Karel
— Rannsóknarvettvangur rímna
Lemmata   |   Textatengsl   |   Ordbog β  

Rit Rímnafélagsins I — Sveins rímur Múkssonar

Formáli

II Kolbeinn Grímsson Jöklaraskáld

eftir Björn Sigfússon

Kolbeinn undir Jökli var rammíslenzkur karl og forn í sér. Hrynjandi hans í kvæðum var æðasláttur almúgans, en þó var Kolbeinn svo frábrugðinn samtíð sinni gamall, að hann varð alþýðu kynlegasta þjóðsagnaefni, en ekki nema skáldfífl í augum vísdómsmanna á næstu öld. Þeirra stefna lá í aðra átt.

Ef skapgerð og uppruni væru skýring þeirra andstæðna, ber að geta þess fyrst, að Kolbeinn Grímsson var nokkuð rótgróinn í siðskiptaðldinni, sem hann fæddist á, og mikill fyrir sér í kveðskap, ólærður maðurinn. RBétttrúnaðar- og lærdómsöld kváðu niður með andlegheitum sínum allar bókmenntir ólærðra nema lausavísur, og þess gætti við Kolbein. Enn harðar tóku siðvandir réttrúnaðarmenn á agaleysisanda siðskiptatímans, allra frekast við menn, sem blönduðu „þar saman við dárlegum setningum pápistanna“, kaÞólsku skáldanna, eins og þeir voru sakaðir um, Jón Guðmundsson lærði og Kolbeinn. Þar á ofan voru báðir taldir galdramenn, og eru kunnar ofsóknir, sem a.m.k, Jón lærði varð að þola af því lengi ævi.

Kyn sitt, skáldhneigð og galdrana átti Kolbeinn, að ég hygg, að rekja norður í land til stórbrotinna manna.

Samtíðarheimildir um Kolbein Grímsson eru ekki til, svo að ég viti, nema frá árunum 1654–67, 1680 og 1682, Hann hefur sjálfur dagsett síðustu vísur Grettisrímna sinna að Dagverðará uttdir Jökli 29. nóv. 1658. Rímur þessar, 20 að tölu, voru svo mikið verk, að hann kvartar sáran undan að bera þann bagga, eins og hann hefði lengi verið með hann, ort í hjáverkum. Hann segist hafa ráðizt í þetta „nærri sextugs aldri“, og mun það sama sem nærri sextugur. Ekkert tilefni var til fyrir fræðaþul að barma sér af aldri, ef aldur var lægri en það. Þó er hugsanlegt, að Kolbeinn noti hugtakið svo rúmt, að hann sé aðeins 57 ára, þegar hann byrjar Grettisrímur, og ljúki þeim á eimu ári, Þá hefur hann verið jafngamall 17. öldinni, En ef rímnagerðin tók tvö ár og Kolbeinn var 59 ára, Þegar hann byrjaði, hefur hann fæðzt 1597. Ekki verður nær komizt en það, að hann fæddist 1597–1600, og enginn veit hvar á landinu.

Til er þingabók Snæfellsnessýslu frá árunum 1652–67, en ekki frá árunum fyrr né síðar í þeim mæli, að vænta megi þar nafns Kolbeins, þótt hann væri í héraðinu. Þessi ár er hann jafnan öðru hverju þingvottur að Laugarbrekkuþingstað og nefndur í dóma af sýslumönnum. Fyrsta varðveitta dómsgerðin er um 2 dóma 27. april 1654, og við fyrri dóminn’ er Kolbeinn nefndur Jónsson af misritun skrifarans, en réttfeðraður við hinn seinni og jafnan síðan í bókinni. Aðrar dómsgerðir eru frá 2. júní (3 dómar) og 10. júní sama ár (2 dómar), 5. maí 1655, 4. og 28. okt. 1656 (3 dómar), 13. okt. 1657, 16. okt. 1658 (og nafn Kolbeins undir með hendi skrifarans), 14. okt. 1665, 7. maí og 26. okt. 1666 (samtals 6 dómar) og í. maí 1667. Oft er Kolbeinn talinn upp síðastur af dómsmönnum, eins og siður sumra skrifara var um þann, sem fátækastur sat í dómi hverju sinni, Þess þarf varla að geta, að margir skráðir Laugarbrekkudómar þessara ára hafa verið dæmdir án Kolbeins og ekkert verður ályktað um fjarvistir hans úr sveit sinni, þótt dómabókin geti hans ekki árin 1652–63 né 1659–64.

Undir dómana, sem Kolbeinn var við að dæma 1665–67, hefur hann ritað nafn sitt eigin hendi með öðrum dómsmönnum, og er hér sýnd hin stirða, fasta og djarflega rithönd mannsins á bls. viii. Kolbeinn Grímsson hefur verið í smærri bænda röð, en bjargálna og vel metinn vegna greindar og einurðar. Án þess hefðu sýslumenn ekki nefnt hann oft í dóma.

Guðmundur Bergþórsson minnist Kolbeins í Olgeirsrínum 1680. Hann talar þar í þátíð um mörg látin skáld eins og Hallgrím Pétursson, en í nútíð og núliðinni tíð um Kolbein, eins og hann sé á lífi (og hafi ort, en sé hættur því):

Kolbeinn fróði Grímsson greindur
glans er vestursveita,
stýrt hefur óði stims von reyndur
stefs um festu reita.

Árið 1682 voru prentaðir á Hólum vikupsálmar eftir Kolbein, ortir eftir bænakveri Jóhanns Habermanns, þýddu af Oddi biskupi Einarssyni, Það var venja á Hólum að setja „sál.“ eða „heitinn“ á titilblöð við nöfn höfunda, ef þeir voru látnir, en ekki stendur það á kverinu eftir Kolbein. Ásamt orðalagi Guðmundar Bergþórssonar veitir þetia eindregnar líkur til, að Kolbeinn hafi komizt á níræðisaldur og verið á lífi 1682, þó eigi sé alger vissa.

Ekki getur það mótbára talizt, þótt Kolbeins verði hvergi vart í búendatali Snæfellsness, er stríðshjálp var heimt af Íslendingum 1681. Bæði var hann þá fullgamall til að vera fyrir búi og í búendatalið vantar ýmsar jarðir, m.a. Brimilsvelli í Fróðársveit, þar sem sagnir telja hann hafa dvalizt síðustu ár sín (heimild Sighvats Grímssonar).

Þjóðsögur kenna Kolbein við Lón undir Jökli (Einarslón). Þar mun hann lengst hafa búið, ogí þeirri sveit hefur hann átt heima öll árin, sem dómabókin getur hans, en hún nefnir bústað hans hvergi. Dvöl hans að Dagverðará, næsta bæ við Lón, er ekki sönnun þess, að hann hafi setið þá jörð. Öllu fremur gæti staðsetning hans í Grettisrímum þýtt: staddur að Dagverðará 29. nóv. 1658. Væri hún þá bending til upphafsvísu rímnanna, þar sem skáldið segist ekki vita, hvar á landi hann ljúki þeim.

Forvitni leikur ættfróðum mönnum á niðjum Kolbeins, en ekki er kunnugt um þá. Þeir virðast ekki hafa búið í Lóni, sem var kirknaeign. Guðrún nokkur Kolbeinsdóttir býr 1681 á Lýsuhóli í Staðarsveit, sennilega ekkja, en einskis Kolbeinssonar veit ég getið þar í byggð um það leyti, og Kolbeinsnafn er þá fátítt á Snæfellsnesi.

Skáldskapur Kolbeins verður ekki ræddur hér, aðeins talinn upp. Fyrir utan Sveins rímur og Grettis rímur eru honum eignaðar í handritum rímur af Tíodel riddara og sagt hann hafi gert rímur af Njálu, þótt nú muni týndar. Getið var Vikupsálma hans, sem prentaðir voru 1682 og ljósprentaðir í Reykjavík 1946. Skilnaðarskrá (við Satan), Píslarminning og Dýrðardiktur eru einnig kristilegs efnis, Víðföruil er landafræðiyfirlit, ortur alþýðu til fróðleiks. Auk þessa eru mörg smákvæði Kolbeins varðveitt í handritum, mismikið afbökuð. Trúlegt er, að ljóð hans eða úrval þeirra verði gefin út, áður en langt líður. Heimildir um ævi Kolbeins eru litlar í kvæðunum, og þegar hann minnist á sjálfan sig, er það einkum í þjóðsagnakenndu líkingamáli. Eitt dæmi skal nægja, en Það er sjóferðarvísa, sem þjóðsagnir hafa síðan ávaxtað, (sbr. einkum Kolbeinslag Stephans Stephanssonar):

Hafs að auga hart svo nær
í heimskuvillu eg renndi.
Undirdjúpin, engum fær,
eru þar fyrir hendi,
andskotinn með krappar klær
kremur hvern, sem náir.
Eg hef róið illan sjó.
Endalaus þann ánauð slær,
sem í fer djöfla snarið.
Landfallið bar mig heim í varið.

Það mun enginn efa, að Jöklaraskáldið hafi róið illan sjó og stundað fiskiróðra lengi ævi. Það var aðalatvinna Jöklara. Lending í Lóni er brimasöm og uppsátur erfitt, en skárri aðstaða í Dritvík litlu utar, þar sem Kolbeinn hefur sennilega oft haft bát sinn. Hitt er meira líkingamál, að sjósókn hans út í hafsauga hafi verið þáttur í viðureign við djöfulinn fremur en náttúruöflin.

Til að freista að fylla eyður í sögu Kolbeins verður að hverfa öðrum þræði frá varðveittum kvæðum og samtíðarheimildum og grípa þá mola, sem efagjörnum hundum er leyft að leggja sér til munns af ríkulegu borði munnmælanna um hann.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er Kolbeinn fyrst og fremst galdramaður, og kölski vildi sækja hann, en Kolbeinn yfirvann hann jafnan með skáldsnilld sinni og áræði, Lónsbóndinn þurfti tilþrifameiri aðferð til þess en Sæmundur í Odda. Þeir kölski kváðust á til úrslita í svartnætti á sjávarhömrum, og héngu fætur fram af, en við Svalþúfu hjá Lóni er bergið ógurlegt, og féll þar stórbrim að. Sá skyldi þar niður, sem undir yrði í keppninni, og kölski átti sál skáldsins, ef hann næði henni, Það varð fjandinn, sem hrundi fyrir hamrana í leikslok og kvartaði hógværlega um leið undan vopni sigurvegarans með þessum þjóðkunnu orðum: „Það er ekki skáldskapur að tarna, Kolbeinn.“

Eins og sýnt er í ritgerð Einars Ólafs Sveinssonar, gerðu sumir merkismenn 18, aldar orð djöfsa að sínum um kveðskap Kolbeins, sögðu hann víða nær skáldfíflaskap en skáldskap ganga, uppfylltan „með hlægilegri dirfsku, skáldskaparorðatiltæki fyrir utan blygðan, utan vit“, og trúarleg ljóð yrki hann ólærður, „með fávíslegri framhleypni vogandi að handtéra guðlega hluti hverja hann hefur vanhelgað með heimskulegum og ljótum glósum.“

Svar við brigzlum um ókristileik er auðfundið, hvar sem flett er sálmum Kolbeins. Þetta er dæmi:

Ljúfi guð, faðir lífsins míns,
langt virztu frá mér hrinda,
allri mótþróan anda þíns,
en ótta þinn til mín binda.
Veittu mér náð,
svo brigzlin bráð
og breytni ill mætti þverra.
Ínnrættu mér
alli það, sem þér
þóknast, minn góði herra.

Annað mál er, að hjá Kolbeini finnist skáldskaparorðatiltæki fyrir utan blygðan, utan vit. En ýmsar tegundir þess orðbragðs höfðu rétta merking og meira eða minna óljós skáldskaparáhrif, einkum í fylgd hins sérstæða persónuleiks, sem einkennir Kolbeinsljóð. Galdraskáldið birtist helzt í sumu þessu orðbragði, eftir að ákvæðavísur og særingar Kolbeins eru löngu gleymdar.

Um særingar Kolbeins getur Gísli Konráðsson, en hann rifjar upp hálfgleymdan þjóðsöguþátt um hann og Galdra-Brand í Þykkvaskógi í Dölum. Segir þar, að margt illt áttust þeir Brandur við, og sendi hann Kolbeini marga drauga. Síðast vakti Brandur upp og sendi Haukadals-Halldóru, sem svo var rammefld, þegar hann kom henni upp úr gröf, að hann varð að brjóta annan lærlegg hennar, og eftir það átti hún jafnan að sjást hölt og seinfara. „Haukadals-Halldóra höktir á eftir,“ sagði Kolbeinn í vísu um þetta og kom henni fyrir í jörð með kraftakvæðum að lokum, eins og öllum sendingum, sem hann hafði fengið fyrr.2)

Þrennt er mikilvægt, sem þjóðsögurnar staðfesta um Kolbein skáld. Þær kenna hann jafnan við Lón, þótt haft sé fyrir satt, að hann hafi setið á Brimilsvöllum í elli sinni og átt þar jarðarpart, sem Brynjólfur biskup hafi gefið honum að skáldlaunum. Næst liggur því að ætla, að Kolbeinn sé upprunninn í Lóni og hafi þar fengið það orð á sig, sem entist honum til seinm kynslóða, Í öðru lagi sanna þjóðsögur það, sem sést ekki af kvæðum hans né skjölum, að hann hefur galdur iðkað, varnargaldur, sem alþýða bar virðing fyrir. Í þriðja lagi hefur alþýðu virzt hann það mikilmenni, að ófarir kölska fyrir honum væru alveg skiljanlegar.

Kolbeinn var almúgamaður og leiguliði á smájörð og eflaust félítill, eins og ráða mætti af ummælum hans í kvæðum, þótt fleira kæmi eigi til. En hann á menntun og einurð, álit og framgirni, sem bendir til merkilegs ætternis. Hæfileikaarfur kemur einnig til mála.

Þess hef ég helzt getið til, að Kolbeinn Grímsson hafi verið dóttursonur Kolbeins Jónssonar í Lóni og tekið við þeirri kirkjujörð af honum, lært af honum skáldskap og forna mennt og þar á meðal galdrana.

Þetta fellur vel við tímatal. Kolbeinn Jónsson hefur fæðzt 1540–50 og stóð í málaferlum á alþingi 1618 síðast. Hann var þrígiftur, og til skálda var talinn séra Einar, sonur hans af fyrsta eða öðru hjónabandi.

Kolbeinn var launsonur Jóns sýslumanns á Svalbarði við Eyjafjörð, Magnússonar sýslumanns í Rauðaskriðu, Þorkelssonar prests í Laufási, Guðbjartssonar flóka, Ásgrímssonar, og er það galdraætt. Hálfsystkin Kolbeins Jónssonar voru Steinunn, er átti Björn Jónsson biskups Arasonar, Magnús prúði, Staðarhóls-Páll, Sigurður á Reynistað og Jón lögmaður frá Svalbarði. Það var afburðakyn, en margt var þar sérlyndra manna.

Sé tilgátan rétt, voru Kolbeinn Grímsson og Brynjólfur biskup þremenningar að frændsemi. Efalaust er talið af sögnum, að vinátta var með þeim og viðskipti nokkur. Frændsemin verður ekki síður trúleg við það. Síðustu leifar kaþólskunnar sáust á dögum Brynjólfs, og hann bar einhverja rækt til þeirra. Hjá Kolbeimi verður þeirra vart, eins og heittrúarpresturinn Þorsteinná Staðarbakka brigzlar honum um. Þó virðast mér það nær eingöngu áhnf skáldskapar frá Jóni Arasyni og annarra kaþólskblendinna ljóða eða hann hefur lært slíkt af gamla Kolbeini í Lóni, sem munað gat kaþólskuna og Jón biskup, vin föður síns.

Kolbeinn Grímsson var sonur aldafornrar skáldlistar og vissi betur af því en aðrir ljóðasmiðir þátíðar. Hann sækir orðgnótt í sjóð málsins, og tunga hans er „tignum spennt“, hafin í veldi fornra tiginna skálda, eins og hann segir í raupvísu þeirri, sem séra Þorsteinn á Staðarbakka tilfærir honum til háðungar (afbakaða, rétt í Sveins r. III), Hugmynd Kolbeins um mátt og forntign orðlistar sinnar var hin sama, sem Matthías Jochumsson miklar í kvæði um hana: „Hún er list, sem logar af hreysti.“ Ávarp Kolbeins á skapara sinn í upphafi hinna prentuðu sálma og víðar í trúarkvæðum sýnir sama anda og hjá hirðskáldum, er þau kvöddu sér hljóðs í sal konungs og færðu honum drápur, en metnaður hóti minni en Sighvats var í þessu upphafi:

Hlýð mínum brag, meiðir
myrkblás (þvit kann ek yrkja),
– alltiginn máttu eiga
eitt skáld, – drasils tjalda.

Látum sem það sé hins vegar búmannsvíl hjá Kolbeini, er hann kvartar undan getuleysi sínu:

Kvæða brestur kveiking mig og Kvásisdreyra …

Fer mér ei sem fyrðum þeim,
er fróðleik ná,
langt og strangt mín list í heim
er laus við þá.

Virði fyrðar vísir mér
til vorkunnar,
þó ferð eg herði fjaðra hér
sem föng til bar,

. . . þó fljúgi svo sem fiður er til
fuglar Hárs úr hreiðri. (Sveins r, IV, XV og I.)

Skáldið er kotungur fastur á fótum, en huginn og muninn, Óðins fuglar, eru ekki fjaðralausir hjá honum enn, og

forðum átta eg fræða bát,
er fríðan mátti nefna. (Sveins r. I.)

Allir eru þeir margfalt vitrari, menn og konur, – eignast fleir en tvisvar tveggja vitsmunaarf, – sem spenntir eru geiri fornsagnanna, segir í Sveins rímum (XIII):

Allir þeir hafa mannvit meir,
málma Freyr og hringa Eir,
öllum fleir en tvennir tveir
tignum reyrir sagnar geir,

Kolbeinn fróði var virðingarheitið, sem Guðmundur Bergþórsson, arftaki hans, hefur valið honum. Það var ekki rangnefni. Greinargerð E. Ó. S. fyrir sögnum í Sveins rímum gefur hugmynd um það. Albýða tók því tveim höndum, sem Kolbeinn færði í ljóð úr sögnum.

Frumleikur Kolbeins í bragarháttum jafnast ekki á við Magnús prúða, afabróður hans, er telja má, Hlutverk rímnaskálds á 17. öld var viðhald og endurnýjun hins gamla fremur en nýr still, og Kolbeinn hafði eigi aðeins áunnið sér hið bezta úr rímnastílnum, heldur alla galla hans og ávantanir um leið.

Þó eru braglistarafrek hans samboðin því orði, sem fór af leikni hans. Í Grettis rímum á hann t.d. allvel kveðna sléttubandarímu, og Kolbeinslag, sem hann fann upp og beitti bæði þar og í Sveins rímum, er með srjöllustu og vandasömustu háttum. Ugglanst þykir, að háttur sá sé Kolbeins verk, þótt ung heimild eigni Jóni Árasyni kviðling undir sama hætti: Mín er list í ferðum fyrst (Bisk. 11, 568). Upphafið þar gæti verið stæling á 3. v. í III. Sveins rímu:

Mín er list í máta fyrst . . .

Galdrakraftur Kolbeins orkar ekki á menn 90. aldar, og rímtöfrar hans víst litlu meir, þótt sá galdurinn væri enn máttugri öldum saman. Það, sem lengi var mest við hann metið, hefur nú lítið annað en menningarsögugildi,

Vitneskja, sem um manninn Kolbein verður fundin, hefur mikla þýðing fyrir nútíð okkar og framtíð. Bæði einstaklingseðli hans og fulltrúahlutverk hans sem almúgaskálds er ástæða til þess. Manninum verður ekki kynnzt verulega nema gegnum verk hans og þá með nokkurri þekkingu á aldarbrag. Kristileg ljóð hans eru nokkru betri hugarfarsheimild en list, sjá einkum um þau Samtíð og sögu IV, 190–220, og Árbók Landsbókasafnsins 1946–47, bls. 59–64). Atkvæðamestar og persónulegastar af verkum Kolbeins eru Sveins rímur, sem hér eru gefnar út, Njóti þar listar hver sem rímnaeyra hefur, en aðrir vinir Kolbeins skulu hljóta margt gagn og skilning af þeim Fjölnisfeng.

Björn Sigfússon.

  1. Gísli fer ekki rétt með föðurnafn Brands, sem var Jónsson, en virðist rugla honum saman við Galdra-Brand (Guðbrand) Einarsson, sem var Þingeyingur og uppi um miðja 18. öld, Brandur í Stóraskógi (= Þykkvaskógi) var allmiklu eldri en Kolbeinn (sbr. Sögu Íslendinga V, 17. öld, 365–66), en lifði a.m.k. til 1649, er Kolbeinn var um fimmtugt. Brandur hefur farið skreiðarferðir undir Jökul og ef til vill látið menn sína stunda þar róðra. Af því gátu risið erjur þeirra Kolbeins. En á sannindi sagnarinnar er ekkert að treysta. 


Neðanmálsgreinar

2. Gísli fer ekki rétt með föðurnafn Brands, sem var Jónsson, en virðist rugla honum saman við Galdra-Brand (Guðbrand) Einarsson, sem var Þingeyingur og uppi um miðja 18. öld, Brandur í Stóraskógi (= Þykkvaskógi) var allmiklu eldri en Kolbeinn (sbr. Sögu Íslendinga V, 17. öld, 365–66), en lifði a.m.k. til 1649, er Kolbeinn var um fimmtugt. Brandur hefur farið skreiðarferðir undir Jökul og ef til vill látið menn sína stunda þar róðra. Af því gátu risið erjur þeirra Kolbeins. En á sannindi sagnarinnar er ekkert að treysta.