur tjöld.
Vörður lýða fær þá frétt,
frægum býður sjóla rétt
heim um ríða hauðrið slétt,
hallar prýða sæti nett.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 9. ríma, 59. og 61.–62. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2193 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013468]

Dæmi 4:

Akron sagði feðgum frá
fylkis bragði illu,
vart um þagði vonsku þá,
vald sig lagði þeirra á.
„Til jarldæmis hóf mig hann,
heiðri sæmir stórum;
illa ræmist, ef við þann
öðling kæmi friðar bann.“
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 6. ríma, 17. og 22. vísa (stikluvik).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2194 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013470]

Dæmi 6–8:

Reimar fyrst og Fal eg tel,
fólkið kvista vígs um mel,
báðir lista börðust vel,
blóðugan hrista dragvendil.
Flötu merki fleygja réð
Falur sterki vígs um beð,
löndungsherki mætur með
mengið lerkar heljar téð.
Samson hrellir sókndjarfur
sveit á velli blóðdreifður,
neyð þó hrelli niflungsbur
nærri fellur óvígur.
Rímur af Reimari og Fal, 13. ríma, 15. og 25.–26. vísa (hagkveðlingaháttur). Höfundur Hákon Hákonarson (1793–1863).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2194 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013472]

Dæmi 9:

Bylgjan spýtti boðunum
byrjar títt í hroðunum;
veðrið strítt í voðunum
ver, sem flýtti gnoðunum.
Súða lýsti af sólunum
síla víst á bólunum,
einatt tísti í ólunum,
að sem þrýstu hjólunum.
Lét á seiða löndunum
lægis skeiða bröndunum;
áls á heiða öndunum
í hvein reiða böndunum.
Rímur af Bernótus Borneyjarkappa, 9. ríma, 57.–59. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Magnús Jónsson (1763–1840).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2193 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013468]

Dæmi 12–13:

Höfuðið ljósa lagt hún hefur
létt á skjöldinn, vanga hjá
hjálmur drósar, hýrt er sefur,
hulinn öldu stjörnum lá.
Númi undi lengi í lundi,
leiðir sveigir hér og þar,
lítur hann sprund, hún lá í blundi,
lík skjaldmey að búning var.
Númarímur, 4. ríma, 14. og 13. vísa (langhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 22. júlí 1969.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013471]

Jón Oddsson

Dæmi 1:

Þrátt fyrir taman þjóðarsið
þeim er sama núorðið
hvort aftan, framan eða á hlið
eiga gaman fljóðin við.
Þrátt fyrir taman þjóðarsið (hagkveðlingaháttur).
Höf. Þorleifur Þorleifsson (1837–1912).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2189 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013408]

Dæmi 2:

Eg í túni teina sá
tálið Þorgríms vinar fálu,
geig við rúna gímu þá
gunnbliks norna á skeiði hálu.
Rímur af Gísla Súrssyni, 7. ríma, 53. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2190 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013419]

Dæmi 3:

Andri snar drakk inni þar með ýtum sínum,
og þjóðirnar hjá þengli fínum
sem þjáður var af lyndis pínum.
Rímur af Andra jarli, 5. ríma, 13. vísa (braghent).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2191 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013431]

Dæmi 4–6:

Innir sagan svo þar frá,
sem þó mætti dragast frá,
í þrjá daga stælti stjá
styr óragur kappinn sá.
Málma skvaldur herðir hann,
hvíldum aldrei sinna vann
eyðir skjalda, ýtar þann
allir halda vitlausan.
Andri kallar upp og tér:
„Er það varla geðfellt mér
að drepi alla ýta hér
ofnis palla frægur grér.“
Rímur af Andra jarli, 3. ríma, 92.–93. og 95. vísa (samhent).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2191 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013433]

Dæmi 7:

Hranna skríður hesturinn
hafs úr stríðu róti
Siglu- fríði fjörðurinn
faðminn býður móti.
Hranna skríður hesturinn (ferskeytt).
Höf. ókunnur.
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2189 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013405]

Dæmi 8:

Oddur minn er ærustór
unan fylgir halnum
gaf mér núna brenndan bjór
bóndi á Engidalnum.
Oddur minn er ærustór (ferskeytt).
Höf. Símon Bjarnarson Dalaskáld (1844–1916).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2189 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013406]

Dæmi 9–10:

Það ber fyrst að heyrnar hurð,
heimurinn stóð í villu,
trúar lista ljóss var þurrð
lengst fyrir Kristí hingað burð.
Tveggja flíkum faldaðir,
fjöri og sigri héldu,
tiggja líkar týr hraustir
tóku ríki gamlaðir.
Rímur af Hjálmari hugumstóra, 1. ríma, 23. og 27. vísa (stikluvik).
Höf. Hallgrímur Jónsson læknir (1787–1861).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2189 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013400]

Dæmi 11:

Aldrei falla hann Andri vann
ætíð skalla bar harðan,
en nú til vallar hnígur hann,
Hárek kalla má seigan.
Rímur af Andra jarli, 3. ríma, 115. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2191 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013435]

Dæmi 12:

Andra slyngur haus í hjó
hrottinn syngur fagurt þó,
hins ei springur kjálka kró,
kífmæringur síst af dró.
Rímur af Andra jarli, 3. ríma, 56. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2191 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013434]

Dæmi 13–15:

Góins bingja gnægt var léð
gram sem nefndist Logi,
Hálendingum ráða réð
rausn höfðingja stórri með.
Áttu hjónin arfa þann
öld sem Helga nefnir,
á því fróni enginn fann
urnis bóna ver slíkan.
Býður þokka sér af sá
sjóla fríði kundur,
liðaðist hrokkið höfði frá
hár í lokkum mjaðmir á.
Rímur af Andra jarli, 1. ríma, 13. og 21.–22. vísa (stikluvik).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2191 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013432]

Dæmi 16–17:

Helgi úr máta ræddi reiður
reflum styrjar kasta vann:
„Þú munt láta líf og heiður
ljótan fyrir ofstopann.
Farðu skjótt úr skyrtu þinni
skjóminn af sem hrökkur minn
fyrr er drótta stýrir stinni
stoltur gaf þér faðir þinn.“
Rímur af Andra jarli, 8. ríma, 83.–84. vísa (langhent).
Höf. Hannes Bjarnason (1776–1838).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2191 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013440]

Dæmi 18:

Grímur þá kom gólfið á
gestur sá var boðinn ekki —
mörgum brá er manninn sá,
mæla náir kappinn þekki:
Rímur af Víglundi og Ketilríði, 3. ríma, 25. vísa (nýhent).
Höf. Sigurður Breiðfjörð (1798–1846).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2189 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013398]

Dæmi 19:

Aldrei síðar – sú er mín
sárust kvíða alda –
sólin blíða brúna þín
blikar hlíð á falda.
Hjálmarskviða, 64. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Bjarnason (1841–1865).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2190 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013425]

Dæmi 20:

Þá mun tíðin þér indæl,
þoka kvíði úr geði.
Lif nú, blíða brúður sæl,
blóm þig skrýði gleði.
Hjálmarskviða, 72. vísa (ferskeytt).
Höf. Sigurður Bjarnason (1841–1865).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2190 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013428]

Dæmi 21:

Fárleg vóru fjörbrot hans,
fold og sjórinn léku dans,
gæfusljór með glæpa fans
Grímur fór til andskotans.
Göngu-Hrólfsrímur, 18. ríma, 72. vísa (hagkveðlingaháttur).
Höf. Hjálmar Jónsson (1796–1875).
Kveðið 22. júlí 1969.
SÁM 90/2190 EF.
[https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1013422]

Viðauki

Dæmi um kveðskap kvæðamannanna tíu

Hljóðrit

Þórður Guðbjartsson:

  • Breiðfirðingavísur (brot)
  • Breiðfirðingavísur
  • Rímur af Bernótus Borneyjarkappa (IV 15–18)
  • Rímur af Bernótus Borneyjarkappa (VIII 13–26)
  • Sveinn Pálsson og Kópur
  • Svoldarrímur (I 14–19)
  • Númarímur (III 2–6)

Einar Einarsson:

  • Svoldarrímur (IV 10–14)
  • Númarímur (XVII 1–10)
  • Rímur af Tístran og Indíönu (III 1–7)
  • Númarímur (XVI 45–51)
  • Númarímur (V 11–15)
  • Svoldarrímur (I 14–21)

Gísli Gíslason:

  • Draumur Hallbjarnar Bergmann
  • Vísur
  • Rímur af Gísla Súrssyni (IV 13–21)
  • Rímur af Gísla Súrssyni (V 13–23)
  • Rímur af Gísla Súrssyni (VIII 16–25)
  • Rímur af Gísla Súrssyni (IX 17–26)
  • Rímur af Gísla Súrssyni (XII 13–20)
  • Rímur af Gísla Súrssyni (XIV 16–25)
  • Svoldarrímur (I 14–19)
  • Svoldarrímur (V 9–17)

Þórður Marteinsson:

  • Ljóðabréf frá Erlendi í Naustum til Sigfúsar í Flatey
  • Fjörulallabragur
  • Rímur af Gísla Súrssyni (IV 13–24)
  • Rímur af Gísla Súrssyni (VI 15–31)

Þorgils Þorgilsson:

  • Árstíðavísur
  • Árstíðavísur (Vor)
  • Líkafrónsrímur (IV 11, 14)

Páll B. Stefánsson:

  • Sveinn Pálsson og Kópur
  • Kvöldvísur
  • Bjartir morgnar
  • Fram til heiða

Pétur Ólafsson:

  • Víglundarrímur (III 11–19)
  • Víglundarrímur (VI 16–23)
  • Víglundarrímur (VIII 11–20)
  • Víglundarrímur (IX 17–25)
  • Svoldarrímur (VIII 49–59)

Guðmundur Ólafsson:

  • Breiðfirðingavísur
  • Númarímur (IV 13–21)
  • Númarímur (V 1–8)
  • Númarímur (VII 14–20)
  • Númarímur (IX 76–82)
  • Númarímur (XII 1–14)
  • Vísur um Hornstrandir

Hallgrímur Jónsson:

  • Rímur af Bernótus Borneyjarkappa (VI 17–23)
  • Rímur af Bernótus Borneyjarkappa (IX 57–73)
  • Gránuvísur
  • Fjallið fagra
  • Rímur af Reimari og Fal (XIII 15–19, 25–28)
  • Númarímur (IV 13–14)

Jón Oddsson:

  • Hjálmarskviða (brot)
  • Rímur af Andra jarli (V 13, 28–29)
  • Siglingavísur
  • Vísur um Odd Jóhannsson frá Siglunesi
  • Númarímur (IV 13–14, 19, 23, 17)
  • Víglundarrímur (III 25–27, 30–34, 36–38)

Hljóðritin eru aðgengileg undir heiti bókarinnar á Spotify


TEXTAR

RÍMUR eftir Sigurð Breiðfjörð (1798–1846)

SVOLDARRÍMUR

I 14–21 (ferskeytt):

14. Lifnar hugur líka geð,
ljóð til sögu víki;
Ólafur Tryggva arfi réð
öllu Norvegs ríki.

15. Með sér hafði mikinn her
milding tamur röndum,
því kóngur hafði kosið sér
kappa úr ýmsum löndum.

16. Á þeim tíma, er um ég get,
út hjá grundar jöðrum,
byrðing kóngur byggja lét,
betri flestum öðrum.

17. Menn til valdi mildingur
að mynda knör af liði;
Þorgeir hétu og Þorbergur
þóftubjarnar smiðir.

18. Fékk til kóngur fleiri en þá
firða smíðishaga;
sumir skyldu sauminn slá,
en sumir viði laga.

19. Á góðum efnum víða völ
vissu smiðir spakir,
en fengu ei tré að fella í kjöl,
fyrir lengdar sakir.

20. Einhvern dag að öldubekk
ítar feta, að morgni;
mikill þeim á móti gekk
maður, og nefndist Forni.

21. Móts við smiði manninn bar;
mjög til göngu hraður,
yfirlita illur var,
einsýnn, rauðskeggjaður.

IV 10–14 (samhent, hagkveðlingaháttur):

10. Þar ég hróður bíða bað,
buðlung rjóðum þrír í stað
greiddu róður gylfar að,
glóði Óðins ljósa blað.

11. Kóngur Dana um hnísu hlað
herinn manar, eftir það
náði flana fyrst á stað
flóða grana löngum að.

12. Gildur sjóli Svíþjóðar
síldarbóla krákurnar
að skipi Óla öðlings þar
ysta róla lét um mar.

13. Annarsvegar að kemur,
ógnarlega harðfengur,
eyddur trega Eiríkur,
eggjar dregur seggja hvur.

14. Sér járnbarða jarlinn á,
sem jöfur sparði ekki þá,
sleginn harður stáli blá
stelkur fjarða mundi sá.

V 9–17 (ferskeytt, hringhent):

9. Þar ég höldum lokið lét
lagar öldum grana,
glumdi á skjöldum skjóma hret,
skálkar kvöldust bana.

10. Norðmenn slá og eirðu ei,
Óma gljáir roðinn,
þeir stafnljái færðu á fley,
flest þau lágu hroðin.

11. Blóðið dundi í brimla tjörn,
bófar hrundu í grúa,
Svíum mundi veiklast vörn,
vildu undan snúa.

12. Með hetjum ströngum geyst fram gekk
gylfi í slöngu veður,
hlífði öngvum hetjan þekk,
hér um söng Hallfreður:

13. „Hugardeig var Svía sveit,
síst má feigur tóra,
hræðslu geigur hjartað beit
við hirðar eiga stjóra.“

14. Trauðir dóu á tjald-öndum,
tók við óa skaðann,
skipin hjóu úr haldböndum,
hraðast róa þaðan.

15. Höfðu tapað manna mergð
mikið hrapalega;
það var skapleg skammarferð,
skjómar gapa vega.

16. Mjög sannspár varð sjóli að því
af seggjum báru ei fríum;
lifðu sára eymslum í,
þeir eftir váru af Svíum.

17. Í römum gný við randa spjöll
rauna stíu átti,
Dana og Svía öldin öll,
undan flýja mátti.

VIII 49–59 (ferskeytt, frumhent):

49. Þorgeir hneig og Hyrningur
hörðum fyrir brandi,
varð og feigur valdauður
Vikar af Tíundalandi.

50. Leið þar dauða dáðrakkur,
dörva skjótur meiður,
Úlfur rauði örendur
og Indriði fótabreiður.

51. Ívar nýtur ljómi leið
líka strangan bana,
Þorsteinn hvíti þáði deyð
þar á ranga grana.

52. Líka skelkur Þorsteinn þá
þungan baga gisti,
húna stelknum einnig á
æfidaga missti.

53. Ótal fleiri afreksmenn,
á valströndu gistu,
þungum geiri særðir senn,
sína öndu misstu.

54. Um Eirík jarl það inna má,
álma hristir ríka,
kappa alla sína sá
sjálfur missti líka.

55. Stallari kenndur Kolbeinn þá,
kauða skara fletur,
langa stendur Ormi á,
enn þá varist getur.

56. En nær þyngja aðsókn fór
og ekkert skjól var lengur,
í lyftingu álmaþór
upp til sjóla gengur.

57. Allt eins klæði og öðling bar
þar eggja dundi senna,
mátti skæða þjóðin þar
þá ei sundur kenna.

58. Svo var eggja þryman þrá,
þrýtur róin manna,
að skildir beggja skúfast þá
skeytum óvinanna.

59. Að lyfting þrengir þjóðin reið,
og þá sem lifa sníða,
sá þá mengi að ljós eitt leið
lofðung yfir fríða.


NÚMARÍMUR

III 2–6 (langhent):

2. Í fleiri lönd þó fengi drengir
forlaganna vaðið sjó,
hugurinn þangað þrengist lengi,
er þeirra fögur æskan bjó.

3. Mundi eg eigi minnast hinna
móðurjarðar tinda há
og kærra heim til kynna minna
komast hugarflugi á.

4. Jú, eg minnist, fóstra forna,
á fjöllin keiku sem þú ber,
í kjöltu þinni kvölds og morgna
kvikur leikur muni sér.

5. Um þína prýði að þenkja og tala,
það er tíðast gleðin mín,
í högum fríðu hlýrra dala,
hjörð um skríður brjóstin þín.

6. Smala hlýðinn hjarða fjöldinn
heim að líður stekkjunum,
þar eg síð á sumarkvöldin
sat í víðirbrekkunum.

IV 13–21, 23 (langhent, víxlhent):

13. Númi undi lengi í lundi,
leiðir sveigir hér og þar,
lítur hann sprund, hún lá í blundi,
lík skjaldmey að búning var.

14. Höfuðið ljósa lagt hún hefur
létt á skjöldinn, vanga hjá
hjálmur drósar, hýrt er sefur,
hulinn öldu stjörnum lá.

15. Hárið bjarta brynju þekur;
í bylgjum gylltum niður flaut,
allt hvað hjartans undrun vekur;
augun fyllti brúðar skraut.

16. Spjót eitt undir hefur hendi,
hún í dúni skógar lá,
ljósið þundar ljóma sendi,
linda túni meyjar frá.

17. Svona í drauma dái liggur
día ljóminn, Freyja ber;
þangað laumast Loki hyggur
og lágt í grómi falinn er.

18. Flakir um bringu og meyjar maga
men brísinga hálsi frá,
blóðshræringar léttar laga
liljur kringum brjóstin smá.

19. Svefninn býr á augum ungum
eru þau hýr, þó felist brá,
rauður vír á vangabungum
vefur og snýr sig kringum þá.

20. Sig innvikla í rósum rörum
rauðu taumar æða blá,
litir sprikla létt á vörum
og laga drauma brosin smá.

21. Andinn hlýr, sem ilminn nýta
óspart lénar vitum sinn,
í lífinu býr og brjóstið hvíta
í bungur þenur og dregur inn.

...

23. Dúir andinn undir nafla
en svo hvít er hörunds brá
sem hlæjandi sólin skafla
silfur spýti geislum á.

V 1–8 (mansöngur), 11–15 (nýhent):

1. Vandi er þeim, sem völdin á,
vel á tignarstóli drottna,
mikilsverð er maktin há,
ef manndyggð lætur eigi þrotna.

2. Margur kóngur mjög að dáð,
málum öllum vilja snúa;
en ef þeir hafa illgjörn ráð,
undir þeim er neyð að búa.

3. Sá með eigin augum sér,
ekki nema slots hræsnara,
undirsáta örlög hér
ekki kann frá meinum vara.

4. Slíkur múgur vísir ver,
að vant að stjórnarháttum gæti;
fólkið kúgast, fantarnir
flykkjast upp í valdasæti.

5. Til að seðja fýsna feikn
flesta kosti þá er völ um:
brjóstakrossa, titla og teikn
tekst að fá með ríkisdölum.

6. Einn ef hyggur öðrum tjón
eitruðum hreyfir laga skjölum
og kaupir margan þarfaþjón;
það fæst allt með ríkisdölum.

7. Allt skal vinna aftan til
og í læstum ráðasölum,
svo er vænt að vinnist spil
ef vasinn miðlar ríkisdölum.

8. Eitt mér vanta þykir þó
um þetta efni fyrst við tölum:
hamingja sönn og hjartans ró,
hún fæst ei með ríkisdölum.
...
11. Lofðung eftir lesinn dóm
lætur farið heim að sölum
mikinn gjörðu Rómar róm
Rómúlar að fyrirtölum.

12. Númi þoldi valla við —
vaka ástarsárin — lengur
Tasa kóngs við hægri hlið
hugsandi og lotinn gengur.

13. Rennur honum í þanka þá
þungu hlífartröllin hvetja
vífi fylgja valþing á
og verða öllum frægri hetja.

14. Að verja brúðar væna líf
og vera hennar brjósti skjöldur
vaða svo með Hildarhníf
heitar gegnum dreyra öldur.

15. Þetta metur þankinn skást
því er hann fús til hryðjuverka
mætti vinna meyjar ást
máski um síðir höndin sterka.

VII 14–20 (breiðhent, hringhent eða víxlhent):

14. Úr hans brotum eldur stekkur,
öngvu notast kyrrðarstaður;
smalinn rotast, hjörðin hrekkur,
hræðist lotinn ferðamaður.

15. Jörðin grætur, hristist heimur,
hrynur um stræti bjargið þétta,
uns það mætir eikum tveimur
sem allar rætur saman flétta.

16. Þessar stansa steininn firna,
styður aðra hvor sem getur,
fótum hans við falli spyrna,
ferðir þaðra bjargið letur.

17. Leó þannig stöðvar stinnur
stáls í dýjum ferða æði,
þegar hann í hernum finnur
Hersilíu og Núma bæði.

18. Skjaldmey móti kappa kemur,
kveður hann ljótum orðum þannin:
oss þú hóta ei skalt fremur,
allra þrjóta verstur glanninn.

19. Þú skalt, færður fyrir skjóma,
falla brátt með stærstu kvölum;
að hafa særðan ræsi Róma,
raupa máttu í heljar sölum.

20. Nú tvíhendir hrottann beitta,
hjarna strendur mærin yfir;
brosti að kvendi kempan sveitta,
kyrr hann stendur þó, og lifir.

IX 76–82 (braghent, baksneitt):

76. Hilmir biður: „Hættu þessu, hetjan góða,
sjóinn æða að sefa rauða,
sárin mörg eg hef til dauða.

77. Guðunum vil eg gjalda lof og gleyma meinum,
að eg fæ í örmum þínum,
anda þeim að skila mínum.

78. Dóttur minni bið eg blítt þú bjarga vildir,
henni ekki munu mildir
morðingjarnir bræði fylldir.“

79. Segir hinn: „Eg sver við þína sál ófeiga!
þar til dagar dvína mega,
dóttur þína besta að eiga.

80. Mér ei sómir morðingjum að mægjast þínum,
Tasíu skal eg elska eina,
ástum hinnar gleyma og leyna.“

81. Öðling faðmar ungan mann með ástarhendi,
tala vill, en – í því anda
uppgaf bestur stýrir landa.

82. Hilmis lík á herðar tekur hetjan fróma,
ber hann heim til borgar Róma,
býr nú um með tign og sóma.

XII 1–14 mansöngur (ferskeytt, hringhent eða víxlhent):

1. Kom þú, Braga brúðin góð,
í blóma himinklæða!
heilla dagar hressi þjóð!
harpan glymur kvæða.

2. Minna strengja hljómur hreinn,
hugar þrenging reyri;
kveð eg lengi, kveð eg einn,
kveður enginn fleiri.

3. Skinnaklæða hrundir hér,
(hverfur gæða efni),
hljóða og æða undan mér,
ef eg kvæðin nefni.

4. Heima forðum Fróni á
friðar góðu stundu,
bragar orðum betur hjá
blessuð fljóðin undu.

5. Hugar leyna máir mátt,
menju steina glóa,
man eg eina og þrái þrátt;
þau ei meinin gróa.

6. Þér ég gleymi aldrei, ó,
eyjar bráar dýna!
því tveggja heima heill og ró
hjá þér sá eg mína.

7. Þína ást eg aldrei þó
með orðum gjörði fala;
í huga sástu hvað mér bjó,
hvorugt þurfti að tala.

8. Þig til handa þá eg sá,
þegni öðrum ganga;
flúði eg landið frá þér þá,
flúði eg götu langa.

9. Flúði eg norður hálfu heims
og heiminn svo að kalla;
mér þú, skorðin glampa geims,
götu fylgir alla.

10. Veistu að nú í vetur hér
vildir bætur kenna,
dillaðir þú í draumi mér,
drósin nætur þrennar.

11. Eg þegjandi hengdi haus,
hræddist trúa öndin,
hvort mun andinn ljúfi laus
líkamans við böndin.

12. Og svo hingað hvarfla sér
hægt til drauma bóta,
yfir, kring og innra í mér,
á loftstraumum fljóta.

13. Eða mundir, linda lín,
lífs á götu þinni
þenkja stundum mjúkt til mín,
manns í útlegðinni.

14. Þegar þú heyrir, heillin mín,
hanann brúna gala,
ljáðu eyrun þessi þín!
um þig eg núna tala.

XVI 45–51 (skammhent):

45. Djúpt sig hneigir hirðir skjóma
hann svo spjalla réð:
„Heill þér — segir hann — hilmir Róma
hrósi allra með.“

46. Allt hvað skeði eins réð segja
ör að fregnum hann.
Númi á meðan þá réð þegja
því næst gegna vann:

47. „Þó mig höldar hylli og ginni
hveð sem skeður ger
yðar völdum ei ég sinni
eða héðan fer.

48. Fjallaskjól eg vænna virði
og værri á hér stað
um tignarstólinn hót ei hirði
hermdu frá mér það.“

49. Auðmjúkastur aftur vekur
óskir sendimann.
En Sóróaster tala tekur
til svo vendir hann:

50. „Þín er skylda, Númi, næsta
— nú þar lendir við —
fólkið milda orustuæsta
og því senda frið.

51. Ástin þína athöfn villir
en að því gáum hér
dóttir mín og hennar hylli
horfin frá þér er.“

XVII 1–10, mansöngur (stuðlafall):

1. Skal eg mega um skáldin nokkuð tala
fyrst eg er að erja við
óbúsæla handverkið?

2. Nafnið það menn naumast vinna kunna
fyrir það, að ríma rétt,
sem regla verður fyrir sett.

3. Orðfimni og æfður lengi vani,
gefur þessa góðu mennt,
þó geti máske fáir kennt.

4. Orð og þanka alla úr hinna bókum,
þegar láta þrykkta skrá,
þurfa slíkir jafnan fá.

5. Eins er það um útleggingu kvæða,
ef þekkir bæði þjóðmálin;
þetta gerir rímarinn.

6. Hinn er skáld; sem skapar, fæðir, málar
myndir þær í þanka sér,
sem þekktum aldrei forðum vér.

7. Hann sem sér, með hvössu sjónar báli,
hulda gegnum hugi manns,
og háa fræði skaparans.

8. Hann á allan heiminn til forráða,
býr á hauðri, himni og sjó,
en hæli ekkert festir þó.


RÍMUR AF TÍSTRAN OG INDÍÖNU

III 1–7 (afhending):

1. Viljiði stúlkur vísur heyra og vera kátar
en þar að auki lítillátar

2. skal ég yður skrifa bréf með skálda anda
og fyrir yður frammi standa.

3. Þó ég eigi dikti drósum dýra bragi
fyrir því allt má fara í lagi.

4. Það er af sem áður var að yrkja um Rósu
mína stirða mansöngsglósu.

5. Því ég veit að varla skeyta vísum linum
þeir sem lifa í heimi hinum.

6. Ég hef haldið heitorð mín því hýra vífi
meðan hún var hér á lífi.

7. Hýrri kvað ég hringagjörð í hægum tímum
mansöngva í mörgum rímum.


RÍMUR AF GÍSLA SÚRSSYNI

IV 13–24 (braghent, baksneitt):

13. Húsfreyjurnar hugsandi um hagi slæma,
réna létu ræðu gaman;
rauðar eins og blóð í framan.

14. Auður mælti: „Oss úr vöndu er að ráða.“
Ásgerður nam andsvör þýða:
„Ekki skal eg þessu kvíða.

15. Þegar ég með Þorkel leggst á þægum beði,
hendur um hans háls ég breiði,
hygg ég þá hann týni reiði.

16. Hann mun þetta halda vera höfuðlygi.“
„Aðferð þessi,“ Auður segir,
„ekki hygg eg duga megi.

17. Eg mun Gísla öll vor segja orða kvæði,
biðja hann svo bestu ráða,
í bólið þegar kem til náða.“

18. Gísli kom frá eyjum heim, þá húma náði,
Þorkell var með þungu geði,
þannig við hann Gísli téði:

19. „Mun þér frændi meint af sótt?“ hann máli sneri.
„Ver er mér, en veikum fari,
við um það ei tölum parið.“

20. Þorkell ekki þáði mat, en þá til hvílu
gengur hann, með gremju og fýlu,
getur notið fata skýlu.

21. Ásgerður nam einnig klæðin af sér taka,
niður vildi leggjast líka,
lagar bóndinn ræðu slíka:

22. „Ásett hefi ég eigi í nótt við yrðum bæði,
Ása mín, á einum beði.“
Aftur svara konan réði:

23. „Hverju gegnir, hætti skulum hafa nýja?“
„Sæmir best um það að þegja,“
þá nam aftur bóndinn segja.

24. „Síst þá mun ég,“ sagði fljóð, „til sængur troðast,
mér skal ekki meira leiðast,
máttu velja um kosti greiðast.“

V 13–23 (þríhent stikluvik):

13. Ekki gleymist Gísli mér;
gjörum þar að snúa:
kempan heima á Hóli er,
heldur illa dreyma fer.

14. Tvennar nætur sá í samt,
svefn þá efna hinir,
illa lætur, ei var tamt,
örlög sæta munu framt.

15. En nær þjóðin þriðju nátt,
þar að snarast beði,
veðra hljóðin meiða af mátt
mænis tróðu dýrið hátt.

16. Stormar veina um fjalla far,
flóða hríðir vatna,
loftið hvein og hristi þar
húsin, steina og grundirnar.

17. Vötnin spýtast ekru á;
órar vara storma,
þeirra hlíta þróttur má,
þakið slíta húsum frá.

18. Húsin flæða himinstraum,
hríðir stríðar vara,
konur æða og gera glaum,
garpar klæðin fengu naum.

19. Gísli spratt hinn frækni frá
fljótast heitum beði,
með sér hvatti sveina sá,
svo þeir hratt úr bænum gá.

20. Vésteinn inni og Auður þá
eru kyrr á beði,
og þræll, er sinna þjónkun á,
Þórður slinni nefnist sá.

21. Gísla allir aðrir með
úti bæta að heyjum,
storma svallið rymja réð,
og regnfall um svartnættið.

22. Hjótt og spakan heyra má,
um húsin geysar maður;
liggur vakinn Vésteinn þá,
voðum nakinn undir lá.

23. Eigi fregnast um hver bar
eiturskeytið kalda,
bæsing þegn á beði var
brjóstið gegnum lagður þar.

VI 15–31 (stuðlafall, frárímað frumhent):

15. Njótar lófa neggja hófu leika,
um sem vann ég vekja tal,
vetur þann í Haukadal.

16. Knattleik hafa huglar stafir linna,
Gísli má við Þorgrím þá
þreytast á og leikinn há.

17. Tíðum manna milli vann að bera,
hvor við mesta hreysti bjó,
halda flestir Gísla þó.

18. Á einni tjörn þeir eiga vörn og sóknir,
Vésteins hjá sá haugi var,
höldar knáir leika þar.

19. Einhvern dag, sem á er fagurviðri,
fjöldi manna fer á kreik,
úr fjörðum, þann að sækja leik.

20. Gísli tér: „Það gjörir mér að leiðast
Þorgrím einan etja við,
aðrir reyna komið þið.“

21. Þegnar inna: „Þetta sinn vér báðum
þig að sækjast Þorgrím við,
þar um flækist umtalið.

22. Hvor af yður afli miður stýri,
höldar segja að hlífist þú,
en hafðu ei þann vanda nú.

23. Allir þér vér unnum bera sóma,
afl ef meira er þér hjá,
álma freyri láttu sjá.“

24. Vitur tjáir: „Verða má það reynist.“
Síðan leikast seggir á,
sóknir eykur Gísli þá.

25. Vannst Þorgrími varla glíman betur,
hnöttinn missti, er halda á,
hauður kyssti fallinn þá.

26. Skinn af knúum skúfast nú og knjánum,
blóð úr vitum buna fer,
bjóður þvita mundar tér.

27. Að Vésteins haug hann velti auga og tjáði:
„Í sárum gnast, við guma stjá,
geir, en ekki lasta má.“

28. Knöttinn Gísli glímu sýsli tamur,
honum sendi herðar á,
hann svo endur falla má.

29. Og þá spjallar ullur mjalla handar:
„Böllur stalli byrðar á,
brast en varla lasta má.“

30. Þorkell tjáir: „Það hér sjáum allir,
hvor þar meiri máttar er
mækja freyr og best að sér.

31. Nú skal hætta hnattar slætti þessum.“
Við það linna leikarnir,
til landa sinna hver einn fer.

VIII 16–19 (langhent, víxlhent):

16. Þorstein myndu hefndir hræða,
því hrekki bráða kerling ól;
á Gísla fundinn gat að læðast,
gott þar náði þiggja skjól.

17. Síðan hirðir handar jaka
hefnd á meðan færi gaf,
í Borgarfirði far nam taka,
og fluttist héðan landi af.

18. Börkur frétti kynstur kyngja
kerlingar og þangað fer,
tekur gretta gríði hringa,
gat hún par ei forðað sér.

19. Í Saltnes færir Auðbjörg illa
yggur hæru friggjar sá,
steinum særist digur drylla,
dauðans klær svo gista má.

IX 17–26 (afhending):

17. Börkur, eftir bardagann, til bæja sneri,
hugar lítið gæskan greri.

18. Gísli fótar sárið sitt nam sjálfur binda,
heim svo sneri lundur linda.

19. Ferju mikla fær hann sér og ferma réði
ærnu fé á ála beði.

20. Einn hann fer með Auði sína, og Guðríði,
ferju heldur fram á víði.

21. Hestinn sjós við Haganesið hefti strengur,
heim að bænum Gísli gengur.

22. Heimamaður heitis spurði hetju snjalla,
órétt hann sig eitthvað kallar.

23. Kastar Gísli stórum steini að storðar bandi,
fram í hólma langt frá landi.

24. Bað hann segja bóndans nið það bragð að reyna,
hvort hann lengra hendi steina.

25. „Þá mun,“ kvað hann, „þykjast vita þegninn hraður,
hver hér verið hafi maður.“

26. En það var á engra færi eftir leika,
til skeiðar nam svo kappinn kreika.

XII 13–20 (stafhent, mishent):

13. Skipti manna bauð í ból
bóndinn hrannar ljóma sól,
öllum klæðum fleti frá
fyrst hann ræður kasta þá.

14. Gísli hjálminn auðan á
yggur skálma lagði þá,
síðan klæði og sængum hann
særðan slæðir yfir mann.

15. Ofan á þetta allt saman
út af slettist húsfreyjan,
ljótu sprundi lag er á,
liggja undir Gísli má.

16. Flokkinn kvenna eg bestan bið,
í brjósti að kenna um mannvalið.
Refur þá við ristil tér:
„Ráð nú má eg leggja þér.

17. Ef hingað æða illmennin,
opnaðu bæði munnvikin,
ældu flestum orðum þá,
eins og best þér takast má.

18. Háðung alla, hark og blót,
hátt skalt kalla þeim á mót,
þetta sinn, ef svalar þér,
seinna kynnir hlífa mér.“

19. Um þær stundir átta manns
inn af skunda dyrum ranns.
Refur leitar frétta frí,
firðar beita svari því:

20. „Vont er okkar vega skil,
veistu nokkuð Gísla til,
bælist ei í bænum sá?“
Bóndinn segir: „Langt er frá.“

XIV 16–25 (ferskeytt, frumhent):

16. Sagna þáttum fram svo fer,
flóa týrinn eima,
sumar nátt þá síðust er,
situr Gísli heima.

17. Ekki blund í bænum má
bóndinn hrelldur taka,
silki grundir honum hjá
hryggvar báðar vaka.

18. Í fylgsni undir kleifar kann
konum ganga meður,
það að blunda hyggur hann,
hreint og bjart er veður.

19. Kyrtli réðu klæðast fljóð,
kuldinn skyldi ei baga,
honum með þær helju slóð
húsa milli draga.

20. Gísli kefli í höndum hélt,
heflar það til rúna,
spóna skeflur fær hann fellt
í förin þeirra núna.

21. Hann og sprundin hæli ná,
hlynur mána strauma
fýsti blund í fylgsni þá,
og fær nú slíka drauma:

22. Í fugla líki læmingjar
leynt um húsin krjúpa;
eru slíkir ásýndar
öllu meiri en rjúpa.

23. Volgu blóði volkaðir
voru og létu illa;
úti hljóð nú heyrast fer,
höfga má hann spilla.

24. Eyjólf kenna kominn þar;
kunni fæði ylgja,
fimmtán menn, þeim verstur var,
vopnum búnir fylgja.

25. Kyrtla slóðann kvenna þeir
kunnu að fylgsni þræða;
upp þá stóð og girðist geir
Gísli kempan skæða.


LÍKAFRÓNSRÍMUR

IV 11, 14 (nýhent, frumhent):

11. Líkafrón og lagsmenn tveir,
ljósin dags nær fá að skoða,
kveðja hjón, og því næst þeir
þaðan undir fjöllin troða.

...

14. Ill var færð og óhrein leið,
útilegumenn og tröllin,
byggðu ærð, um bratta heið,
bönnuðu mönnum leið um fjöllin.


VÍGLUNDAR RÍMUR

III 11–19, 25–27, 30–34, 36–38 (nýhent, víxlhent):

11. Hrynum spúði Hræsvelgur,
hróðug greiðir bylgjutröfin,
þegar prúði Þorgrímur
þandi skeiðir yfir höfin.

12. Að Norveg settu sjóhestar;
svinnur veitir stjörnu hylja
öðrum frétti að Ólöf var
eignarheitin móti vilja.

13. Kóngs sér beiðir lið að ljá,
lundin svall af ást og bræði,
baugaheiði burt að ná,
bóndi og jarl þótt móti stæði.

14. Undan skorast vísir vann,
vinskap Ketils rækir fremur;
svo fram bera svörin vann:
„Soddan ei að haldi kemur —

15. Við hann etja ei mun tjá,
álfinn branda frægðir styðja;
en dóttur Ketill eina á,
sem eg til handa þér mun biðja.“

16. Viðris tjalda viður tér:
„Vil eg þín ei ráðin nýta;
við Ólöfu halda eg ætla mér
eiða mína, en hvergi slíta.

17. Ef eg nái ei að fá
ágætt sprund, sem til eg vona,
mína skal þá arma á
engar stundir leggjast kona.

18. Þér ei fremur þjóna vil,
þar ei dáðir viltu sýna.“
Milding semur málaskil:
„Máttu ráða um hagi þína.“

19. Hetjan unga orðaslyng
öðling kveður; ríkur tiggi
merkurþungan handarhring,
hetjan biður af sér þiggi.
...

25. Grímur þá kom gólfið á,
gestur sá var boðinn ekki;
mörgum brá er manninn sá,
mæla náir kappinn þekki:

26. „Er þér, Ketill, Ólöf fest
orðum hennar með og vilja?“
Bóndinn metinn góðum gest
gjörði senn á móti þylja:

27. „Þórir fljóðið festi mér,
frekast slíku mun hann ráða,
litlar bjóðast þakkir þér,
þótt eg píku eignist fjáða.“

...

30. „Þú skalt aldrei fljóðið fá,“
fleytir Ketill orðum þráum.
„Skilja baldur álma á,
undan lét eg manni fáum.“

31. „Garpar þora,“ Grímur tér,
„grobbið reyna þitt og hendur;
á hólm eg skora hrikinn þér,
hafi meyna sá sem stendur.“

32. „Þess skal njóta,“ Ketill kvað,
„kappa næga hefi eg inni;
héðan fljótast farðu á stað,
fyrr en dægur ævi linni.“

33. Gyðjan Freyja Gimli á
sem glæðir blíðar tilfinningar
nú með eigin augum sá
ástarstríðið brúði þvingar.

34. Tók sem á, af hvítum hauk
ham, og brá nú skjótast viður,
loftið bláa straumi strauk
og stefndi þá til jarðar niður.

...

36. Varð í ranni þoka þá
þar sem vangi fálkinn skekur,
ekkert manna augað sá,
óttinn fanga brjóstin tekur.

37. Grímur fann þó fljóð sem ann,
faðmar þá í arma báða,
út úr ranni hvatar hann,
hinir sjá ei reyni dáða.

38. Inni hrindast hinir mest
haukurinn góði líður þaðan;
ljós í skyndi síðan sést
sá nú þjóðin líka skaðann.

VI 16–23 (braghent, samrímað eða baksneitt):

16. Hólmkell segir: „Hitt mér þykir henta betur
að hafi fljóð á Hóli setur —“
húsfreyjan þá ræðu hvetur:

17. „Hingað skal nú heim til vor sú hýra píka,
þó ég eigi sjálf að sækja
sáðjörðina mána lækja.

18. Vil eg eigi Víglundur þá væli brúði
heldur kýs að Hákon fríði
henni giftist nú með prýði.“

19. Hólmkell það í huga veit, að hún mun enda
eftir brúði sjálf að senda —
sá nam því að Hóli venda.

20. Grímur fagnar hraustum hal með hverja prýði;
Víglundur sem vanda kvíði
veik á tal við Ketilríði.

21. „Hér er kominn Hólmkell en mér hugur segir
að þú heim með honum eigir
og hlýðin þessu vera megir.

22. Okkar samt þig ætíð láttu eiða minna
því aldrei muntu, afbragð kvenna,
úr ástarheitu brjósti renna.“

23. Gegnir honum fríðast fljóð og fór að gráta:
„Forlög munu á bága brjóta
að blíðu þinnar fái njóta.

VIII 11–20 (gagaraljóð, víxlhent og oddhent):

11. Hákon þá er hniginn lá,
og hetjan móð á velli stóð,
Jökull brá sér beinin á,
blossa tróð að stjörnu rjóð.

12. Illur dárinn ei var sár
eða móður vals á lóð,
heiftargrár sem argur ár
Óma hróðugt veifar glóð.

13. Berjast þeir nú báðir tveir,
bestum dreng þó lá við spreng;
þeirra heyrist hvína geir
heldur lengi um sóknareng.

14. Enginn má á milli sjá
mækjaþrá hvor vinni sá:
sverðin grá við hlífar há
hljóða þá og fljúgast á.

15. Víglund blæðir allmörg æð,
Óðinsglæða veldur fæð,
bugar mæðin brjóstið skæð,
blóð um flæðir sóknarhæð.

16. Í loftið háa hetja frá
hjörnum þá og skildi brá,
Hildur grá þó herði stjá,
í höndum sá þeim skipta má.

17. Í hægri rönd, en vígavönd
vinstri brá sem skjótast þá:
aðra hönd við hlífagrönd
hjörinn tá af Jökli þá.

18. Undan gekk sá grandið fékk,
gat ei eftir hetjan keppt,
finnur rekkur fíls á bekk,
fár sem heftir, spjótið skeft.

19. Eftir skaut þeim æddi braut,
á nam miða herðasvið:
Jökull laut, því fleinninn flaut
fram um kvið á gríðarnið.

20. Allir spá, að spekist sá,
spjóti á sem hniginn lá:
varð að nái fýlan flá —
feginn má eg segja já.

IX 17–25 (úrkast, frumhent):

17. „Biðjið þið með blíðuskrafi
bræður harða
að flytja yður yfir hafið
Ísajarðar.“

18. Klæðagrundin Ketilríður
kafin trega,
um þær stundir angur líður
alla vega.

19. Langar nætur vífið vakir
vafin banni
sat og grætur svanninn spaki
í saumaranni.

20. Um þá nótt er bræður búast
burt frá Hóli
báðir fljótt að Fossi snúa
faxastóli.

21. Fundu bragnar foldu rjóða
Freyju trega:
hlýrum fagnar haddatróða
hjartanlega.

22. Svörin stillir seims við viði
svanninn hæfi:
„Funda milli finnst mér liðin
fyrna æfi.

23. Samt eg kætist loks að líta
á lífi báða,
margar nætur mátti sýta
mærin þjáða.“

24. Sest hjá sprundi svo Víglundur
sæll að kjörum
segja mundi sörvagrundu
af sínum förum.

25. Sagðist una svanninn því
og síðan tjáði:
„Aldrei mun eg amafrí
að ástaráði.“


BREIÐFIRÐINGAVÍSUR

eftir Ólínu Andrésdóttur (1858–1935)

(samhent, hagkveðlingaháttur)

1. Gyllir sjóinn sunna rík,
sveipast ró um Faxavík.
Esjan glóir gulli lík,
gleði bjó mér fegurð slík.

2. Samt ég allra svásast finn
sólarfall við Jökulinn;
vermist mjallar vanginn þinn,
vesturfjalla kóngurinn.

3. Í landsins hjarta lifði þar
ljósið margt, sem fegurð bar.
Nú er bjart við Breiðamar,
búinn skarti kveldsólar.

4. Munu enn á æskuslóð
afbragðsmenn og tignarfljóð,
í sem rennur breiðfirskt blóð,
brim í senn og ástarglóð?

5. Breiða- fyrst á firðinum
fékk ég vist á bátunum
hjá aflaþyrstum, þrekmiklum
þrauta og lista formönnum.

6. Bundu þeir ærinn ægiskraft,
að þó bæri lagið knappt,
eins og þeim væri’ í eðli skapt,
afl að færa á brimið haft.

7. Happalúkum hraðvirkum
þeir hækkuðu dúk á bátunum,
létu fjúka í ferhendum
og fram hjá strjúka holskeflum.

8. Faldasunna sál var heið,
þær saumuðu, spunnu, stýrðu skeið,
þeim var kunnug láar leið,
lögð yfir grunna svæðin breið.

9. Öllum stundum starfsamar,
styrkum mundum konurnar,
ýttu á sundin árarmar,
öxluðu og bundu sáturnar.

10. Hyldu ísar hafflötinn,
hætti að lýsa dagurinn,
ljóðadísin leit þá inn,
lagaði vísur hugurinn.

11. Hver sér réði rökkrum í,
rétt á meðan áttum frí;
þá var kveðið kútinn í,
kviknaði gleði oft af því.

12. Vetrar löngu vökurnar
vóru öngum þungbærar,
við ljóðasöng og sögurnar
söfnuðust föngin unaðar.

13. Ein þegar vatt og önnur spann,
iðnin hvatti vefarann,
þá var glatt í góðum rann,
gæfan spratt við arin þann.

14. Teygjast lét ég lopann minn;
ljóða metinn söngvarinn
þuldi hetju þrekvirkin;
þá var setinn bekkurinn.

15. Þar frá landi lífs míns far
lagði í andbyr gæfunnar.
Fyrir handan fjöll og mar
fann ég strandir ókunnar.

16. Gefa þér hygg ég hjarta og önd,
hugurinn tryggir sér þín lönd.
Æ meðan byggist ey og strönd,
yfir þig skyggi Drottins hönd.


RÍMUR AF BERNÓTUS BORNEYJARKAPPA

eftir Magnús Jónsson í Magnússkógum (1763–1840)

IV 15–18 (braghent, baksneitt):
15. Grátfegin varð reflarist og réði greina:
„Mér er það nú mest til rauna,
megna ekki neinu launa.

16. Sé eg það, að sorg þú berð í sinnu ranni.
Hermdu frá því, halurinn svinni,
hvað ógleði veldur þinni.

17. Eður hvers af öllu helst þú æskja mundir,
lát mig heyra.“ – Laufabendir
listaríkur svarar kvendi:

18. „Öllu fremur óska eg, að öðlings dóttur
Faustínu eg finna mætti;
fálu veðurs mein það bætti.“

VI 17–24 (stikluvik, hringhent):
17. Akron sagði feðgum frá
fylkis bragði illu,
vart um þagði vonsku þá,
vald sig lagði þeirra á.

18. Sagðist vilja seims við njót
síðan skilja aldrei,
eður dylja hlýðnishót
hvað sem bylja næði mót.

19. Náði jarlinn nýtan við
niðja spjalli hreifa:
„Hér á hjalli, þenki eg, þið
þurfið valla hafa bið.

20. Eftir fjöri ykkar snart
öðling gjörir sækja,
lýð til kjörinn lands óspart
lætur hjörinn reyna hart.

21. Illa sóma má það mér,
megn ef róma skeður,
móti fróma fóstbróðir
fara, og skjóma reyna hér.

22. Til jarldæmis hóf mig hann,
heiðri sæmir stórum;
illa ræmist, ef við þann
öðling kæmi friðar bann.“

23. Spyrja fjáðan föður réð
fofnisláða viður,
hvað til ráða honum með
hirðir dáða gæti séð.

VIII 13–26 (ferskeytt, hringhenda):

13. Söng í reiða kífinn kár,
kólgur freyða stórar,
Ekkilsheiða yfir flár
öldu skeiða jórar.

14. Sigla drengir dag sem nátt
djúpt um engi þöngla,
rárnar lengi hljóða hátt,
hjól og strengir söngla.

15. Kár með jöfnum þrótti þar
þá um nöfnur úðar
brátt að höfnum Borneyjar
beindi hröfnum súðar.

16. Fleinar hníga fljótt til grunns,
flet í síga reyðar,
svo af stíga hestum hlunns
horskir vígameiðar.

17. Upp á grundu einstig fann
öðlingskundur téður,
komst svo undir kastalann
kesjuþunda meður.

18. Hátt upp gerði hrópa þar
hoskur skerðir fleina:
„Býð eg verði Borneyjar
brynju og sverð að reyna.“

19. Hróp í staðinn heyrði þá
hirðir naðurs þetta,
múrinn gengur glaður á,
gerði hraður frétta:

20. „Hver er gildi seggur senn,
sem oss hildi býður?“
Svara vildi aftur enn
arfi mildings fríður:

21. „Kóngsins niður Lýdia-lands,
lukkan styður fróma,
Kaston yður, beitir brands!
býður hviðu skjóma.“

22. Spurning ferjar máls um mið
mána Herjans beitir:
„Sakir hverjar hef eg við
höggvisskerja veitir?

23. Manni ókenndum með ófrið
mér á hendur reisir.“
Orku-vendur utan bið
úr því sendur leysir:

24. „Fylkir stífi í Frýgíá,
Fofnisþýfi hlaðinn,
bað þig lífi leiða frá,
lofaði vífi í staðinn.“

25. Ægisbálaullur spyr
eyði stála ríkan:
„Var þá nálavefjan kyrr
við skilmála slíkan?“

26. Hinn réð spjalla hjals af urð
hirði gjallars téði:
„Hún var valla hér að spurð;
hilmir snjall því réði.“

IX 57–73 (hagkveðlingaháttur):

57. Bylgjan spýtti boðunum
byrjar títt í hroðunum;
veðrið strítt í voðunum
ver, sem flýtti gnoðunum.

58. Súða lýsti af sólunum
síla víst á bólunum,
einatt tísti í ólunum,
að sem þrýstu hjólunum.

59. Lét á seiðalöndunum
lægis skeiða bröndunum;
áls á heiða öndunum
í hvein reiða böndunum.

60. Skemmti sóninn skötnum sá
skerjalóni djúpu á,
þar til fróni Frýgíá
fögur ljónin mastra ná.

61. Brátt fallandi byrjarföld,
bíta sandinn akker köld;
svo á landi setur öld
sín ljómandi fögur tjöld.

62. Vörður lýða fær þá frétt;
frægum býður sjóla rétt
heim um ríða hauðrið slétt,
hallar prýða sæti nett.

63. Boðið þáði saddur seim
sjóli, og náði ferðast heim;
höndum fjáðum tiggi tveim
taka gáði móti beim.

64. Sjóli ágætur sér við mund
setjast lætur gram um stund;
yndisbætur lífga lund,
lánast mætu kerasund.

65. Staupin bera þegnar þar;
þjóðir gerast ölvaðar;
góms um þverar grundirnar
gengu kera elfurnar.

66. Gramur kenndur glaður tér
geirs við bendi, frægð sem ber:
„Hvert erindi eigið þér
Óma á kvendi til vor hér?“

67. Stýrir lýða orðaör
ormahlíða svarar bör:
„Biðja um fríða baugavör,
best er smíðar yndiskjör.

68. Það er yðar dóttir dýr,
dyggðasiðar blóminn skýr,
sem til miðar hugur hýr
hjálmaviðar ekki rýr.“

69. Gylfi fljótur gegna vann:
„Gef eg snót og ríkis ann
álmanjóti, æfibann
ef Bernóti vinna kann.“

70. Mót öðlingi hóf upp hljóð
hilmir slyngur máls af slóð:
„Hans jafningi, hermir þjóð,
hjörs á þingi enginn stóð.

71. Vígi öruggt hafi hann,
herma gjörir þjóð með sann,
og til kjörinn margan mann,
mjög við hjörinn týhraustan.

72. Frek þó heita furða má,
ef fleygir skeyta megnar sá
styrjar veita vörn í þrá,
vel ef leita margir á.

73. Þetta reyna þó eg vil,
þeirra greina ef ljáið til
mistilteinameiða og fyl
mars í fleina harðan byl.“


SVEINN PÁLSSON OG KÓPUR

eftir Grím Thomsen (1820–1896)

(ferskeytt)

1. „Ófær sýnist áin mér,
állinn þessa verstur,
stóra jaka straumur ber,
stendur hann enginn hestur.

2. Áin hljóp, sem oft til ber
eftir milda vetra;
vertu í nótt, því vísast er,
að verði á morgun betra.“

3. „Væri ei nauðsyn næsta brýn,
náttstað yrði eg feginn,
en kona í barnsnauð bíður mín
banvæn hinumegin.“

4. „Skal þá, læknir, ljá þér Kóp,
láttu hann alveg ráða;
honum, sem fljóði fóstrið skóp,
fel eg ykkur báða.“

5. Vandlega kannar Kópur straum,
í kvíslina drepur grönum;
slakan lætur læknir taum
leiðratanda vönum.

6. Var í strengnum stríðast fall,
straums í ólgu halla
jakabólgin bylgjan svall,
blakk þó hrakti valla.

7. Óð hægt Kópur. Yfir skall,
æðar jökuls þjóta,
drengs þó hjarta drap ei stall,
drösull missti ei fóta.

8. Reyndi á beinin föst og fim
flaums í þriðja svipnum;
líkt og á skeri brýtur brim,
braut á stólpagripnum.

9. Komst þá Sveinn í krappan dans,
Kópur skalf á beinum,
er hann náði loks til lands
laminn jökulfleinum.

10. Af eðli göfgu fákur fann,
fæti að mátti ei skeika,
læknir skyldu verkið vann,
verkið mannkærleika.

11. Úr barns og móður bætti hann þraut,
blessun upp því skar hann,
önnur laun hann engin hlaut,
ánægður þó var hann.

12. Þó að liggi lífið á,
láta þeir núna bíða
í jökulhlaupi Jökulsá
og jakaburði að ríða.


DRAUMUR HALLBJARNAR BERGMANN

eftir Hallbjörn Bergmann Björnsson (1855–1925)

(ferskeytt, hringhent)

Drauma undur orðið hér
um það grundum stöku
fleina þundur einn sem er
ern í blundi og vöku.

Í háseta hýsi fann
hvíld ómetinn undi
um skal getið eitt sinn hann
illa lét í blundi.

Svitableytu hnyklótt haf
hal af feitum dundi
mikilleitur, megni af,
mæðu og þreytu stundi

Halur snar þá vakinn var
viður svarar glauminn
firða skarann fyrir þar
fram svo bar hann drauminn.

Himingeima hulinn veg
hugurinn sveimar gladdur
þegar dreymir, því að ég
þóttist heima staddur.

Bænum hjá ég þóttist þá
þeli stjá með gljúpu
mæni háum hússins á
hvíta sá ég rjúpu.

Um hana glitið rósa rann
roða litað baugum
firðar viti að fegri en þann
fugl hef ei litið augum.

Numinn frá mér hreint varð hér
hyggju þá um teiga
físn varð áköf fyrir mér
fuglinum ná og eiga.

Flatur skríða fór ég þá
föt þó níða kynni
fuglinum síðan fékk ég náð
í fullri prýði sinni.

Enskur hundur þar kom þá
þeigi lundar hægur
hugurinn grundar: garmur sá
grimmur mundi og slægur.

Vildi frá mér fögrum hann
fugli ná og bíta
hann ég knáast verja vann
varð mér þá að hlýta.

Glennti hramma, hala skók
hauðrið þrammar gleiður
sókn allramma sá mér jók
svartur og kjamma breiður.

Rakkinn barði reif og sló
reynt hér varð um stundu
aðsókn harða en ég þó
annarri varðist mundu.

Handar var mín hreint orðlögð
hreysti, þar frá inni,
reyndi ég snar mín rómu brögð
rjúpuna bar í hinni.

Reif hann klæði margföld mín
mettur bræði og trega
grettið bæði og grimmlegt trýn
geipaði hræðilega.

Hart fram sótti síðan þá
sinnið rótt ei nýtti
loksins flótta lagði hann á
löppunum óttinn flýtti.


VÍSUR

eftir Gísla Gíslason

(ferskeytt, hringhent)

Lúinn hrærist lífs um stig
lundur hærist geira
árin færast yfir mig
alltaf lærist meira.

Ella myndi lífið leitt
lítið yndi og gaman
ef ég fyndi ekki neitt
eða bindi saman.


LJÓÐABRÉF FRÁ ERLENDI Í NAUSTI TIL SIGFÚSAR Í FLATEY

eftir Óskar Arinbjörnsson (1889–1954)

(ferskeytt)

Fékk ég bréf þitt, Fúsi minn,
sem fjallaði um kreppu og gengið
en hitt er verra að húsviðinn
hef ég engan fengið.

Heilræðin ég þakka þér
þau skal hafa í minni
en góður varstu að gefa mér
gagnið af reynslu þinni.

Holdið meyja heitt og mjúkt
hálfa næring gefur
því hefur orðið þér svo drjúgt
það sem þénast hefur.

Kennt mun hafa þörfin þér
þínum tota að ota
enda kanntu meira mér
miðstöðvar að nota.

Ég vil spyrja ef ég má
og þú vilt mig fræða:
Kanntu líka listina þá
að lifa án húsa og klæða?

Ég má þreyja einn á strönd
oft mig beygja rokin
þú í eyjum heitri hönd
hýrrar meyjar strokinn.

Kofann hríðar hrista minn
hugarstríð sem boðar
heiminn blíða þegar þinn
þú án kvíða skoðar.

Þegar höldum hinsta haust
heim úr jarðleiksveri
eitt við setjum upp í naust
ósjófæra kneri.

Á einu merkist munurinn
á mönnum, herrum, þjónum
hverjir betur baggann sinn
bera þá frá sjónum.

Kjörin lífsins landi á
lát þig ekki hryggja
við skulum kannski kofa þá
hver með öðrum byggja.

Einn fyrir mig ef efni er til
annan þér til handa
en til beggja eins ég vil
að öllu leyti vanda.

Um efnið ræði ég ekki í bráð
úr sem byggja megi
en illa tálgað hárbeitt háð
hafa mun ég eigi.

Óglöggt lengra eygi veg
út í tilveruna
svo ei fleira segi ég
en sitt af hvoru gruna.

Svo kveð ég þig, Sigfús minn,
samt með rýrðu trausti
ævinlega er ég þinn
Erlendur í Nausti.


FJÖRULALLABRAGUR

eftir Martein Gíslason (1908–1941) (brot)

(nýhent, hringhent)

Fjörulallar fóru á kreik
frekt þó hallað var af degi
heim þeir dralla og hyggja á leik
héldu að karlar svæfu eigi.

Var þar fótum enginn á
allir hrjóta vært í náðum
drauma ljóta dreymdi þá
drengjum þrjóta værðir bráðum.

Dýrin börðu og rifu af rögg
rekkar gjörðu værðir þrjóta
hristist jörð við hramma högg
húsið spöruðu ei að brjóta.

Angaði pestin óvætt frá
óaði flestum, það má letra,
einn þó mestur er að sjá
eins og hestur tíu vetra.


ÁRSTÍÐAVÍSUR

eftir Þorgils Þorgilsson (1884–1971)

(ferskeytt, hringhent)

Vor

Vorsins blíða lýða lund
lífgar, kvíða ei seður
fuglar víða flökta um grund
fjaðraprýði meður.

Fuglasveimur furðudátt
frúr og beima gleður
lofts um geiminn líða þrátt
ljóðahreimi meður.

Geislar ljóma um grund og haf
glöðum rómi er sungið
loftið hljómar lífi af
lífsins ómi þrungið.

Grænkar víða grund að sjá
grösin fríð fá völdin
lækir hlíðum líða frá
liljum skríðist fjöldinn.

Vallar gróin grundin mær
gufar upp snjór um heiðar
líður um sjóinn léttur blær
laufgast skógarmeiðar.

Skepnur fyrst þá fara á stjá
fagran gista haga
sínar listir leika þá
lausar við vistaraga.

Úti við bláan úthafssjá
eygló náir vaka
á heiðar gráa þokan þá
þéttum stráir raka.

Sumar

Að sumars blíða svífur tíð
síst fer að líða að kvíða
blómum skrýðist brekkan fríð
blómsturhlíðar fríðar.

Unaðs hljómar um þá tíð
upprættur drómi kífsins
anga blómin undurfríð
allt er í blóma lífsins.

Svífur njóla af sjónarhól
af sævarbóli upp hafin
glitrar fjóla um grund og hól
geislum sólar vafin.

Rösklega slegið og rakað er
reitt heim hey af engi
knálega dregið, keppst við er
kveldinu er fegið mengi.

Haust

Sumri hallar haustar þá
hvín í fjalli og klifi
blómin vallar blikna smá
byrgð í mjallardrifi.

Vindar þræða um voga og strönd
valda ónæði tíðum
bylgjur að flæða og brjóta upp lönd
með býsna skæðum hríðum.

Hjarðsveinskall um hól og fjall
svo hrín í mjallarklíðum
árnar falla stall af stall
straums með falli tíðum.

Vetur

Þá vetur klæðist kufl sinn í
klaka þræðir sína
fellur á svæði fönn á ný
fegurð og gæði dvína.

Bifast land við brimsins gný
blómum grandar klakinn
fannir standa fjöllum í
af frera er grandinn þakinn.

Þá vetri út hallar vermir sól
víkja mjalla bungur
sér á hjalla og sérhvern hól
svella falla klungur.

Vors þá blíða að víkur stund
vandar þýðum blænum
sérhver hlíð á svipri grund
serki skríðist grænum.


KVÖLDVÍSUR

eftir Símon Bjarnarson Dalaskáld (1844–1916)

(ferskeytt)

Af því nú er komið kvöld
og kærstur liðinn dagur,
rennur undir rekkjutjöld
röðull klæðafagur.

Sál mín brynni af Sjafnar eld,
sæl um njólu stundir,
ef hjá mér rynni hlý um kveld
hringa sólin undir.


BJARTIR MORGNAR

eftir Stefán frá Hvítadal (1887–1933)

(hringhent)

Vora tekur. Árla er.
Æskan rekur gullna þræði.
Sólin vekur, gegnum gler,
geislum þekur rekkjuklæði.

Sálin hressist, fær nú frið.
Feigð úr sessi hné í valinn.
Flutt er messa. Vaknið við.
Vorið blessar yfir dalinn.

Gekk þar lengi stað úr stað,
stukku hengjur blárra mjalla.
Víða þrengir vetri að,
vorið gengur nú til fjalla.

Lækir flæða, hækka hreim.
Hugljúf kvæði skap mitt yngja.
Engin mæði amar þeim.
Æskubræður mínir syngja.

Árglöð kalla ærslin þar,
yngist sjálfur vori feginn.
Hálfar falla hendingar,
hoppa álfar fram á veginn.


FRAM TIL HEIÐA

eftir Stefán frá Hvítadal (brot)

(nýhent, hringhent)

Vængir blaka, hefjast hátt,
heiði taka, þrárnar seiða.
Sólheit vakir sunnanátt,
svanir kvaka fram til heiða.

Blána fjöll og birtir nótt,
brak og sköll um heiðarlendur.
Vatnaföllin vaxa ótt,
vetur höllum fæti stendur.

Týnast rökin — vonlaus vörn.
Vor kann tökin, fannir sjatna.
Sveimar vökull auðnarörn
yfir þökum silungsvatna.

Gott um veiði, gnægðir þar,
grænar breiður undan fönnum.
Eitt sinn heiðaauðnin var
eina leiðin sekum mönnum.

Þessum hlóðu örlög óð,
einir stóðu, lögin fengu.
Drifnir blóði daggarslóð
dalsins hljóðu synir gengu.


VÍSUR UM HORNSTRANDIR

(ferskeytt, víxlhent/hringhent)

Þaðan yfir fór ég fjöll
frekar þandi göngu
fönnum drifin alveg öll
á Hornstrandir löngu.

Mjög eru tvennslags þjóðir þar
því á fenna láði
skýrleiksmenn og skrælingja
skjótt ég kenna náði.


GRÁNUVÍSUR

eftir Ásgrím Sigurðsson (1856–1936)

(ferskeytt, hrinhent)

Margt vill hrella huga og hold
heims er brellinn siður.
Fyrir elli ofar mold
allt má skellast niður.

Hörð mig þjáir hugar pín
hvergi eg nái þreyja,
hryssan gráa mátti mín,
sem margur fá að deyja.

Hún var ættuð Fljótum frá
firða kætti tíðum,
en kynþætti eg um þá
ei fékk rætt hjá lýðum.

Hún var lengi lífs á slóð
lista gengi búin.
Geðs um engi gladdi þjóð
galla strengjum rúin.

Hennar víða ei myndast mynd
á mótum þýðum vega.
Búin prýði beislahind
bar mig prýðilega.

Gild og há var hún að sjá
heldur kná því var hún
lýðum hjá því lýsa má
litinn gráa bar hún.

Harma felldi hófa ljón
hlín hjá elda laga,
er þaut sem elding yfir frón
eins um kveld sem daga.

Tauma mundum teygði frá
týru sunda lundi,
á reiðarfundum fremst var þá
fleiðraðist grundin undir.

Blak ei þoldi af keyriknút
kvalráð voldugt mannsins
þá nam holdið þrútna út
þyrlaðist moldin landsins.

Undan fótum grýttist grjót
geist að njótum sverða,
eins var fljót sem elding skjót
á reiðmótum ferða.

Bragna óslaka bar hún vel
bakkar taka að skjálfa,
sprengdi klaka, mold og mel
molaðist þakið álfa.

Geðs af róti gnúði mél
og grimmdar hótum stundi
leiftur þjóta lands um mel
logaði fótum undir.

Hvort hún þaut um for og fell
að fagrar lautir rynni
aldrei hnaut þar eða féll
ævibraut á sinni.

Kvæðið linna læt ég hér
lítt sem kynnir vana.
Gránu minning úti er
aldrei finn ég hana.

Nú er ég Gránu orðinn án
ei má Gránu finna.
Seinna af Gránu síst hef lán
sakna ég Gránu minnar.


FJALLIÐ FAGRA

eftir Sigurð Breiðfjörð (brot)

(langhent, víxlhent)

1. Hér er yndi á háu fjalli
að horfa um unn og jarðar mó,
og lepja í vinda léttu falli
loftið þunna úr veðra sjó.

2. Vinda andi í vöggum sefur,
vogar þegja og hlýða á,
haf um landið hendur vefur
hvítt, og spegilslétt að sjá.

3. Straumar bindast brjóstum landa,
– beggja hlýna vingan má;
eyjar synda, sofa, standa
silfurdýnum Ránar á.

4. Ekki úr sporum blómstur bærast,
– brjóst þeim gefa foldin kann;
vindar þora ei hót að hrærast,
því heilög sefur náttúran.

5. Fossar skauta fjalla stöllum,
flytja í boga vötnin þunn;
lækir tauta í lágum föllum
og læðast voga fram í munn.


RÍMUR AF REIMARI OG FAL

eftir Hákon Hákonarson (1793–1863)

XIII 15–19, 25–28 (hagkveðlingaháttur)

15. Reimar fyrst og Fal eg tel,
fólkið kvista vígs um mel,
báðir lista börðust vel,
blóðugan hrista dragvendil.

16. Ruddu braut í fylking fram
fleinagautar blóðs um damm,
margur hlaut þá skálkur skamm
og skaðaþraut við hrottaglamm.

17. Blóðið þrátt af lýðum lak,
linaðist sátt við geira blak,
heyra mátti bresti og brak,
brandaþátts við yfirtak.

18. Hers var munur lands um leir,
lítt þó uni kappar tveir,
kóngsins hrunu höldar meir,
hjörs við dunur svæfðust þeir.

19. Falur sér að fylkis þjóð
falla gerir vígs um lóð,
fram í herinn áfram óð
yggjar ber í hendi glóð.

...

25. Flötu merki fleygja réð
Falur sterki vígs um beð,
löndungsherki mætur með
mengið lerka heljar téð.

26. Samson hrellir sókndjarfur
sveit á velli blóðdreifður,
neyð þó hrelli niflungsbur
nærri fellur óvígur.

27. Reimar meiddi mengi á grund,
mörgum eyddi stálaþund,
frægðir greiddi fylkismund,
fimmtíu deyddi á litlri stund.

28. Höggin stóru hvínandi
hjálms var þórinn sýnandi,
til heljar fóru hrínandi,
hinir vóru blínandi.


HJÁLMARSKVIÐA

eftir Sigurð Bjarnason (1841–1865) (brot)

(ferskeytt, hringhent)

66. Roðnaði klára hetjan há
hug af sáravörmum;
ljósa báru Þrúðar þá
þerrði tár af hvörmum.

...

77. Fór nú korða Fengur á
fákinn borða valda;
eftir horfði honum þá
hrygga skorðan falda.

78. Svona orðum svifar þá
silkiborða Nanna:
„Varla forða feigum má,
forlög skorðuð banna.“

...

82. Falda Borgund beið ei hjá
báru torgi lengur,
hjúpuð sorga hreggi þá
heim til borgar gengur.


RÍMUR AF ANDRA JARLI

eftir Hannes Bjarnason (1776–1838)

V 13, 28–29 (braghent, samrímað, samhent (skjálfhent))

13. Andri snar drakk inni þar með ítum sínum,
og þjóðirnar hjá þengli fínum
sem þjáður var af lyndis pínum.

...

28. Drekkur skarinn drótta þar með dans og kæti.
Nú vaktarar ljót með læti,
litu fara mann um stræti.

29. Geist sá æddi, grand ei hræddist gaura skarann,
svörtum klæddur kufli var hann,
kylfu ómæddur gadda bar hann.


SIGLINGAVÍSUR

(ferskeytt, hringhent)

Hranna skríður hesturinn
hafs úr stríðu róti
Siglu- fríði fjörðurinn
faðminn býður móti.

Voðir teygja veðrin hörð
vart þótt fleygið kafi.
Inn á Eyja- fagran fjörð
framan úr reginhafi.

            (Ásgrímur Sigurðsson)

Stjörnur lýsa und logahjúp
leið á hnýsu mýri
fram um Ísafjarðardjúp
firðum vísa stýri.


VÍSUR UM ODD JÓHANNSSON FRÁ SIGLUNESI

(ferskeytt/stikluvik)

Oddur minn er ærustór
unan fylgir halnum
gaf mér núna brenndan bjór
bóndi á Engidalnum.

            (Símon Dalaskáld)

Oddur ræður Engidal
orku bóndinn slyngi
kaldan fram um keilusal
kapteinn á Víkingi.

            (Símon Dalaskáld)

Oddur græðis grundu á
gota beitir ranga
þó að æði aldan blá
ekki hræðist drengur sá.

            (Björn Pétursson)

Djarft þá glæðist dagurinn
djarfur rær á sæinn.
Á þótt flæði aldan stinn
ekki hræðist karlfuglinn.

            (Þorleifur Þorleifsson)

Hirðir kýr og kindurnar
karl í betra lagi.
Oddur stýrir öldumar
yfir mýri skervallar.

            (Þorleifur Þorleifsson)