Karel
— Rannsóknarvettvangur rímna
Lemmata   |   Textatengsl   |   Ordbog β  

Rit Rímnafélagsins I — Sveins rímur Múkssonar

Formáli

III Um efni Sveins rímna Múkssonar

eftir Einar Ól. Sveinsson

Rímur og saga.

Höfundur Sveins rímna (R) segir til nafns síns í rímnalok (XXIII 70), hann heitir Kolbeinn, Engin tvímæli leika á því, hver sá maður er, það er Kolbeinn Grímsson Jöklaraskáld, sem lifði um miðja 17. öld, Sumstaðar má sjá, að hann hafi lokið við rímurnar 29. nóvember 1658,3) en það mun þó vera misgáningur einn, því að Grettisrímum hefur hann einmitt lokið að Dagverðará þann dag, svo sem stendur í niðurlagi þeirra. Sagnir eru um afskipti Brynjólfs biskups af tilorðningu Sveinsrímna, og eru þær fyllstar hjá Sighvati Grímssyni Borgfirðingi: „Það er almenn sögn vestra, að Brynjólfur biskup hafi fundið Kolbein í visitazíuferð sinni um Vesturland; hafði biskup heyri getið Kolbeins og þar með, að hann væri galdramaður, sem þá var mjög orð á gert, en er þeir Kolbeinn fundust, lenti tal þeirra allt í sögum og fróðleik, sem biskup unni svo mjög. Er mælt, að biskup hafi skorað á Kolbein að yrkja rímur út af einhverri þeirri sögu, sem hann hefði aldrei heyrt, en það efni hefur naumast verið auðvalið, er biskup þekkti ekkert; kvað þá Kolbeinn rímur af Sveini Múkssyni og sendi Brynjólfi biskupi, en heyrt hefi eg, að biskup hafi þá gefið honum 10 hundruð í Brimilsvöllum, en ekki 10 dali, og þar var Kolbeinn síðast og mun hafa dáið þar.“4) Ekki veit ég aðrar heimildir um frásögnina af fróðleikskeppni þeirra, en hitt segja fyrri fræðimenn, að Kolbeinn hafi ort Sveinsrímur fyrir Brynjólf biskup. Svo segir Einar Bjarnason í Rithöfundatali sínu, og Jón Espólín tekur undir það og segir: „er sagt hann hafi fyrrum kveðið rímur af Sveini Munkssyni og diktað sjálfur efni sem feiknalegast og sent Brynjólfi biskupi og þegið fyrir 10 dali“.5) Ekki kann ég að rekja þessa sögu lengra aftur, og ekki gefa mansöngvar Sveins rímna tilefni til að ætla, að þær séu kveðnar fyrir karlmann eða að hans ósk. En Jón Grunnvíkingur segir líkt þessu frá Grettisrímum í rthöfundatali sínu. Hann segir fyrst, hvar og hvenær þær hafi verið ortar, og bætir svo við: „sumir segja að forlagi biskupsins mag. Brynjólfs og hafi Hann fengið 1 rd. sp. fyrir hverja; sýnast þær þó ei óvíða skáldfíflaskap en skáldskap nær ganga“.6) Lengra aftur kann ég ekki að rekja þessa sögn, en geta má þess, að á mansöngvum Grettisrímna er mikill siðvendnisbragur, og kveður skáldið þær ortar að beiðni vinar síns, viturs manns, Hann kveðst byrja að yrkja þær nærri sextugur og kvartar aftur og aftur undan því, að hafa bundið sér þennan bagga.

Ekki virðist mér með fullri vissu verða séð, hvor þessara tveggja rímnaflokka sé eldri; í lok Sveinsrímna kveðst skáldið ekki mundu leggja aftur í slíkt verk, en honum má vel hafa snúizt hugur. Í fyrsta mansöng í Grettisrímum segir skáldið, að oft hafi menn kveðið af útlendingasögum, en ekki sé minna að segja frá hinum fornu Íslendingum, og þyki ýmsum mönnum það ekki síður maklegt. Hann bætir við:

Óþarfinda orða brjál
ei skal hér til kanna,
ekki heldur ýkja mál;
efni er nóg hið sanna.

Mundi Kolbeinn hafa hér í huga Sveinsrímur, sem væru þá fyrr ortar?

Áður en lengra er farið, þykir mér enn rétt að geta tveggja fræðimanna frá fyrri tíð, sem minnast á Kolbein og verk hans. Annar þeirra er séra Þorsteinn Pétursson á Staðarbakka, sem ritar um Kolbein í Lærdómssögu sinni,7) um 1780, og mun hann styðjast við Recensus Páls Vídalíns. Hann segir svo:

„Kolbeinn Grímsson, ólærður, lét eftir sig kvæði allmörg, bæði helg og heiðin, hvörra hið helzta eru Vikupsálmar útaf Stegmanni Bænabók prentaðir á Hólum. Hann hefur og ort Dýrðardikt, með fávíslegri framhleypni vogandi að handtéra guðlega hluti, um jarðteiknir og pínu frelsarans, hvörja hann hefur vanhelgað með heimskulegum og ljótum glósum, auk annara þeirra lasta sem eru í hans kvæðum. Hann blandar og þar saman við dárlegum setningum pápistanna. Hann hefur og gjört Rímur af Sveini Múkssyni, samhendar sæmilega, en uppfylltar með hlægilegri dirfsku, skáldskapar orðatiltæki fyrir utan blygðan, utan vit (sine fronte, sine mente). Hann hefur og kveðið Grettisrímur, að miklu leyti líðanlegar, þó er þar fá erindi að finna sem ei sé misgjört á móti skálda snilli, þar er og margt samblandað af artugum kveðskap, sem sýnir það maðurinn hefur verið af náttúrunni fæddur til skáldskapar, en af hrósi fávíss almúga hefur hann upp hrokarzt til dárlegra þanka um sjálfan sig. Það er og sagt hann hafi kveðið Rímur út af Njálu, en of stuttar og útilukt mikið af efninu þess vegna. Raup hans sést á þessu erindi:

Að mæla óð og miðla ljóð
mér er lént og fullvel hent,
tals um slóð því tungan fróð
er tignum spennt á alla mennt.“8)

Í AM. 615n 4to er inntak úr Sveinsrímum gert að tilhlutun Árna Magnússonar og að nokkru af honum. Þar aftan við er svo skrifað: „Rímurnar eru 23, ekki illa kveðnar; þó eru þær víða rangt kenndar. Author rímnanna er Kolbeinn Grímsson, og er söguefn1ð, sem sjást kann, eldra en Kolbeinn. Mun hann svo, óefað, söguna haft hafa, annaðhvort skrifaða eða og (hvað eg heldur hygg) heyrt hana sagða utanbókar.“ Á lausum miða hefur Árni látið skrifa: „Saga af Sigurði (yfir m. annari hendi: Sveini?) hefur verið til, þótt nú finnist hvergi. Kolbeinn Grímsson mun hafa heyrt hana sagða utanbókar og kveðið þar eftir rímur sínar, kannske og aukið sumstaðar í efnið úr sínu höfði.“9)

Á tilveru sögunnar leikur enginn vafi. Árið 1569 skráði Vigfús sýslumaður Jónsson á Kalastöðum minnisgreinir um ýmis efni, og er þar m.a. getið bóka, sem hann léði Hannesi Ólafssyni. Ein þeirra var „sögubók með nokkrum sögum; er þar með Dámustasaga og frá Sveini munksins sym“,10) En sennilega hefur sagan verið glötuð á dögum Árna Magnússonar, úr því að hann hefur ekki klófest hana.

En hver er þá afstaða rímnanna (R) til sögunnar (S)? Hefur Kolbeinn haft S hjá sér, þegar hann var að yrkja R, og ef svo var, ór hann nákvæmlega eftir S eða jók hann við og breytti? Eða hafði hann heyrt eða séð söguna einhvern tíma áður og studdist við minni sitt eitt? Ef svo væri, er enn minni furða, þó að hann ýkti eða bætti við frá sjálfs sín brjósti.

Ef að er gáð, kemur í ljós, að í R er ýmislegt, sem mælir með því, að stuðzt sé við S. Skal ég nefna hið helzta.

1) Hér og þar í rímunum er vitnað til skráðrar heimildar (skriftin letra I 19; sögunnar orð VIII 2; letrið VIII 49; letur X 21; skrá XI 13–14; fræða rit XII 11; skrá XVI 55; letur XXIII 26). En nú er þess að gæta, að það var föst venja rímnaskálda að vitna í sögu sína, og skáld sem fór ekki eftir neinni sögu gat vel fylgt þessari venju til þess að rímur hans væru í réttum stil; því er ekki að reiða sig á þetta. Enn síður skiptir það máli, að skáldið talar um söguefnið (ævintýr I 16, VIII 12, sögunnar efnið I 15, sagan IX 11); það segir ekkert um það, hvort heldur er stuðzt við ritaða heimild eða munnlega, en telja má víst, að Kolbeinn styðjist við einhverja eigi allskamma sögu, hvort sem hann nú hefur hana ritaða eða eigi, og hvort sem hann ýkir og eykur við eða eigi.

2) Í R koma fyrir tölur eins og „fimm og tvær“ (II 29) fyrir sjö, „tuttugu sex og taldir fjórir“ fyrir 30 (IV 15), „þrennum sinnum þúsundir tuttugu“ fyrir 60000 (V 64). Þetta er baslaraleg aðferð, og er erfitt að skilja, að skáld notaði hana, ef hann átti sjálfur ráð á tölunum.

3) Algengt orðatiltæki er það í riddarasögum, þegar sagt er frá reiði höfðingja, að N.N. varð svo reiður, að hann missti nálega vitið.11) Þeita kemur tvisvar fyrir í R: vondur Þundur vitinu næsta týndi V 69, týndi næsta vitinu þá VIII, 17. Mundi rímnaskáld bæta við slíkum orðatiltækjum, sem vitanlega eiga fyrst og fremst heima í stil óbundins máls?

4) Í riddarasögum sverja heiðingjar við Maumet, Makon og fleiri „guði“ og ákalla þá. Alveg sama gerist hér: Og svo hjálpi Maument mér og Makon dýri, Astarot og Apoll skýri IV 82; Eg þig beiði, Astarot, Apolló og Mahómet VIII 23, Makon, veit VII 51; reiður verði Maument IX 27; XI 63, XII 39; sbr. líka IV 89, VIII 28. 12) Vel hefur það rímnaskáld kunnað orðfæri riðdarasagna, sem bætti þessu inn í rímur sínar á öllum þessum stöðum.

5) Á nokkrum stöðum er frásögn ógreinileg eða röng. III 28 o.áfr, er sagt frá Theobaldi hertoga, og er tiltekið, að hann var við aldur, og um leið segir Rauður um sjálfan sig, að hann var jarl. Þetta virðist ekki geta verið sami maður, og frá sambandi þeirra er ekki sagt. Engin nauður rak skáld, sem ekki studdist við bók, til að nefna Theobald, sem ekkert kom við sögu, en ef hann nefndi hann, mundi hann segja, hveri var samband: þeirra Rauðs. – XV 27–8 segir frá því, er Sveinn nær fjöreggimu frá móður Karlsins grá, og er sú frásögn ógreinileg:

Í bragði lagði brátt að vatni
bauga lundur;
þó yfir drifi er sem sjatni
eisutundur.
Hausinn lausan hálsi frá
af hörku brýtur;
eggið seggur þiggur þá
og þessa nýtur.

Það kemur sér vel, að af kerlingu var sagt áður, þó að lauslega væri; annars væri ekki unni að vita, hvers haus er hér talað um. Og hvað táknar síðari helmingur fyrri vísunnar? – XXI 39 segir frá hásæti í hinni dýrlegu höll í paradís. Í 40. v. stendur: „Krossi einum hélt við hönd.“ Hver? Er vísa fallin niður? Eða varð skáldinu það á að gleyma að segja frá einhverjum, sem í hásætinu sat? – Loks skal nefna mjög einkennilegt atriði úr 20. rímu (74 o. áfr.). Eftir að Sveinn og Michael engill eru komnir yfir steinbogann, sér Sveinn

„líka sem breiður logandi vegur
lægi um þvera braut.

Mælti engill Michael:
„Þú mátt hér líta það, hvað himna þengill verndar vel að vísu þennan stað.

Gladius heitir verndarinn vís
og Versatilis með;
í móti sveitum rétt hann rís
sem rúmið er ekki léð.“

Þessi frásögn styðst við einkennilegan misskilning á hinum latneska texta biblíunnar, þar sem segir frá því, er drottinn rak Adam brott úr Paradís (Gen. III 24): „Ejecitque Adam; et collocavit ante paradisum voluptatis Cherubim, et flammeum gladium atque versatilem, ad custodiam viam ligni vitæ.“ En Kolbeinn hefur væntanlega ekki skilið svo mikið í latínu, að hann gæti misskilið hana, og verður því að ætla, að hann hafi þetta helzt úr S.

Þá er að líta á nokkra staði, þar sem skáldið víkur að efninu eða afstöðu sinni til þess.

1) Í I 15 segir skáldið: „Sögunnar efnið valið víst / af vitrum fundið seggjum.“ Af því verður ekkert ráðið.

2) Skáldið segir XVI 63 frá Ríkon risa:

„Kauðinn leggur kónga skegg í kápu efni,
brigzla hregg svo brátt þeim stefni;
bragðasegg eg þetta nefni.“

Sú undrun, sem hér kemur fram, er skiljanlegri ef efnið er fengið Kolbeini fastmótað í hendur, heldur en ef hann diktar sjálfur. Ekki er knýjandi nauðsyn að gera ráð fyrir bók, en öllu aðgengilegra.

3) Í 1. v. rímnanna kveðst skáldið hrinda skáldskaparbátnum úr höfn:

Hvar hann tekur á hauðri höfn
hamingjan má því ráða.

Er þessi efi skáldsins um það, hvort hann lúki rímunum? Eða býst hann við að díkta upp efni og veit ekki, hvert ímyndunaraflið muni leiða sig?

4) Í II 21 hendir skáldið bersýnilega gaman að sannindum frásagnarinnar:

Heyrði víða hvellan gný
heims um láð af skotinu því
öllu meir en áður fyr;
er það satt, ef nokkur spyr.

Skáldið hefur gaman af ýkjunum, sem sjá má á því, að þá yrkir það hvað bezt.

5) Við lok rímnanna (XXIll 65–68) ræðir skáldið um efnið og afstöðu sína til þess.

Ei kann eg um þengil þann
þegnum fleira að glósa;
leynt í þanka lengi hann
lét eg byggðir kjósa.

Gjörði eg orðum gegna meir
svo gamanið skyldi togna.
Ráði sjálfir þegnar þeir,
sem þenkja söguna logna.

Minn er þanki meir í felldur,
muni það sannleiks dyggðir.
Það bevísa þeir ei heldur,
þó að reikni lygðir.

Veit af sínum verkum bezt
vizkan dýr með drottni
stöðugum heiður sterkum mest
standi, en aldrei þrotni.

Í síðustu vísu er eins víst, að skáldið eigi við lokakafla sögunnar, sem er með helgisagna blæ, og fær engum dulizt, að Kolbeinn er mjög gagntekinn af því efni. Aftur gæti önnur vísan átt við ýkjur, galdra og furður framar í sögunni, sem Kolbeinn vill ekki taka ábyrgð á, og þar væri hann vís til að hafa aukið við og ýkt: svo að gamanið skyldi togna. Loks er svo fyrsta vísan: Gefur hún til kynna, að skáldið styðjist ekki við, neitt nema minni sitt? Ekki Þykir mér það nauðsynlegur skilningur, þetta gæti eins vel þýtt, að Kolbeinn hefði fyrir löngu kynnzt þessu efni og það orðið honum hugstætt, og gat hann þó eigi að síður haft söguna við höndina, þegar hann orti.

Að öllu samanlögðu finnst mér svo margt mæla með því, að skáldið hafi í höndum söguna, þegar það yrkir rímurnar, að ég hallast heldur að því. Ég veit, að rökin eru ekki öll veigamikil, en safnast þegar saman kemur. En ekkert sýnist mér mæla móti því, að Kolbeinn hafi ýkt og aukið við frá sjálfs sín brjósti. Hvað það hafi helzt verið, er þó vant að segja, meðan ekki er vitað meira um heimildir hans. Geta skal ég þó þess, að vera mætti, að upphaf efnisins væri mótað af þekkingarleysi Kolbeins á kaþólskunni; á. síðara hluta 16. aldar hefðu menn átt að vita betur en svo, að þeir færðu í letur þá vitleysu, að hirðstjórnendur heimtuðu að bera út barn af því að munkur var faðir þess, en á 17. öld hlaut að þverra hér á landi með almenningi sönn þekking á kaþólskunni, .

Söguefnið.

Vera má, að Kolbeinn hafi í Sveinsrímum diktað efni sem feiknalegast, eins og Espólín kemst að orði. En hann hefur ekki skapað efnið úr engu, enda gerir það enginn nema guð almáttugur. Atriði efnisins í rímunum koma mörg hver alls ekki svo ókunnuglega fyrir sjónir manni, sem kunnugur er íslenzkum ýkjusögum. Það væri frekar auðvelt að gera lista yfir minni rímnanna og finna hliðstæður í hinni miklu skrá Stiths Thompsons: Motif-index of folk-literature, Helsinki 1932–36, FF Communications 106–09, 116–17. En þó að það sé nokkurs virði, þá er hitt meira vert, ef unnt væri að grafast eitthvað eftir því, hvert höfundur (eða höfundar) hefði sótt efnið, m.ö.o. grafast eftir heimildum sögunnar og reyna að ákveða eðli þeirra. En þar er þó ekki við lambið að leika sér, söguefnið virðist saman sett úr minnum víðs vegar að, og þar sem ætla má, að fylgt sé gömlum söguþræði á köllum, þá er þó við búið, að þar sé aukið við aðkomnum minnum eða þá skipt um minni. Ég get ekki heldur hrósað mér af að hafa komizt langt í þessari rannsókn, En ég hef reynt að leggja fram efnið og hnýtt við athugasemdum mínum, og mætti vera, að þá yrði öðrum þess auðið að grafa upp óþekktar heimildir til skýringar. Oft þarf margra manna starf til að skýra svo flókið fyrirbrigði sem saga þessi er.

Ef litið er á efni R í heild, virðist eðlilegt að skipa því í 4 þáttu, og er hver öðrum ólíkur. Þeir eru: I. Uppvöxtur Sveins og ævintýri með Melandusi og Ergiusi allt þar til Sveinn skilst við Rauð (I–III 57). – II. Bardagar við Serki (III 58– XII). – III. Viðureign við Karlinn grá og dvöl með Artúsi konungi (XIII– XVII). – IV. Burtreiðar Sveins og leiðsla (XVIII–XXIII).

I. þáttur rímnanna fjallar um uppruna Sveins og segir frá fyrstu hreystiverkum hans, en þau eru aðallega fólgin í aflraunum, sem lýst er með hinum mestu ýkjum. Hvernig stendur á því, að S (R) lætur söguhetjuna vera son munks, veit ég ekki, en það hefur verið í sögunni frá upphafi. En síðan segir, að Sveinn var borinn út, en var bjargað af móður sinni, þá saug hann hind og ösnu. Hér er að ræða um alþekkt minni, og læt ég mér nægja að vitna til skrár Thompsons B536, S300 o.áfr. Síðan segir frá atli Sveins og aflraunum, og var það líka yfrið vinsælt efni fyrr á tímum (Thompson F610 o. áfr.). Hér getur margt hafa ýtt undir skáldið, bæði innlendar sögur (Finnbogasaga, Grettissaga) og erlendar frásagnir (Þiðrikssaga, norrænir dansar af Þiðrik og köppum hans; þar eru í miklar ýkjur, t.d. sagt frá því, að rifnar eru upp eikur o. s. frv.). En þegar litið er yfir allt efni I. þáttarins í einu, er þar að ræða um heila runu af minnum, sem koma fyrir í ævintýrum, og er erfitt að verjast þeirri hugsun, að höfundur S (R) hafi þekkt og stuðzt við þessi ævintýri. En hér er að ræða um tvær sögur, sem oft blandast saman, en það eru þær, sem hlotið hafa hin alþjóðlegu númer 301 og 650 (sjá skrá Aarne og Thompsons FF Communications 74). Í fyrra bindinu af Studien zur germanischen Sagengeschichte (München 1910) hefur Fr. Panzer gefið yfirlit yfir tilbrigði þessara ævintýra, og má þaðan nefna eftirfarandi atriði: Móðir drengsins hefur hann miklu lengur á brjósti en: tiðkanlegt er. Drengurinn sýgur ýmiss konar dýr (Panzer 25–26, 31). Hann verður ákaflega sterkur. Hanm hittir á leiðinni tvo sterka menn, glímir við þá (73), rifur tré upp með rótum (35, 56, sbr. 67); gerir raum að, hver lengst geti kastað tré (72). Þeir félagar koma í autt hús og setjast þar að (75–77). Einn á að elda, hinir fara á skóg á veiðar, ókunnur maður biður um mat, ræðst á eldamanninn og bindur (77–83). Næsta dag fer öðrum þeirra félaga eins, En drengurinn verður hinum ókunna manni yfirsterkari (84–85). Hér endar sá kafli, sem líkist ævintýrinu..

Vera má, að eitt og annað af þessu sé tilviljun. Vera má, að eitt og annað minni eigi að meira eða minna leyti rætur að rekja til annara sagna. T.d. gæti frásögnin af mannlausu borginni í R verið undir áhrifum frá hinum alþekktu frásögnum Artúskvæðanna af borginni auðu (la gaste cite). Óviðkomandi þessu ævintýri er líka frásagan af því, er Sveinn bjargar barni dvergsins úr klóm gammsins, og er það algengt í íslenzkum frásögnum.13) En þó að þetta og sjálfsagt eitthvað töluvert fleira megi draga frá, fer varla hjá því, að höfundur S (R) hafi þekkt ævintýrið, og mega ýkjur þess vel hafa ýtt undir bæði höfund S og Kolbein, svo að R hafa á þessum kafla fengið eftirtakanlega mikinn lyga- og skrumblæ.

II. þáttur rímnanna er að efni og blæ líkur riddarasögum þeim, sem segja frá skiptum Serkja og kristinna manna, svo sem Karlamagnúsar og kappa hans (chansons de geste). Hér koma heiðingjar með ógrynni liðs og bjóða Grikkjakonungi að gifta Serkjakonungi dóttur sína eða þola hernað af þeirra hendi, og síðan er sagt frá ógurlegum bardögum, þar sem margir tugir þúsunda berjast, en allt veltur þó á fáeinum afburðaköppum. Í riddarasögum þeim, sem við er stuðst, er gert ráð fyrir, að Evrópumenn séu kristnir, en Serkirnir eru kallaðir heiðnir. Hér kemst rímnaskáldið (eða S) í nokkurn vanda. Upphaf R gerir ráð fyrir kristni, Sveinn er munksson. Síðar í rímunum má sjá, að kristni kemur ekki til Grikklands fyrr en ofarlega á dögum Sveins, og því er í þessum kafla tekinn sá kosturinn að láta lggja að mestu í þagnargildi trú Grikkja, en Serkir geta hins vegar svarið óhikað við guðina Maume(n)t og Makon (sem hvorttveggja eru afbakanir á nafni spámannsins Mahómets), að ógleymdum Apolló og Astarot; var sá fyrri raunar grískur, en kemur stundum fyrir í öðrum riddarasögum.

Dálítið einkennilegan blæ fær þessi kafli sögunnar af því, hve mikið ber á grískum eða grískulegum nöfnum, og hljóta þau Serkir ekki síður en aðrir. Sem dæmi má nefna Sergíus, Sýrus, Klímákus, Tólomeus og Belus. Eitthvað af þessu kynni höf. R (eða S) að hafa úr sagnaritum, og hygg ég það ekki óalgengt í yngri riddarasögum (svo sem t.d. Ambáles sögu). En sumt kann þó að vera úr eldri riddarasögum; Tólómeus kemur fyrir í Bærings sögu og Belus í Ektors sögu. Nafnið Sergíus held ég sé úr sömu átt og nöfnin Demetríus og Merkúríus (í IV. þætti); þetta voru allt dýrlingar, herskáir og verndarar riddara. – Nafnið Ergíus í I. þætti kann að vera lagað eftir Sergíus, en minnir annars á grísku nöfnin Ergiaios, Ergias, Erginos. Kolindras gæti verið tilbúið eftir einhverju riddarasögunafni, t.d. Calogreant. Merkilegast allra þessara nafna finnst mér vera nafnið Sólentar, sem konungsdóttir ber, og verður rætt um það síðar.

Ekki verður sagt, að minni þessa þáttar séu sérkennileg eða merkilleg. Dálítið skrýtið er, að tveir Serkjakonungar ríða óarga dýri, og er það í annað skipti nefnt „hýrená’. Merkilegt finnst mér aðeins eitt í þessum kafla, en það er það, sem segir af Pingmei. Nafnið er sjálfsagt afbökun úr pigrmæi, dvergar, en lýsing þeirra er öðruvísi en það, sem segir í Hauksbók og öðrum fornum ritum af því kynjafólki. En svo segir í rímunum, að. þessir Pingmei séu svó göldróttir, að þeir veki upp fallna menn. Þetta minn á ekki heima í frásögnum af viðskiptum Serkja og Evrópumanna, svo sem Karlamagnússögu og þvílíku, en er af sama anda og frásagnirnar af Karlinum grá í næsta kafla, Kemur það fyrir í hinum íslenzku frásögnum af Hildi Högnadóttur (í Snorra-Eddu og Sörlaþætti), í frásögninni af Skuldarbardaga í Hrólfs sögu kraka, í sögunni af Tryggva karlssyni og kóngsbörnunum Sigurði og Signýju og víðar.14) Þetta er og alþekkt erlendis (Thompson, E155), og virðist þungamiðja útbreiðslusvæðis þessa minnis vera í keltneskum löndum, en vísast, að það sé í rímunum komið úr íslenzkum ýkjusögnum.

III. Sá kafli rímnanna, sem líklegt er, að merkilegastur þyki, er hinn þriðji. Blærinn er hér allur annar en á því, sem á undan er farið. I. kaflinn var fullur af ýkjum og skrumi, en með litlu yfirnáttúrlegu efni; II. kaflinn með hreystiverkasögum í stil Karlamagnússögu, en í þeim III. yfirgnæfa aftur á móti frásagnir af furðum og göldrum, og er t.d. athyglisvert, að Karlinn grái er að vísu risavaxinn, en þó líkari galdramanni en vanalegu norrænu trölli, Þessi III. kafli rímnanna minnir í senn á riddarasögur af Artúsi konungi og köppum hans (sem eflaust styðjast að nokkru við keltneskar kynjasögur) og á íslenzkar ýkjusögur og ævintýri. Í þessum kafla koma fyrir nokkur nöfn úr Artússögunum; er þar fyrst að telja nafn Ártúsar konungs sjálfs, Valvins og risans Ríkons, og sker þetta úr um það, að höfundur S (eða R) þekkir slíkar sögur, og er ekki ólíklegt, að til þeirra rita sé sótt eitthvað af efninu. Úr þessum ritum kynni og að vera nafnið á sveimi Valvins, Kórant, sbr. nafnið Escorant í hinni frönsku sögu La queste del Saint Graal.15)

Áður en horfið er frá nöfnunum og litið á söguefnið, þykir rétt að minnast hér á nafn konungsdóttur, en það er Sólentar. Ending nafnsins er þrívegis rímskorðuð (Ill 66, XIII 46, KV 39), svo að á henni leikur enginn vafi, en af rithætti í handritum má ráða, að það byrji á Sól-. Þetta er ekki íslenzkt kvenmannsnafn, en það kemur nokkrum sinnum fyrir í ýmsum myndum í dönsum og ævintýrum af Norðurlöndum sem nafn á kóngsdóttur eða tiginni mey. Í norska ævintýrinu af Tristram og Ísól (Aarne-Thompson nr. 870), koma fyrir nöfnin Solent, Salento, Sallento, Salto, Salento, Solento, en í öðru norsku ævintýri Solntaar.16) Nokkuð gamalt hlýtur þetta nafn að vera í norska ævintýrinu, úr því að það er í svo mörgum tilbrigðum þess. En auk þess er kunn önnur heimild, vissulega eldri en R, þar sem það kemur fyrir, en það er norræni dansinn af Genselin greifa (DgF nr. 16). Hann virðist hafa verið til í Svíþjóð, og þar kemur nafnið Solentá fyrir – en raunar í Þórsdansinum (og sjálfsagt komið þangað úr Genselínskvæðinu). Aðallega er Genselínsdansinn varðveittur í Færeyjum, Danmörku og Noregi. Nafn meyjarinnar er breytilegt, Solinita, Sólita í Færeyjum, Solentaa, Salenta, Solentare í Danmörku, en er týnt í Noregi. Sophus Bugge hélt því fram, að þetta væni s.s. * Solentaar, sem væri austurnorrænt nafn, á ísl. * Sólintær. Þetta þykir mér þó ekki líklegt, ég veit ekki til, að lýsingarorðið * taar, tær, sé kunnugt úr dönsku eða sænsku, og hæpið að vesturnorrænt tær væri * taar á austurnorrænu. – En hvað sem um þetta er nú, er Sólentar ekki íslenzkt, og það virðist líkast einni dönsku myndinni af nafninu.

Genselínskvæðið virðist vera frá úrkynjunarskeiði dansagerðar, en það er í safn. Vedels 1591 og svo útbreitt, að á miðöldunum hlýtur það þó að vera ort. Vera mætti, að Kolbeinn eða höfundur S hefðu nafnið Sólentar þaðan. (Það er þó ekki úr hinu prentaða safni Vedels, þar stendur Salenta.) Nú er þess að gæta, að í sumum gerðum dansins kemur fyrir nafnið Karlinn grái (Karl hin graa), og er þar haft um hest Genselins. Á stöku stað í öðrum dönsum kemur fyrir þetta sama nafn, og þá sem kappanafn (sjá DgF nr. 17 og III 223), en hvar það eigi heima í öndverðu, er ekki alveg víst.17) Væri vel gerlegt að hugsa sér, að hér sé um að ræða óljós minni frá eldra kvæði, þar sem bæði Solentar og kappinn eða risinn Karlinn grái hafi komið fyrir. Færri óþekktar stærðir eru þó í dæminu, ef það er skýrt á þessa leið: Höfundur S eða R hafði Karlinn grá úr annari átt, en það nafn minnti hann á dansinn, þar sem einmitt sama nafnið kom fyrir, og dró þetta svo nafnið Sólentar inn í söguna.18)

Það sem með fyllstri vissu má telja komið úr sögunum af Artúsi er Ríkon, og ekki nafnið eitt, heldur og sögnin með. Frásögn um þessa persónu er í Bretasögum Galfrids af Monmouth, sem til voru á íslenzku, og má þetta minni rímnanna vera þaðan komið. (Það er líka til í Örvar-Oddssögu, tengt þar við Kvillanus blesa eða Ögmund Eyþjófsbana, en nafnið Ríkon segir til þess, að í Sveinsrímum er það úr Artússögunum.) Annars er það, eins og von er til, líka í ýmsum frönskum sögum um Artús (og vitanlega þangað komið úr Bretasögum), og getur Bruce í sinni miklu bók, Evolution of Arthurian Romance um, að það sé bæði í Perlesvaus og Merlin-þættinum í hinni svonefndu Vúlgötu-gerð sagnanna; en sjálfsagt er það þó til miklu víðar.

Vegna nafnanna í þessum kafla er ástæða til að gefa sérstakar gætur að öllu því í efninu, sem gæti verið komið úr frásögnum af Artúsi og köppum hans. Verður þá fyrst fyrir sagan af Karlinum grá og aðförum hans í höll Grikkjakonungs. Ekki þarf lengi á það að líta til að sjá, að hér er að ræða um annað aðalatriðið í einhverju hinu frægasta kvæði miðenskra bókmennta: Sir Gawain and the Green Knight. Um efni þessa kvæðis hefur G. L. Kittredge skrifað ágætt rit (A study of Gawain and the Green Knight, 1916), en margir hafa þó að því vikið síðan, svo sem vonlegt er. Hér á eftir styðst ég mjög við rit Kittredges.

Í Sir Gawain segir frá því, að inn í höll Artúsar konungs kemur á nýársdag riddari einn, alveg grænklæddur, og skorar hann á hirðmenn konungs að reyna við sig þann leik, að einhver þeirra höggvi höfuð af honum nú, en að ári liðnu skuli hinn sami leita hann uppi, og megi græni riddarinn þá fara með hann á sama hátt. Eftir nokkur frýjuorð verður Gawain (Valvin) til þess að fremja Þennan leik og heggur af honum höfuðið, en riddaranum verður ekki meira um en svo, að hann þrífur höfuð sitt og fer burt. En Gawain stendur síðan við loforð sitt, en græni riddarinn lætur sér raunar nægja að reyna hugrekki hans.

Þetta minni kemur fyrir í mörgum öðrum fornum sögum og kvæðum. Elzt eru tvö írsk tilbrigði sagnarinnar, og eru bæði í fornri sögu, sem nefnist Fled Bricrend. Elzta handritið af henni er frá því um 1100, en sagan sjálf er talin miklu eldri. Aðalhetjan er í báðum frásögnum Cúchulin, en sú persóna, sem svarar til Karlsins grá, nefnist þar Gúroi (skýrt í annari gerðinni, dulbúinn í hinni). Þá koma franskar heimildir, söguljóð og sögur: Livre de Caradoc, sem skotið er inn í framhaldið af Perceval eftir Crestien de Troyes (hetjan heitir hér Caradoc); La mule sanz frain eftir Paien de Maisiéres (hetjan Valvin); Perlesvaus, frásögn af Perceval í óbundnu máli (hetjan Lancelot); Humbaut (hetjan Valvin). Ekkert þessara kvæða er yngra en frá fyrra hluta 13. aldar. Svo er Sir Gawain, frá því um 1370. Aúk þess eru efni hinna frönsku kvæða tekin upp í þýzk rit. Efnið úr „La mule“ er tekið upp í Diu Crone eftir Heinrich von dem Türlin (um 1215), en við það rit styðst svo Buch der Abenteuer eftir Ulrich Fueterer (15. öld). Aftur er efnið úr „Caradoc“ tekið upp í Parzifal eftir Claus Wisse og Philipp Colin (14, öld). Perlesvaus og „Caradoc“ skilst mér hafi bæði verið til prentuð á fyrra hluta 16. aldar, og sýnir þetta allt, að söguefnið var útbreitt og gat auðveldlega verið komið til Íslands um miðja 16. öld.

Útlendu heimildirnar skiptast í tvo aðgreinda flokka, annars vegar eru hinar fornu írsku sögur, hins vegar miðaldakvæðin (og sögurmar), og eru allir á einu máli um það, að síðari flokkurinn sé runninn frá hinum fyrri. Ekki er loku fyrir það skotið, að hinar fornírsku sagnir hafi borizt hingað á landnámsöld. og varðveitzt hér í munnlegum frásögnum – slíks eru dæmi um nokkrar aðrar írskar frásagnir – og mætti þá vera, að í R væri farið að nokkru eða öllu eftir þeim. Verður innan lítillar stundar hugað að því, sem helzt mætti virðast styðja þetta. En úr því að á annað borð er getið um Artús, Valvin og Rikon í BR, þá er auðvitað eðlilegast að reyna fyrst, hve langt er hægt að komast með þeirri skýringu, að þetta efni R sé frá hinum frönsku kvæðum komið (og má þá vitanlega vel vera, að það eigi sér munnlega frásögn að millilið). En hér er þó sitt af hverju erfitt viðfangs. Reyni menn t.d. að ákveða, hverju efnið í R sé líkast, þá kemur í ljós, að eitt atriðið er líkt og í einu kvæðinu, annað hinu. Í Sir Gawain og Caradoc segir t. d., að gesturinn (er svarar til Karlsins grá) birtist einn góðan veðurdag í höll konungs – sama er í R (líka í írsku sögunum), en í hinum gerist ævintýrið á leið söguhetjunnar í ókunnu landi. Aftur á móti eru „La mule“ og Humbaut samsaga R, að hinn ókunni maður sé tröllslegur og ljótur karl, í hinum er hann glæsilegur riddari. Enn má geta þess, að í Perlesvaus er. nokkuð af minnum svipuðum þeim, sem í R eru, svo sem Ríkons-minnið, afhöfðun risans, auð borg, kastali sem snýst (sbr. síðar), riddarar í svörtum, rauðum og hvitum herklæðum, en. eigi að síður hygg ég flestum þeim, sem lesa Perlesvaus, muni fara eins og mér, að þeim muni þykja mjög ólíklegt, að það rt sé heimild R (S).

Í flestum hinna útlendu heimilda er hinn ókunni í rauninni ekki fjandmaður hetjunnar, heldur lætur sér aðeins nægja að reyna hugrekki hennar. En í R er þessu öðru vísi farið, og Karlinn grái mundi vissulega hafa höggvið höfuð af Sveini, ef konungur hefði ekki komið í veg fyrir það, og verður það til þess, að Karlinn fær vald á Sólentar kóngsdóttur og nemur hana á brott. Framhaldið verður því, hvernig Sveinn leysir kóngsdóttur. En þar fléttast inn í ýmis minni.

1) Kórant, sveinn Valvins, er í haldi skessu, og verður hann að kyssa hana svo að hún leysist úr álögum. Þetta minni er í íslenzkum sögum kunnara en frá þurfi að segja; elztu heimildirnar eru sjálfsagt Gríms saga loðinkinna og Þorsteins saga Víkingssonar.19) Þetta minni er líka mjög útbreitt erlendis, ekki sízt í miðaldasögum (sjá Thompson D7382).

2) Valvin er í dyflizu hjá Karlinum grá. Í miðaldakvæðum eru nokkrar frásagnir af því, að Valvin hafi verið handtekinn og settur í dyflizu, og telur R. S. Loomis þær upp í bók sinni Geltic Myth and Arthurian Romance, bls, 326, o. áfr. Kunnust þeirra er frásögnin af dyflizunni illu eða kvalafullu í Lancelot (Vúlgötu-gerðinni). Í þeirri frásögn segir, að Valvin liggur særður í dyflizunni, sem Carados ræður fyrir, og hefur móðir Carados eitrað sár Valvims, en dyflizan er líka full af eiturormum. Það vill til, að stúlka, sem Carados sækist eftir og er í borg hans, hatar hann og græðir Valvin. Og þegar Lancelot kemur til að bjarga Valvin, hjálpar stúlkan honum til að ná í sverð Carados, en með því einu er unnt að drepa hann.20) Hér er margt ólíkt rímunum, en aðalpersónurnar í frásögn þeirra eru þó hér (Valvin, óvinurinn og móðir hans, stúlkan, sem virðist numin á brott, og riddarinn, sem bjargar). Önnur saga af fangavist Valvins er í Lanzelet eftir Ulrich von Zatzikhoven o.s.frv. Annars er ekki víst, að fanginn hafi verið Valvin í heimild R (eða S), vel mátti taka aðra fangasögu, sem Valvin var eitthvað við riðinn, og laga hana til heiðurs Sveini.

3) Lýsingin á turm Karlsins grá er mjög einkennileg, og þætti mér ekki ólíklegt, að hér væri að ræða um óljósar sagnir af köstulum sem snúast eða hreyfast. Það sagnaminni er algengt í sögum af Artúsköppum.21) Það er líka algengt í írskum frásögnum, meðal annars er það í sögunni af Cúroi.22) Líklegt er, að þetta minni komi fyrir í Fjölsvinnsmálum (32. v.), þar sem talað er um sal, er á brodds oddi bifast, en annars man ég ekki eftir því í íslenzkum heimildum nema þá hér.

4) Loks er frásagan af fjöreggi Karlsins grá. Tvær aðrar gamlar Íslenzkar frásögur af fjöreggi þekki ég, en það er í Bósasögu hinni yngri, væntanlega frá eitthvað líkum tíma og S eða jafnvel síðar, og Sigurgarðs sögu frækna, sem er frá 14. eða 15. öld. Ýmislegt í þeirri sögu er líkt og í R. Þar segir, að Hlégerður tröllkona lá í drekalíki á fjöreggi sínu inni í hóli einum, en hann var í hólma í vatni. Áður en Sigurgarður frækni rær út í hólmann, verður hann að berjast við nautamann Hlégerðar, jötun vopnaðan járnvarðri kylfu. Nú má vera, að vatmð og hólmurinn sé komið úr Sigurgarðssögu, en annars er frásögn þeirrar sögu miklu óeðlilegri, því að fjöreggið er þar ekki notað til að drepa skessuna, heldur er hún hálsbrotin, en eggið er haft til að kasta því á nef Ingigerðar kóngsdóttur, sem er í álögum skessunnar. Er þetta vitanlega aflagað, en í R er alli eðlilegt, og ekki er ég viss um, að R séu neitt háðar Sigurgarðssögu. Líkingaratriðin mega vel vera úr munnlegum frásögnum.

Um allar jarðir eru sagnir af því, að sál eða líf manns sé varðveitt í einhverjum hlut utan líkamans (Thompson E710), og er fjöreggið sérstök gerð þess minnis (Thompson E711,1), Það kemur sjaldan fyrir í gömlum ritum, og eru hin íslenzku, sem nefnd voru, meðal hinna elztu. En elzt allra heimilda um þetta mun vera írsk frásögn af dauða Gúrois, einmitt sömu hetjunnar, sem lék þann leik að láta Cúchulin höggva af sér höfuðið, en þessi frásaga er í handriti frá 16. öld, en textinn er þó talinn miklu eldri, eða frá 8. eða 9. öld.23) Hér segir frá því, að Gúroi nemur á brott Blathnat konungsdóttur, og Cúchulin leitar hana uppi. Hún tælir svo Gúroi til að segja, hvernig hann verði drepinn, og í einni gerð sögunnar er nefnt fjöreggið: Við Slhab Mís var lind og í henni lax, sem aðeins sást sjöunda hvert ár, í honum var gullinn knöttur eða egg, og varð að höggva það með sverði Cúrois.24)

Í hinum írsku sögnum af Gúroi eru fimm eftirtektarverð atriði:

1) Hann lék þann leik að láta höggva höfuð af sér.

2) Cúroi er stundum kallaður maðurinn í gráa kuflinum.25)

3) Hann nam á brott konu.

4) Hann hafðist við í húsi, sem hreyfðist.

5) Hann varð ekki drepinn nema fjöregg hans væri sprengt.

Í rauninni gæti hér svo mæta vel verið að ræða um uppistöðu allrar frásögunnar af Karlinum grá í R, og er freistandi að hugsa sér það. En líka má hugsa sér þetta sett saman úr Artússögum að viðbættu einu og öðru (einkum þá fjöregginu) úr íslenzkum þjóðsögum. Að svo komnu máli tek ég þann kostinn að skiljast við þetta mál óútkljáð.

IV. þáttur rímnanna er enn með nýjum blæ, það er helgisaga, sem skáldið hefur venð hrifið af og segir vel frá. Þessi kafli greinir fyrst frá burtreið Sveins úti á skógi við þrjá ókunna riddara, svartan, rauðan og hvítan, en það eru raunar þjónar himnakonungs, dýrlingarnir Demetríus og Merkúríus og engillinn Michael. Vel fer á því, að þessir dýrlingar fari í burtreið við Svein, því að þeir voru riddarar og verndarar riðdara. En einkennilegt er það, að þeir voru einkum dýrkaðir í austurkirkjunni; hinn þriðji helgi riddari, sem þar var dýrkaður, var St. Sergíus, og má nafn Miklagarðskonungs í rímunum því vera úr sömu heimild og þessi tvö nöfn, hver sem hún annars kann að vera. Vera má, að til séu helgisögur með burtreið líkri þessari, þó að ég þekki þær ekki. Að öðrum kosti gæti þessi kafli verið tilbúinn af höfundi S eða R með hliðsjón af frásögnum riddarasagna af þriggja daga burtreið, þar sem á hverjum degi kemur riddari með nýjum og nýjum lit.26)

Þá kemur frásögnin af för Michaels og Sveins til Lifandi manna lands. Aðalheimildin er þar Eiríks saga víðförla, sem varðveitt er í Flateyjarbók, þar er sagt frá líku ferðalagi, og eru mörg smáatriði eins, svo sem steinboginn með drekanum, lýsing landsins, hús hangandi í lofti o. þ.h. Eins vist er þó, að þetta er ekki eina heimildin, sem farið er eftir í R. Áður var bent á Gladius og Versatilis, sem þó er lítils vert. En lýsingin á höllinni, eftirmynd himnaríkis, og píslum fordæmdra eru sýnilega viðbætur og eflaust úr einhverjum öðrum frásögnum af mönnum, sem leiddir voru í annan heim.27)

Lokin á leiðslunum eru mjög öðruvísi í R en sögu Eiríks, því að Þegar hestur Sveins stígur á jörð, fellur hann dauður, en Sveinn finnur, að hann er orðinn hrumur af elli, og kemst hann síðan að því, að hin stutta stund, sem hann hugði sig vera í paradís, var raunar mörg hundruð ár. Þá er þess og getið, að Sveini fannst fólk hafa minnkað, og land og hús öll smærri en áður.

Nú er þess fyrst að gæta, að til eru nokkrar leiðslusögur, sem segja frá því að tíminn leið í Lifandi manna landi líkt og fyrir Sveini. Þar til má nefna söguna af munkinum, sem hlýddi á söng fuglsins úr paradís (Gering: Ísl. ævintýri nr. 34), söguna af hinum vonda presti, sem sá ýmis tákn í öðrum heimi (JÁ II 34; FEC 83, bls. 51) og helgisöguna af ítalska hertoganum, sem ég veit þó ekki að þýdd hafi verið á íslenzku.28) Auk þessa er sagt frá svipuðu hvarfi tímans í huldufólkssögum og keltneskum sögum af Ódáinsakri; nefni ég þar einkum sagnir af Ossían, sem var öldum saman hjá álfadrottningunni, en langaði til að sjá Írland; var honum þá bannað að stíga fæti á jörð, en er hann braut móti því boði, varð hann þegar blindur og gamall.29) Frásögnin af úrkynjun mannfólksins og afturför landsins er mjög í samræmi við hugmyndir, sem finnast bæði hér á landi og annarstaðar.30) En sérstaklega er þó vert að minnast þess, að í kvæðum og sögum af Ossían er þess einmitt getið, að þegar hann kom aftur til Írlands, var öllu farið aftur, og mennirnir voru orðnir smáir hjá því sem áður var.31) Einhverjar þessu líkar sögusagnir er hér stuðzt við, en hér mun sem ella í R (og S), að minni eru sótt í allar áttir. En kjarni þessa síðasta þáttar er helgisagnaefni.

Ef fylgt er söguþræðinum frá upphafi til enda, er greinileg stígandi í efninu. Frá skrumsögum fyrsta kaflans komum við í heim Karlamagnússögu, þá koma undur og kynjar þriðja þáttarins með reglulegum ævintýrablæ, og loks fær leikur ímyndunaraflsins innihald og alvarlega stefnu í leiðslusögu fjórða kaflans.

Einar Ól. Sveinsson.


Neðanmálsgreinar

3. Hálfdan Einarsson: Sciagraphia 85; Rithöfundatal Hallgríms djákna Jónssonar
4. Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags
5. JSig. 101
6. JSig. 96 4to eftir Add. 3 fol.
7. JSig. 30 4to.
8. Vísan er í Sveinsrímum II
9. Rétt þykir að minna hér á
10. Ísl. fornbrs. XV
11. Cederschiöld: Fornsögur Suðrlanda
12. Sbr. Gederschiöld
13. Sjá Festschrift för Mogk
14. Sjá Skirni 1932
15. Sjá J.D.Bruce:. The Evolution of Arthurian Romance 11
16. Sjá Moltke Moe: Samlede Skrifter II
17. Sbr. einkum Jan de Vries: Studiën over færösche balladen
18. Jan de Vries tilfærir
19. Fornaldarsögur Norðrlanda II
20. Bruce
21. Sjá Bruce II 16 nm.
22. Sjá A.C.L. Brown
23. Sjá Wesselski: Versuch einer Theorie des Márchens
24. Sjá Loomis
25. Loomis 12–13. Loomis o.fl. hafa getið þess til
26. Sjá Thompson R229
27. Drekinn líkist dreka
28. Um helgisögur þessar sjá L. L. Hammerich
29. Heartland: Science of fairy tales
30. Sbr. E.Ó.S.: Um íslenzkar þjóðsögur 176 nm.; A. Olrik: Ragnarök
31. Sjá R. Th. Christiansen: The vikings and the viking wars in Irish and Gaelic tradition